Mig langaði alltaf að fara í göngur og kynnast náttúrunni betur en var hálfpartinn feimin við náttúruna og hennar veldi. Það var ekki fyrr en ég þurfti að leggja takkaskóna á hilluna vegna meiðsla og var komin með ógeð á því að æfa fyrir framan spegil í ræktinni, að ég ákvað að taka af skarið og fara í fjallgöngu. Ég fann strax hversu eflandi og styrkjandi áhrif náttúran og fjallganga hafði á mig. Með tímanum fór ég meira og meira að vera í útivist og þegar kórónuveirufaraldurinn skall á ákvað ég að útbúa mér lítinn ferða „camper“ og ferðast á honum ein um Ísland. Ég var á honum í tæpt eitt og hálft ár að ferðast um landið og vinna í höfuðborginni,“ segir Villimey þegar hún er spurð hvernig áhuginn kviknaði.
Villimey stefnir í framtíðinni á að blanda útivistaráhuganum saman við starf sitt sem þroskaþjálfi og segir náttúruna hjálpa fólki. „Starfið í höfuðborginni hafði mjög mótandi áhrif á mig og ferðabakteríuna mína. Á sama tíma og ég var að demba mér meira í útivist starfaði ég sem þroskaþjálfi á áfangaheimili í Mosfellsbæ. Þar var ég svo lánsöm að fá rými til þess að rými til þess að nota náttúruna sem verkfæri í starfi með þjónustuþegum. Ég tók strax eftir hversu jákvæð og góð áhrif þetta hafði á þjónustuþega og einnig mig sjálfa sem starfsmann. Þar kviknaði áhugi minn á því að fara með ferðabakteríuna ennþá lengra og samtvinna ástríðu mína fyrir útivist og þroskaþjálfun. Ég tók þá ákvörðun að skrá mig í Fjallamennskunám FAS. Þar kynntist ég fjallamennskunni almennilega og var í hópi með yndislegum einstaklingum sem höfðu sömu ástríðu og ég. Núna er ég ennþá á þeirri vegferð að öðlast meiri þekkingu og reynslu svo ég geti á næstu árum samtvinnað útivist og þroskaþjálfun. Markmið mitt einn daginn er að halda utan um útivistarhópa fyrir einstaklinga sem búa yfir geðrænum áskorunum og/eða þau sem hafa lent í erfiðum áföllum.“
Ekki flókið að byrja í útivist
„Að ferðast og vera með náttúrunni gefur mér sjálfa mig. Ég þarf að standa frammi fyrir sjálfri mér og treysta á mína þekkingu og kunnáttu. Í öllum hamaganginum í borginni á ég það til að sogast inn í streituna sem umlykur borgina og á það til að gleyma sjálfri mér. Um leið og ég kem út úr borginni finnst mér ég geta andað aftur og get ekki beðið eftir að fara úr skónum og labba úti á tásunum. Ég hef mest ferðast ein en núna þetta sumar hef ég verið að ferðast meira með öðrum einstaklingum og hefur það gefið mér svo mikið. Mikið traust og virðing þarf að vera til staðar svo ferðir heppnist vel. Í öllum ferðalögum með öðrum gefum við frá okkur orku og þekkingu og á sama tíma tökum við á móti orku og þekkingu frá öðrum. Ferðalög hafa gefið mér sjálfsöryggi, traust og virðingu fyrir sjálfri mér.“
Heldurðu að fólk mikli það fyrir sér að byrja í útivist á fullorðinsaldri?
„Það þarf alls ekki að vera flókið að byrja í útivist á fullorðinsaldri. Núna eru til dæmis komnir gönguhópar út um land allt sem hægt væri taka sín fyrstu skref í útivist. Útivist er regnhlífarorð fyrir alls konar afþreyingu sem stunduð er utandyra en ég hvet alla að vera duglega að fara í göngur til þess að kynnast náttúrunni og mismunandi landslagi. Út frá því er síðan hægt að byggja upp alls konar áhugamál, til dæmis eru mín helstu áhugamál þessa stundina jöklagöngur, klettaklifur og fjallaskíði. Öll þessi áhugamál spruttu upp hjá mér fyrir tæpum tveimur árum og ég var þar algjör byrjandi. Núna hef ég farið ótal sinnum upp jökla, skíðað á stöðum sem ég bjóst aldrei við að ég myndi nokkurn tímann þora fara niður og nánast sigraðist á lofthræðslu minni í klifri. Ég er alls ekki góð, mun aldrei vera best en þetta gefur mér svo mikla ánægju og lífsorku. En númer eitt, tvö og þrjú er að taka á skarið, trúa á sjálfan sig og byrja.“
Suðausturlandið í miklu uppáhaldi
„Suðausturlandið er einn magnaðasti staður sem ég hef farið á. Fegurðin umlykur þetta svæði og fólkið þar er svo dásamlegt. Að keyra þjóðveginn er upplifun út af fyrir sig en inn á milli allra fjallanna þarna eru paradísir sem er svo gaman að ganga og skoða. Mér líður alltaf eins og ég sé komin heim þegar ég fer þangað og á alltaf erfitt með að fara aftur í borgina.“
Áttu þér uppáhaldsgönguleið á Suðausturlandi?
