Mæðgur Annie og Mia lenda í hremmingum.
Mæðgur Annie og Mia lenda í hremmingum.
Jónsmessunótt 1973. Bæjarbúar gera sér glaðan dag. Haldin eru mótmæli gegn skógarhöggi. Lögregluþjónninn og læknirinn í plássinu eru vant við látnir við veiðar og fyllirí. Aðkomukona villist í skógi ásamt sjö ára dóttur sinni og gengur fram á tvö illa útleikin lík

Ragnheiður Birgisdóttir

Jónsmessunótt 1973. Bæjarbúar gera sér glaðan dag. Haldin eru mótmæli gegn skógarhöggi. Lögregluþjónninn og læknirinn í plássinu eru vant við látnir við veiðar og fyllirí. Aðkomukona villist í skógi ásamt sjö ára dóttur sinni og gengur fram á tvö illa útleikin lík. Tuttugu árum síðar gerist nokkuð sem verður til þess að menn fara að velta því fyrir sér á ný hverjir voru hvar þessa björtu sumarnótt.

Á þá leið hefst sænska þáttaröðin Atburðir við vatn, eða Händelser vid vatten, sem byggðir eru á samnefndri skáldsögu eftir Kerstin Ekman sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1994. Leikaravalið er einstaklega gott, kvikmyndatakan mjög vel heppnuð og handritið grípandi.

Ástæðan fyrir því að ég komst á snoðir um þessa þætti er sú að foreldrar mínir voru á einu máli um að þetta hlytu að vera einhverjir bestu glæpaþættir sem framleiddir hefðu verið síðustu ár. Og þau hafa yfirleitt ekki rangt fyrir sér þegar kemur að slíku.

Áhugasamir skulu hafa hraðar hendur því þættirnir verða aðeins aðgengilegir í spilara RÚV til 4. júlí. En verði grátt um helgina eins og spár gera ráð fyrir þá er hér á ferð stórgott hámhorfsefni.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir