Telja má líklegt að farið verði fram á að stjórnarkjör á komandi hluthafafundi í Íslandsbanka. Ekki liggur fyrir hvenær fundurinn verður haldinn, en stjórn bankans hefur orðið við beiðni Bankasýslu ríkisins um að haldinn verði hluthafafundur.
Ríkið og lífeyrissjóðir eiga um 75% hlut í Íslandsbanka og hafa það hlutverk að ákveða hvernig næstu skrefum bankans verður háttað. Forsvarsmenn Bankasýslunnar, allra stærstu lífeyrissjóða í eigendahópi bankans – að ónefndum stjórnmálamönnum – hafa allir lýst yfir vonbrigðum með starfshætti bankans við sölu á 22,5% hlut ríkisins í mars í fyrra, í kjölfar sáttar bankans við fjármálaeftirlit Seðlabankans sem birt var á mánudag.
Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans hafa aðilar úr hópi hluthafa rætt það sín á milli að þess verði óskað að stjórnarkjör fari fram á fundinum. Fulltrúar stórra hlutafa í bankanum telja að bankinn þurfi að fara í mikið átak til að endurheimta traust og trúverðugleika og til þess þurfi stjórn bankans endurnýjað umboð til að taka næstu skref um framtíð bankans. Það snýr einnig að áframhaldandi samrunaviðræðum við Kviku banka, sem staðið hafa yfir frá því í febrúar á þessu ári. » ViðskiptaMogginn