„Það er engin ein leið sem ég á sem er uppáhalds. Geitakinn er sú fyrsta sem mér datt í hug þar sem ég gekk hana ekki fyrir svo löngu og var sú leið alveg dýrðleg. Gangan er löng, um 20 kílómetrar. Ég hóf gönguna frá bílastæðinu við Heinabergslón og gekk að Geitakinn. Mikil hækkun er í byrjun en útsýnið í göngunni er alveg dásamlegt. Ég myndi kannski ekki alveg mæla með þessari göngu fyrir byrjendur þar sem hún er löng og brött í byrjun en hún er alls ekki tæknilega krefjandi.
Jöklagöngur og ísklifur hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér að undanförnu þar sem mig langar að vera öruggari upp á jökli, þar standa alltaf tveir jöklar upp úr hjá mér og eru það Falljökull og Kvíárjökull sem mér þykir alltaf ótrúlega vænt um.“
Hvar á fólk sem er að taka sín fyrstu skref í útivist að byrja?
„Fyrir byrjendur þá mæli ég með að fara gönguleiðirnar í Skaftafelli. Þar eru skemmtilegar, fjölskylduvænar gönguleiðir sem og meira krefjandi fyrir þau sem eru komin aðeins lengra. Gaman er að tjalda í Skaftafelli og taka nokkrar göngur þar á nokkrum dögum. Leiðirnar eru stikaðar og mjög vel merktar. Þjóðgarðsverðirnir í Skaftafelli eru mjög fróðir um svæðið og gaman er að spjalla við þá um gönguleiðirnar áður lagt er af stað.“
Hefur þú lent í einhverju sérstaklega eftirminnilegu á ferðum þínum um svæðið?
„Það sem stendur bara upp úr er öll vináttan sem maður hefur öðlast á ferðunum um svæðið.“
Toppaði Eyjafjallajökul í júní
Hvað borðar þú þegar þú ert á ferðalagi?
„Mér finnst mjög mikilvægt að vera með nægan mat þegar ég legg af stað. Næring er mjög mikilvæg þegar maður stundar útivist og það er mikilvægt að finna hvaða næring hentar best í takti við þá útivist sem maður er að stunda. Það fer alveg eftir ferðalögunum hvað mér finnst best að borða. Ég reyni alltaf að hafa matinn minn mjög fitu og próteinríkan því það hentar mér best, síðan er ég alltaf með nokkur orkustykki með mér sem eru dekkhlaðin af kolvetnum. Undanfarið hef ég verið að útbúa mér líka orkutortillur, en á þær set ég möndlusmjör, möndlur, fræ, hnetur, rúsínur og rúlla þeim upp. Þarna er ég komin með orkusprengju sem maganum mínum finnst alveg æðislega gott. Síðan passa ég mig að muna eftir vatninu, drekka nóg af vatni.“
Hvað ætlar þú að gera í sumar?
„Í sumar ætla ég að reyna ferðast eins mikið og ég get. Nú þegar hef ég farið í ýmsar göngur og ferðalög þetta sumar en til dæmis fór ég um daginn með vinkonum mínum upp Fimmvörðuháls þar sem við gistum eina nótt áður en við færðum okkur yfir á Eyjafjallajökul. Við toppuðum Eyjafjallajökul og enduðum í Seljavalladal. Það sem er komið á listann í sumar núna er: Kerlingarfjöll, Vestrahorn, Askja, Herðubreið, Hvannalindir, Þórisjökull, Stútur, Torfajökull, Landmannalaugar, Laugavegurinn, Strandir og hver veit hvort það muni bætast eitthvað meira við þegar lengra líður á sumarið.“