Bækur
Snædís Björnsdóttir
Skáldsagan Óbragð eftir Guðrúnu Brjánsdóttur er grátbrosleg samtímasaga sem á sér stað í miðjum kórónuveirufaraldri. Bókin, sem er fyrsta skáldsaga höfundar, fjallar á gamansaman hátt um ferðalag kakókölts um öræfi Íslands og dregur upp sprenghlægilega mynd af samtímanum. Hún hefur nú þegar verið þýdd og gefin út í Danmörku undir titlinum Kakaokulten.
Óbragð segir frá verkfræðinemanum Hjalta, leið hans út úr ástarsorg og vegferð í átt að sterkari sjálfsmynd. Þetta er hrakfallasaga og upphaflega gengur allt á afturfótunum: kærastan er flutt út, vinirnir hegða sér undarlega og sumarstarfið er niðurdrepandi. Tilvera Hjalta er bragðlaus, og það bókstaflega, því kórónuveiran hefur svipt hann bæði bragð- og lyktarskyninu. Í þokkabót þjáist hann af heiftarlegum kvíða og svefnleysi og stendur í eilífri baráttu við ímyndaðar veggjalýs. Þegar hann kynnist Kakófylkingunni, hugleiðsluhópi sem kemur saman og drekkur rótsterkt kakó frá Gvatemala, virðist þó loksins ætla að rofa til. Leiðtogi Kakófylkingarinnar er hin ómótstæðilega ofurkona Hildigunnur, og undir hennar forystu fer hópurinn í tjaldferðalag upp í óbyggðir landsins. Ferðalagið reynist örlagaríkt og skyndilega er Hjalti kominn út á hálan ís.
Það er langt síðan ég hef hlegið jafn mikið yfir bók. Það er heldur ekki nóg með að sagan sé bráðfyndin, heldur hefur hún fram að færa skarpa sýn á samtímann. Hún fangar andrúmsloft síðustu ára, á tímum kóvid og hamfarahlýnunar, nokkuð vel og ekki síst þá tilfinningu að búa við stöðuga óvissu. Hvað er til bragðs að taka þegar áður óþekktur faraldur skekur heimsbyggðina og framtíðin hefur mögulega aldrei verið óvissari? Á að hlæja eða gráta? Stundum, þegar veruleikinn er grár og framtíðin virðist jafnvel sótsvört, er hláturinn það eina sem léttir lífið. Samfélagsumræða síðustu ára fléttast svo inn í frásögnina og úr verða broslegar senur um kakóseremóníur og saumaklúbba, jákvæða karlmennsku, baðtíma á elliheimilum og hugleiðslu á bak við fossa.
Þó bókin fjalli kannski ekki beinlínis um kóvid þá litar faraldurinn frásögnina. Við lesturinn rifjaðist þannig upp fyrir mér ýmislegt um faraldurinn sem ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir að ég væri búin að gleyma, tilfinningin við það að lenda í sóttkví eða einangrun, óttinn við að smitast eða bera smit áfram, bið eftir bólusetningu og fjarlægðarmörk. Í bókinni er unnið með þessi minni á eftirtektarverðan hátt og þau verða hluti af margræðni sögunnar.
Sögupersónur bókarinnar eru skrautlegar og minnisstæðust er ef til vill Hildigunnur, leiðtogi Kakófylkingarinnar. Hún er sterkur karakter og óútreiknanleg, en afar heillandi fyrir vikið, magadansari og jógakennari undir miklum austrænum áhrifum en „of miðaldra til þess að átta sig á að hún sé að stunda menningarnám“ (25).
Fagrar náttúrulýsingar og vísanir í íslenska þjóðtrú eru áberandi í sögunni og ekki er erfitt að sjá fyrir sér að bókin höfði til erlendra lesenda sem áhugasamir eru um land og þjóð, en eins og áður hefur verið nefnt hefur bókin nú þegar komið út í Danmörku. Skaftafellsþjóðgarður er þannig helsta sögusvið bókarinnar og umhverfið kallar á vangaveltur um náttúruvernd. Um miðbik bókar eiga aðalpersónan Hjalti og þjóðgarðsvörðurinn Kría gráthlægilegt samtal ofan á jökulöldu um heimsendakvíða og einstaklingsframtakið. „Af hverju ekki að njóta lífsins þangað til að jörðin stendur í ljósum logum?“ spyr Kría (105). Hárfínn og beittur húmor gegnsýrir frásögnina og úr verður gamansamur texti sem hittir á fíngerða taug í íslenskum samtíma.
Það er margt undir í þessari skemmtilegu sögu. Frásagnarhraðinn er mikill, þræðirnir margir og ólíkar hugmyndir tvinnaðar saman. Ef til vill hefði mátt hægja sums staðar á og leyfa margræðni textans að njóta sín. Þannig mætti höfundur á köflum treysta lesandanum örlítið betur til að ráða í söguna.
Óbragð er frábær bók sem skartar litríku persónugalleríi og kitlar hláturtaugarnar. Hún er í senn húmorísk og bragðmikil, næm á samtímann, rík af innsæi, vel skrifuð og skemmtileg og ætla má að hún höfði til breiðs hóps lesenda. Þetta er jafnframt tilvalin bók til þess að taka með sér út í sumarið.