Langþráð Samkomulagið var handsalað í Ráðherrabústaðnum.
Langþráð Samkomulagið var handsalað í Ráðherrabústaðnum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sjúkratryggingar Íslands og Læknafélag Reykjavíkur hafa gert samkomulag um þjónustu sérgreinalækna. Um langtímasamning er að ræða til næstu fimm ára. Hann er sagður tryggja fólki umtalsverða lækkun á greiðsluþátttöku fyrir veitta þjónustu sem á að verða betri og aðgengi að henni auðveldara

Sjúkratryggingar Íslands og Læknafélag Reykjavíkur hafa gert samkomulag um þjónustu sérgreinalækna. Um langtímasamning er að ræða til næstu fimm ára. Hann er sagður tryggja fólki umtalsverða lækkun á greiðsluþátttöku fyrir veitta þjónustu sem á að verða betri og aðgengi að henni auðveldara. Fjármagn til þjónustu sérgreinalækna er aukið um 4,2 milljarða króna á ársgrundvelli.

Aukagjöld sem hafa verið lögð á sjúklinga undanfarin ár munu falla niður. Nýr samningur þýðir að greiðsluþátttaka fólks sem leitar til sérgreinalækna mun lækka um allt að þrjá milljarða á ári og greiða á fólki leið að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Samningurinn er langþráður en sérgreinalæknar hafa verið samningslausir frá því í byrjun árs 2019.

„Þessi samningur markar tímamót,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. „Að tryggja gott og jafnt aðgengi að þessari mikilvægu læknisþjónustu óháð efnahag er mikið gleðiefni og í samræmi við stefnu stjórnvalda. Þetta er samningur sem gerður er í góðri sátt. Horft er til framtíðar og samráð eflt milli allra aðila þannig að hægt sé að þróa heilbrigðisþjónustuna áfram í takt við þörf samfélagsins.“

Í nýja samningnum er að finna ýmis ákvæði til að hvetja til nýsköpunar og framþróunar til hagsbóta fyrir fólk.