Handsmíðuðu sandalarnir hafa prýtt alls kyns frægar táslur.
Handsmíðuðu sandalarnir hafa prýtt alls kyns frægar táslur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í byrjun mánaðarins bættist Aþena við leiðakerfi Play og má reikna með að straumur sólþyrstra Íslendinga muni liggja til grísku höfuðborgarinnar í sumar. Aþena er borg sem allir ættu að heimsækja. Það er ómissandi að arka upp á Akrópólishæð einu…

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Í byrjun mánaðarins bættist Aþena við leiðakerfi Play og má reikna með að straumur sólþyrstra Íslendinga muni liggja til grísku höfuðborgarinnar í sumar.

Aþena er borg sem allir ættu að heimsækja. Það er ómissandi að arka upp á Akrópólishæð einu sinni á lífsleiðinni og í fornminjasafni Aþenu má finna margar mikilvægustu og fegurstu menningarminjar sögunnar. Aþena má muna sinn fífil fegurri, rétt eins og grískt efnahagslíf, en það er ákveðinn sjarmi yfir borginni og heimamenn kunna þá list að njóta hversdagsins. Skemmir heldur ekki fyrir að veðrið er alltaf gott.

Það er eitt sem lesendur ættu endilega að gera í næstu Aþenuferð, og það er að heimsækja skósmíðaverkstæði Pantelis Melissinos (www.mellisinos-art.com), sem er til húsa stuttan spöl frá suðaustur-inngangi Akrópólis. Þar má fá ekta gríska sandala smíðaða eftir máli og er leitun að betri minjagrip.

Dívur og kóngafólk

Saga fyrirtækisins nær aftur til ársins 1920 þegar Georgios Melissinos opnaði skósmíðaverkstæði í einu af betri hverfum borgarinnar. Sonur hans, Stavros, tók síðar við rekstrinum, og loks að barnabarnið Pantelis fékk lyklavöldin árið 2004. Orðspor skósmíðaverkstæðisins hefur vaxið ár frá ári og hefur hver kynslóð haldið því vandlega til haga þegar stórmenni og stjörnur hafa keypt hjá þeim handsmíðaða sandala, en í viðskiptavinahópnum má t.d. finna Soffíu Loren, Jackie Onassis, John Lennon, Barböru Streisand og Karl Englandskonung.

Að stíga inn í búðina er ævintýri líkast, og hefur Pantelis Melissinos tekist að skapa litríkt og heimilislegt musteri þar sem innrammaðar myndir af frægum viðskiptavinum liggja á víð og dreif. Pantelis, sem stundaði listnám í New York áður en hann tók við rekstrinum, fer heldur ekki leynt með að hann er er listamaður, og prýða fegurstu verk hans veggi búðarinnar. Þá fá viðskiptavinir að gjöf lítinn bækling með úrvali ljóða sem Pantelis hefur samið. Rúsínan í pylsuendanum er smáhundurinn Pú-pú sem stendur vaktina í búðinni, en honum var bjargað af götunni og þakkar fyrir sig með því að leyfa gestum að klappa sér og knúsa.

Gera ætti ráð fyrir 45 mínútna stoppi á meðan Pantelis og aðstoðarmenn hans ganga frá sandalaparinu. Um það bil 30 útfærslur af sandölum eru í boði og eru hálfsmíðuð sniðin aðlöguð að fótum hvers viðskiptavinar svo sandalarnir smellpassi. Kostar parið um og undir 200 evrur, og þarf að gæta þess að nota sandalana ekki fyrsta sólarhringinn svo að límið sem heldur þeim saman harðni rétt. Þá þarf að hugsa vel um leðrið, sem er af vandaðri gerðinni en „hrátt“ og því með náttúrulega áferð. Má leðrið helst ekki blotna því þá geta myndast á því blettir, en það má bera á það vaselín eða barnaolíu til að næra leðrið, dekkja og verja.

Þeir sem ekki vilja brúnt leður geta látið sérsmíða á sig sandala, í öllum regnbogans litum, en þá lengist afgreiðslutíminn og verðið getur hæglega tvöfaldast eða þrefaldast.