Útlán til heimila hafa aukist
Útlán til heimila hafa aukist — Morgunblaðið/Golli
Ný íbúðalán til heimila námu samtals 4,4 milljörðum króna umfram uppgreiðslur í maí, að því er fram kemur í uppfærðum gögnum Seðlabanka Íslands. Er þetta töluverð aukning frá því í apríl þegar uppgreiðslur íbúðalána námu 679 milljónum umfram ný lán

Ný íbúðalán til heimila námu samtals 4,4 milljörðum króna umfram uppgreiðslur í maí, að því er fram kemur í uppfærðum gögnum Seðlabanka Íslands. Er þetta töluverð aukning frá því í apríl þegar uppgreiðslur íbúðalána námu 679 milljónum umfram ný lán. Aprílmánuður sker sig að vísu nokkuð úr, þar sem fjárhæð nýrra lána í maí reyndist ansi áþekk því sem var í mars, er hún nam 4,6 milljörðum.

Heimilin héldu áfram að greiða óverðtryggð íbúðalán upp en uppgreiðsla þeirra nam 4,3 milljörðum umfram nýja lántöku, samanborið við 5 milljarða í apríl. Þau héldu áfram að auka við sig í verðtryggðum lánum eftir stutta niðursveiflu í apríl en ný lán af því tagi námu 8,7 milljörðum umfram uppgreiðslu í maí, samanborið við 4,3 milljarða í apríl og 7,5 milljarða í mars.

Ný bílalán heimilanna námu 2 milljörðum króna í maí.

Heilt yfir námu ný útlán 44,1 milljarði króna í maí. Þar af voru verðtryggð lán 14,6 milljarðar króna, óverðtryggð lán 14,2 milljarðar króna, lán í erlendum gjaldmiðlum 10,2 milljarðar króna og eignarleiga 5,2 milljarðar króna. Innlendar eignir innlánsstofnana námu 4.807 milljörðum króna og hækkuðu um 39,5 milljarða króna í maí.