Ljóðabók Jóns Bjarnasonar frá Garðsvík var hendi næst og opnaðist við ljóðið „Allt í pokanum:“ Stakan ómar öllum kær. Enginn strengur brostinn. Verst hve margur vísufær velur þagnarkostinn

Ljóðabók Jóns Bjarnasonar frá Garðsvík var hendi næst og opnaðist við ljóðið „Allt í pokanum:“

Stakan ómar öllum kær.

Enginn strengur brostinn.

Verst hve margur vísufær

velur þagnarkostinn.

Slökkvi hennar bjarta blys

byljir nýrra tíða,

það mun talið þjóðarslys

þegar tímar líða.

Um ellina

Ekki er von ég valdi stóru

veraldar við svitastrit,

en meðan hausinn heldur glóru

hárin mega skipta lit.

Bók Hjálmars Freysteinssonar „Lán í óláni“ er skemmtileg og rifjast margt upp. Eins og: „Gunnar Birgisson sat lengi á Alþingi og flutti ár eftir ár tillögu um að hnefaleikar yrðu leyfðir á Íslandi. Taldi hann bann við slíku mannréttindabrot. Að lokum hafði hann sitt fram:“

Nú fer allt að leika í lyndi,

lokasigur Gunnar vann.

Það eru mikil mannréttindi

að mega berja náungann.

Um stöðu jafnréttismála yrkir Hjálmar:

Þótt jafnréttismálunum vegni eftir
vonum

veit ég að ennþá má

á Íslandi þekkja karla frá konum

á kaupinu sem þeir fá.

Bók Ísleifs Gíslasonar dregur nafn sitt af fyrstu hendingunni í vísunni alkunnu:

Detta úr lofti dropar stórir,

dignar um í sveitinni.

2x2 eru 4,

taktu í horn á geitinni.

Ísleifi þótti margt hafa breyst til batnaðar: „Áður var flestum gáfuðum unglingum fyrirmunað að læra; nú geta flestir þorskhausar stundað nám og gera þá ekki annað verra á meðan. Að loknu skyldunámi fara stúlkurnar á kvennaskóla og síðan á dansskóla og þá er fullkomnun náð.“

Menntun þráði og meiri arð

- mörg eru ráð að henda.

Loksins þráðaliljan varð

lærð í báða enda.


Hér yrkir Indriði um lýðinn trúgjarna:

Ærið mörgu er í lýð
um ævina búið að ljúga.
En hann reynist, ár og síð,
óbilandi að trúa.