Í Kópavogi
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Breiðablik sló markamet íslenskra karlaliða í Evrópukeppni í fótbolta á Kópavogsvelli í gærkvöld með því að vinna yfirburðasigur á Tre Penne, meistaraliði San Marínó, í undanúrslitaleik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, 7:1.
Áður höfðu KR og Víkingur skorað sex mörk í Evrópuleikjum, KR gegn Glenavon á Norður-Írlandi og Víkingur gegn Levadia Tallinn frá Eistlandi.
Sigur Breiðabliks þýðir að liðið mætir Buducnost frá Svartfjallalandi í úrslitaleik forkeppninnar á Kópavogsvelli á föstudagskvöldið. Þar mætast fornir fjendur því Blikar lögðu Buducnost að velli, 3:2, samanlagt, í 2. umferð Sambandsdeildarinnar í fyrra og þá fór allt í háaloft í fyrri leiknum á Kópavogsvelli þegar tveir leikmanna Buducnost og þjálfarinn fengu rauða spjaldið.
Buducnost vann auðveldan sigur á Atlétic d’Escaldes frá Andorra, 3:0, í fyrri undanúrslitaleiknum á Kópavogsvelli í gær. Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks sagði við Morgunblaðið eftir leik að Buducnost væri með öðruvísi lið en í fyrra, líkamlega sterkara en ekki með eins beinskeytta sóknarmenn og þá.
Sigurliðið mætir Shamrock
Sigurliðið á föstudagskvöldið mætir Shamrock Rovers frá Írlandi í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar. Um leið tryggir það sér keppnisrétt í einni umferð til viðbótar – í 2. umferð Meistaradeildar með því að leggja Shamrock að velli og myndi þá mæta FC Köbenhavn frá Danmörku, en með tapi gegn Shamrock færi það í aðra umferð Sambandsdeildar þar sem mótherji yrði annaðhvort KÍ frá Færeyjum eða Ferencváros frá Ungverjalandi.
Liðið sem bíður lægri hlut í viðureign Breiðabliks og Buducnost á föstudagskvöldið fer hins vegar yfir í aðra umferð Sambandsdeildar Evrópu og leikur þar gegn annaðhvort Zalgiris Vilnius frá Litháen, liði Árna Vilhjálmssonar, eða Struga frá Norður-Makedóníu, sem mætast í fyrstu umferðinni í þeirri keppni.
Mikill getumunur var á liðunum. Tre Penne er eins og miðlungslið í næstefstu deild hér á landi og ekki hjálpar til að liðið er að hefja undirbúningstímabil sitt á meðan Blikar eru í fullu leikformi. Það sást vel seinni hluta leiksins þegar Íslandsmeistararnir hreinlega keyrðu yfir andstæðinga sína.
Markamet Höskuldar
Höskuldur Gunnlaugsson skoraði tvö mörk í gærkvöld, það fyrra strax á 6. mínútu, og sló með því markamet Breiðabliks í Evrópukeppni karla. Hann hefur nú skorað fimm Evrópumörk fyrir félagið en áður höfðu Kristinn Steindórsson og Ellert Hreinsson gert fjögur hvor fyrir Breiðablik. Kristinn kom inn á sem varamaður og lagði upp tvö af þremur síðustu mörkunum.
Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði einnig tvö mörk, hans fyrstu á tímabilinu, og þeir Klæmint Olsen, Stefán Ingi Sigurðarson og Viktor Karl Einarsson gerðu sitt markið hver. Stefán skoraði fjórum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður og kom Blikum í 4:1 en Viktor Örn Margeirsson, sem kom inn á um leið, lagði upp markið fyrir hann, sem og seinna mark Höskuldar undir lokin.
Þetta var ellefti Evrópusigur Breiðabliks í 28 leikjum og sá sjöundi í 13 leikjum frá 2021. Félagið hefur gert fimm jafntefli og tapað tólf leikjum. Markatalan er 42:38 og Breiðablik er nú eina íslenska karlaliðið sem er með hagstæða markatölu úr Evrópuleikjum sínum.