Fátt toppar tjaldútilegu á fallegu sumarkvöldi.
Fátt toppar tjaldútilegu á fallegu sumarkvöldi. — Ljósmyndir/Jon From Iceland
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var ekki fyrr en ég fékk bílpróf sem ég byrjaði svo að fara í þessar ævintýraferðir mínar. Mér fannst gaman að fara út á land og sýna frá því. Svo byrjuðu fleiri og fleiri að sýna því áhuga. Þetta byrjaði hægt og rólega,“ segir Jón

Það var ekki fyrr en ég fékk bílpróf sem ég byrjaði svo að fara í þessar ævintýraferðir mínar. Mér fannst gaman að fara út á land og sýna frá því. Svo byrjuðu fleiri og fleiri að sýna því áhuga. Þetta byrjaði hægt og rólega,“ segir Jón. Í dag er hann með mikinn fjölda fylgjenda á Instagram og TikTok.

„Ég man að fyrst þegar ég var að fara út á land fannst öllum ég frekar skrítinn. Þetta var einhvern veginn ekki það sem fólk var að gera um helgar. Ég sá þegar ég póstaði á fullu og sýndi frá einhverjum ferðalögum þar sem ég var að njóta mín úti á landi fóru fleiri að gera það sama,“ segir Jón.

Hvenær áttaðir þú þig á því að þú gætir unnið við það sem þér fannst skemmtilegast?

„Mér fannst alltaf ótrúlega gaman að fara út á land og byrjaði á því. Þetta var bara eitthvað sem ég gerði mér til skemmtunar. Svo byrjaði ég að fá fyrirspurnir frá fyrirtækjum um að taka vörur út á land og mynda eða mynda mig í vörunum. Svo fóru hótel og afþreyingafyrirtæki að biðja mig um að mynda fyrir sig. Ég byrjaði að framleiða markaðsefni tengt ferðaþjónustu. Þetta var í rauninni áhugamálið sem ég lifði fyrir og það varð að vinnunni minni,“ segir hann.

„Í dag er ég mikið fastur í verkefnum í Reykjavík eða á flakki erlendis en reyni eins og ég get að fara út á land þegar ég á lausa daga. Ég er búinn að taka frá í dagatalinu hjá mér nokkra daga í mánuði þar sem ég skipulegg einhverja skemmtilega ævintýraferð.“

Alltaf með markmið

Að upplifa eitthvað nýtt, að upplifa ævintýri er það sem dreif Jón áfram. „Ég fer aldrei út á land nema að vera með eitthvað markmið. Ég ætla í fjallgöngu, tjalda á framandi stað, skoða einhvern nýjan foss, eða nýtt gljúfur og svo enda ég flest kvöld á því að kveikja varðeld,“ segir Jón sem dæmi um það sem hann gerði.

Í dag stoppar Jón sjaldan á stöðum á borð við Seljalandsfoss, Skógafoss, Reynisfjöru eða Jökulsárlón. Honum finnst skemmtilegra að uppgötva nýja staði sem eru ekki vinsælir hjá hinum venjulega ferðamanni.

Hvernig fannstu áhugaverða staði þegar þú byrjaðir að fara út á land?

„Þetta var meira eitthvað sem spurðist út. Ég frétti af einum af mínum uppáhaldsstöðum frá bónda sem er með Hoffellspottanna rétt hjá Höfn í Hornafirði. Hann kom til mín og sagði mér frá því að lónið við jökulinn væri alveg frosið. Ég fór þangað, fann lónið og skoðaði það. Núna er það vinsæll staður en á þessum tíma vissi enginn að það væri hægt að ganga á klakanum þar. Þetta er dæmi um hvað maður var að uppgötva mikið af nýjum stöðum þá. Nú er þetta allt orðið svo útsprengt,“ segir Jón og bætir við að þessi þróun hafi orðið á aðeins örfáum árum.

Nándin við jöklana mögnuð

Það eru einna helst jöklarnir sem heilla Jón við Suðausturlandið. „Suðurlandið er eiginlega eini staðurinn sem þú ert með svona mikla nánd við jöklana og svona gott aðgengi að þeim. Þess vegna er ég svona meira á Suðausturlandi. Mér líður ekki eins og ég sé kominn út á land fyrr en ég er kominn fram hjá Vík í Mýrdal. Ég skýst alveg í dagsferðir að Jökulsárlóni og aftur heim. Mér finnst ekkert mál að keyra úti á landi, ég er alltaf hvort sem er að keyra eitthvert. Það skiptir mig engu máli hvort ég keyri í klukkutíma, þrjá tíma eða fjóra. Það hefur hjálpað mér að ferðast, mér finnst tíminn á ferðalaginu svo skemmtilegur,“ segir Jón sem nýtir meðal annars tímann í bílnum til þess að tala við fólkið sitt og hlusta á tónlist.

Að horfa á jöklana úr fjarlægð er ekki nóg þar sem hann hikar ekki við að klifra í þeim. Hann hefur tekið námskeið og ferðast um með búnað með sér. „Þetta getur verið rosalega hættulegt. Ef ég tek einhvern með mér þá er ég með hann í bandi af því fólk heldur að það geti gengið og kíkt á eitthvað sem því finnst flott. Þú ferð ekkert út fyrir leið nema vita hvað þú ert að gera. Ég hef verið þannig að ég fíla ekki að ferðast í stórum hópum. Ævintýramennskan í mér er að leita í það sem fólk gerir ekki. Ef einhverjum finnst eitthvað hættulegt eða ekki sniðugt þá finnst mér það spennandi.“

Er fólk ekki með áhyggjur af þér?

„Jú, jú. En það hefur minnkað með tímanum en þau vita að ég fer alltaf varlega. Eitt af því sem mér finnst rosalega gaman að gera, og ég geri á hverju ári, er að ganga Fimmvörðuháls í lok október með tjald í bakpokanum. Ég hef vanalega farið einn en í fyrra tók ég í fyrsta skipti félaga minn með mér. Þá er enginn ennþá að ganga þessa leið, það eru ekki fótspor og það er kominn mikill snjór og vanalega frekar vont veður. Mér finnst ekki nógu spennandi að fara á sumrin þannig ég bíð þangað til þetta er orðið áhugavert Þetta er dæmi um hvað maður er að fara út í.“

Hvert á fólk að fara í sumar?

„Þessar einnar nætur ferðir eru rosalega skemmtilegar og það hjálpar að vera með jeppa eða bíl sem kemst aðeins lengra en bara á malbikið. Að fara inn í Þórsmörk eða Landmannalaugar er eitthvað sem allir þurfa að prófa. Þegar þú ert að keyra á Suðurlandi verður þú að horfa í kringum þig og prófa að keyra sveitavegina sem liggja í átt að jöklunum og sjá hvert þeir taka þig. Það er svolítið mikið sem ég geri. Ég keyri bara og svo sé ég slóða og beygi þangað og ef ég er á spennandi stað þá legg ég bílnum og rölti eitthvað,” segir Jón sem endar stundum úti í skurði en stundum finnur hann algjörar perlur – þannig gerast ævintýrin.

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir |