Litadýrðin sem blasir við á toppi Brennisteinsöldu er engu lík.
Litadýrðin sem blasir við á toppi Brennisteinsöldu er engu lík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland er svo sannarlega falin perla þegar kemur að fjallahjólreiðum en landið státar af einstaklega mörgum fallegum hjólaleiðum. Þar sem blaðamaður er búsettur í Reykjavík, og hefur verið það alla tíð, þá hefur hann eytt meiri tíma í að hjóla á Suðurlandinu en í öðrum landshlutum

Ísland er svo sannarlega falin perla þegar kemur að fjallahjólreiðum en landið státar af einstaklega mörgum fallegum hjólaleiðum. Þar sem blaðamaður er búsettur í Reykjavík, og hefur verið það alla tíð, þá hefur hann eytt meiri tíma í að hjóla á Suðurlandinu en í öðrum landshlutum.

Það er fullt af þægilegum og auðveldum hjólaleiðum í og við borgarmörkin en mínar uppáhaldshjólaleiðir á Suðurlandinu eru í aðeins meiri fjarlægð frá Reykjavík.

Þar kemur Friðland að Fjallabaki eða bara Fjallabak mjög sterkt inn. Svæðið var gert að friðlandi árið 1979 og er hluti af hálendi Íslands sem er norðan Mýrdalsjökuls, norður til Landmannalauga og Hrauneyja.

Svæðið er um 47 ferkílómetrar og er í einu orði sagt einstakt þegar kemur að landslagi og náttúru. Það einkennist meðal annars af ám, vötnum, hraunum og hverasvæðum. Það er líka einstaklega litríkt og þar er að finna margar af vinsælustu gönguleiðum landsins, til dæmis Laugaveginn, þar sem flestir kjósa að ganga úr Landmannalaugum yfir í Þórsmörk.

Það er líka frábær skemmtun að hjóla Laugaveginn en leiðin er um 55 kílómetrar að lengd. Heildarhækkunin er í kringum 1.900 metrar og heildarlækkun í kringum 2.200 metra og því þurfa menn og konur, sem ákveða að hjóla Laugaveginn, að vera í góðu formi.

Tvær í uppáhaldi

Þar sem veðrið á Íslandi getur verið einstaklega óútreiknalegt, sérstaklega uppi á hálendi, getur verið erfitt að plana góða hjólaferð fram í tímann. Undanfarin ár hef ég því stundað það meira að bruna bara af stað, deginum áður eða samdægurs, ef veðurspáin lítur vel út. Það er líka ákveðið frelsi sem fylgir því og ég er ekki frá því að maður njóti ferðalagsins ennþá betur þegar það er ákveðið með stuttum fyrirvara.

Löðmundur á Fjallabaki er norðan Landmannaleiðar en fjallið er grasi vaxið frá fjallsrótum. Það er best að leggja af stað í átt að Löðmundi upp frá Landmannahelli en útsýnið á toppi fjallsins er algjörlega magnað. Þar sést nánast allt hálendið milli Langjökuls, Hofsjökuls og Vatnajökuls.

Hæsti tindur fjallsins heitir Strókur og stendur hann í tæplega 1.100 metra hæð. Fjallið er hins vegar mjög bratt á einum stað og þar er betra að skella fjallahjólinu á bakið, eða teyma það upp. Heilt yfir ætti þetta ferðalag að taka í kringum 3-4 klukkustundir, rúmlega 10 kílómetrar og rúmlega 550 metra hækkun, og þó það geti verið erfitt að hjóla upp í móti á einhverjum tíma er erfiðið svo sannarlega þess virði þegar komið er á toppinn sjálfan.

Erfiðið þess virði

Í Landmannalaugum er svo, að mínu mati, fallegasta fjallahjólaleið landsins en eftir því sem ég kemst næst þá heitir þessi tiltekna hjólaleið ekki neinu ákveðnu nafni.

Byrjað er að hjóla við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum og þaðan liggur leiðin upp á Brennisteinsöldu. Frá Brennisteinsöldu er hjólað niður í Vondugil og þaðan er hjólað í átt að Landmannahelli áður en haldið er í norður í átt að Suðurnámum. Síðan er hjólað niður í Jökulgilskvísl og endað aftur í Landmannalaugum.

Það tekur líka 3-4 klukkustundir að hjóla þessa leið sem er rúmlega 12 kílómetrar að lengd. Hækkunin er hins vegar talsvert meiri en á Löðmundi eða rúmlega 700 metrar og þurfa þeir, sem leggja þessa leið á sig, að vera tilbúnir að bæði teyma og bera hjólin.

Ég fullyrði hins vegar, líkt og áður, að erfiðið er svo sannarlega þess virði en það er sama hvar stoppað er á leiðinni; náttúrufegurðinni tekst alltaf að slá þig út af laginu.

Áfangastaður fjölskyldunnar

Það er gaman að fara þessar leiðir á fjallahjólum en fyrir þá sem hafa áhuga á gönguleiðum er ekkert mál að ganga þetta, þó svo að það gæti tekið aðeins lengri tíma.

Það er fólksbílafært inn í Landmannalaugar en á Fjallabaki eru þó nokkur vöð sem þarf að fara yfir og því betra að vera á jepplingi ef fólk ætlar að leggja leið sína upp í Landmannahelli, sem dæmi.

Það er fullt af öðrum frábærum hjólaleiðum inni á Fjallabaki eins og til dæmis Skallahringurinn í Landmannalaugum þar sem horft er niður í Jökulgil stærstan hluta hjólaleiðarinnar.

Mér er líka algjörlega óhætt að mæla með Landmannalaugum sem áfangastað fyrir fjölskylduferð. Það er nefnilega líka hægt að fara í styttri gönguferðir þar og baða sig í heitu náttúrulauginni við skála Ferðafélagsins. Það verður nefnilega enginn svikinn af Fjallabaki.