Það er líka mikilvægt að við tölum um hlutina eins og þeir eru. Við viljum öll hámarka jákvæðu áhrifin af ferðaþjónustu og lágmarka þau neikvæðu.

Atvinnulíf

Jóhannes Þór Skúlason

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

Nú þegar ferðaþjónustureikningar Hagstofu Íslands hafa verið birtir fyrir árið 2022 er tími kominn til að gera upp það ferðaþjónustuár. Í reikningunum má sjá að hlutur ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu ársins nam 7,8%. Ljóst er að atvinnugreinin hefur náð sterkri viðspyrnu eftir heimsfaraldurinn, eins og bæði stjórnmálamenn og greiningaraðilar óskuðu helst eftir, en þetta hlutfall fór hæst í 8,3% fyrir faraldur. Það vekur einnig athygli að fjöldi vinnustunda í fyrra var töluvert minni en fyrir heimsfaraldur og greinin skapaði því aukin verðmæti á hverja unna stund eða m.ö.o. meira fyrir minna, það eru gleðitíðindi. Ýmsar afleiðingar faraldursins eru þó enn til staðar, til dæmis uppsafnaðar skuldir og mönnunarvandi. Rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu er erfitt og líklegt er að áhrif launahækkana og annarra kostnaðarliða hafi ekki enn komið fram af fullum þunga.

Allir tapa

Það er augljóst að kostnaðarhækkanir fyrirtækja á síðastliðnum misserum hafa aukið verðbólguþrýsting. Við því geta fyrirtæki brugðist á tvennan hátt; með hagræðingu eða verðhækkunum. Hagræðing getur verið mjög sársaukafull ef hún felur í sér uppsagnir á fólki og á sér því eðlileg takmörk. Þegar ekki er lengur rými til hagræðingar kann fyrirtækjum að reynast erfitt annað en að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag. Verð ýmissa vara hefur hækkað að undanförnu, sbr. nýjustu peningamál Seðlabanka Íslands, og hafa meginorsakir verðbólgunnar breyst og byggja nú á breiðari grunni. Allir tapa á verðbólgunni, þótt áhrifavaldar verðbólgu séu misþungir fyrir heimili og fyrirtæki landsins.

Ljóst er að launahækkanir umfram verðmætasköpun leiða til verðbólgu að öðru óbreyttu. Þeir sem halda öðru fram tala annað hvort gegn betri vitund eða lifa í sjálfsblekkingu. Samkvæmt nýbirtum gögnum OECD eru meðallaun á Íslandi 49% hærri en að meðaltali innan OECD, leiðrétt fyrir vinnutíma og verðlagi. Það er þung byrði sem skekkir samkeppnishæfni atvinnugreina landsins, sér í lagi ferðaþjónustu og annarra vinnuaflsfrekra greina.

Umræðan um þrýsting greinarinnar á húsnæðismarkað hefur gjarnan leitað til skammtímaleigumarkaðarins, en ljóst er að settar leikreglur stjórnvalda hafa hvatt til uppbyggingar þess markaðar. Framboð gistirýma í skammtímaútleigu er hins vegar töluvert minna árið 2022 en 2019, samkvæmt gögnum Ferðamálastofu. Vandamál húsnæðismarkaðarins er margþætt en grundvöllur vandans er áralöng uppsöfnuð byggingarþörf íbúðarhúsnæðis. Þar bera bæði ríki og sveitarfélög ábyrgð.

Fólk sem starfar í ferðaþjónustu þarf þak yfir höfuðið eins og aðrir en aukin spurn eftir íbúðarhúsnæði er heldur ekki eingöngu tilkomin vegna ferðaþjónustu. Þörf samfélagsins fyrir innflutt vinnuafl er almennt mikil og í apríl sl. störfuðu t.d. um 8.500 manns af erlendum uppruna í opinberri stjórnsýslu á Íslandi eða u.þ.b. jafn margir og í hótel- og veitingarekstri.

Og þá er útgjaldahlið ríkissjóðs ónefnd.

Leiðin að sjálfbærri ferðaþjónustu

Nýlega skipaði ráðherra ferðamála sjö starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðaráætlun fyrir ferðamálastefnu til ársins 2030. Þessi vinna er mikilvæg, bæði fyrir atvinnugreinina og samfélagið allt, enda er afar brýnt að horft sé heildstætt til framtíðar.

Það er líka mikilvægt að við tölum um hlutina eins og þeir eru. Við viljum öll hámarka jákvæðu áhrifin af ferðaþjónustu og lágmarka þau neikvæðu. Það er hagsmunamál bæði fyrirtækja og heimila að ná fljótt tökum á verðbólgunni. Viðspyrna ferðaþjónustunnar er sterk en það er jafn ljóst að hún ber ekki ein meginábyrgð á verðbólgunni. Atvinnugreinin nálgast nú eigin framtíð með ábyrgum hætti í samvinnu við stjórnvöld með gerð stefnuramma og aðgerðaáætlun sem miðar að því að hámarka verðmætasköpun atvinnugreinarinnar til lengri tíma með sjálfbærum hætti. „Ísland er og verður alltaf ferðaþjónustuland,“ sagði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri á Ferðaþjónustudeginum í fyrra. Það eru orð að sönnu og er það sameiginlegt kappsmál okkar allra að atvinnugreinin verði leiðandi í sjálfbærri þróun til framtíðar, í sátt við land og þjóð.