Áður en brunað var að Sólheimajökli var ákveðið að skoða fossinn Gljúfrabúa sem er nágranni Seljalandsfoss. Langt var síðan gestgjafarnir skoðuðu Seljalandsfoss. Við komumst að því að ekki var hægt að leggja bílnum við kant, skoppa yfir næsta tún og skoða fossinn, stöðumælaverðir sáu til þess. Við enduðum á að leggja við Seljalandsfoss og það verður seint sagt eftir að það sé bara erfitt að fá bílastæði í miðbæ Reykjavíkur! Þrátt fyrir bílastæðaerfiðleika var ferðin góð. Það er gaman að skoða Gljúfrabúa en fossinn sjálfur er falinn bak við stóran stein. Það þarf að leggja sig í hættu, stikla á steinum og vökna aðeins til þess að berja fossinn augum. Þjóðbúningarnir frá 66°Norður blotnuðu en margir erlendir ferðamenn voru í einnota ponsjóum. Stoppið var skemmtilegt og þess virði.
Ævintýri á jökli
Næst var haldið að Sólheimajökli þar sem skoða átti jökulinn. Það kom nokkuð á óvart hvað aðstaðan á bílastæðinu við Sólheimajökul var góð og greinilegt að uppbygging í kjölfar ferðamannastraumsins undanfarin ár hefur skilað sér. Fyrir fólk sem ekki ætlar upp á jökulinn er hægt að virða hann fyrir sér af góðum stíg sem óhætt er að mæla með. Ég hafði hins vegar bókað ferð í jöklagöngu með leiðsögn fagfólks. Ég las ekki ferðalýsinguna áður en ég lagði af stað og hélt ég væri að fara í einhvers konar áhrifavaldajöklaferð þar sem ég færi með jeppa upp á jökul og hefði það notalegt á meðan. Annað kom á daginn.
Þegar ég mætti var mér rétt ísexi, hjálmur og broddar. Eftir góða, skemmtilega og stundum erfiða göngu var í boði að klifra á jöklinum. Það var ekki fyrir mig í þessari ferð. Það kom nógu mikið á óvart að ég þyrfti að ganga á jöklinum. Það er í rauninni synd að hafa ekki farið upp á jökul fyrr og ættu allir að drífa sig sem geta. Við keyrum fram hjá jöklunum, tölum um að þeir séu að hopa en höfum ekki endilega komist í snertingu við þá. Það er merkilegt að finna fyrir ísnum undir fótum sér, sjá hann bráðna og sjá hvernig íshellar breytast dag frá degi. Jöklar eru náttúrufyrirbrigði sem stundum virðast fjarlæg okkur en eru í raun í næsta nágrenni.
Þrátt fyrir áhrifaríka ferð var ekki síður mikil upplifun að verja nokkrum klukkutímum með erlendum ferðamönnum. Sumir ætluðu að gera svo margt á einum sólarhring að þeir ætluðu ekki að sofa. Það kom jafnvel til greina að skilja útivistarfatnaðinn eftir á Íslandi. Hver þarf á vettlingum að halda þar sem hitinn fer aldrei niður fyrir frostmark? Einn ferðamaður vildi hjálm í stíl við vindjakkann fyrir myndirnar á Instagram. Annar sagði öllum sem vildu heyra hvernig hann hefði misst sjónina á ferðalagi um Asíu en fengið hana aftur. Í leiðinni fékk hann vitrun og ákvað að gerast augnlæknir. Hann ákvað að safna fyrir náminu með því að gefa sambandsráð á TikTok. Þessa hluti er ekki hægt að skálda upp auk þess sem mér detta í hug betri leiðir til að safna fyrir háskólanámi í Bandaríkjunum. Já, fólkið er ekki síðra en jöklarnir.
Fiskur og sund
Eftir jöklaklifur og margra klukkutíma göngu á broddum með ísexi var haldið í átt að borginni aftur. Það var ekki hægt að keyra aftur heim án þess að leyfa Njáli okkar að dýfa sér í Seljavallalaug. Fjölmargir voru á ferð en þrátt fyrir það var gangan að þessari gömlu laug og sundspretturinn í drullupollinum besta baðferð Írans – jafnvel þó enginn bjór hafi verið í boði á sundlaugarbakkanum. Þótti honum þessi gamla laug betri en Sky Lagoon og Bláa lónið.
Þegar hingað var komið voru garnirnar byrjaðar að gaula. Í föðurlandinu og ullarpeysum var stoppað á Selfossi. Góður fiskur á Messanum í gamla nýja miðbænum á Selfossi var hápunktur dagsins. Þegar við vorum komin heim fór ég þreytt og sæl í rúmið en gesturinn bjó sig undir fimm daga Laugavegsgöngu í þoku og rigningu.