Gatnagerð er langt komin á uppbyggingarreit í miðbænum á Hvolsvelli og vænst er að framkvæmdir við húsin, sem þar á að reisa, hefjist á haustdögum. Gamlir braggar sem áður stóðu á þessu svæði voru flestir rifnir á síðasta ári og rýmt til á svæðinu sem er að baki verslunarhúsi Krónunnar við aðalgötuna í bænum.
Fyrirtækinu VHT ehf. hefur verið úthlutað lóðunum á þessu svæði og á þess vegum stendur hönnunarvinna á byggingunum nú yfir. Til þess hefur fyrirtækið frest út sumarið, en samkvæmt deiliskipulagi svæðsins er meginlínan sú að þarna skuli reist tveggja hæða hús, sum með risi. Á neðri hæðum verður verslunar- og þjónustustarfsemi en íbúðir á þeim efri.
Mikill áhugi er á verkefninu en hugsunin með framkvæmdunum er meðal annars að breyta ásýnd Hvolsvallar og eins að svara mikilli eftirspurn eftir húsnæði á staðnum, segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra. sbs@mbl.is