Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, segir að sér lítist illa á fyrirhugaðar breytingar á sundkennslu í Reykjavík, en greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að frá haustinu 2022 hefði verið miðað við að allir grunnskólar…

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, segir að sér lítist illa á fyrirhugaðar breytingar á sundkennslu í Reykjavík, en greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að frá haustinu 2022 hefði verið miðað við að allir grunnskólar borgarinnar gætu boðið nemendum að þreyta stöðupróf í lok 9. bekkjar í stað þess að sækja sundtíma.

Er stöðuprófum m.a. ætlað að leysa hefðbundna sundkennslu af hólmi í eldri bekkjum grunnskóla, en á meðal þeirra ástæðna sem gefnar eru fyrir breytingunum er að þær eigi að vinna gegn kvíða og vanlíðan ungmenna vegna sundkennslu og sturtuferða, en einnig er stefnt að því að auka val nemenda í skólaíþróttum í 10. bekk.

Hilmar segir að kunni fólk að synda geti það bjargað lífi þess. Sér þyki því ástæður þess að draga úr vægi sundkennslu rýrar.

„Mér finnst það ekki standast nein rök að draga úr sundkennslu. Við ættum frekar að efla hana ef eitthvað er,“ segir Hilmar og bætir við að sundkennsla hafi verið ríkur þáttur í námi þjóðarinnar í marga áratugi.

Hann bendir á að gæði sundkennslu á Íslandi hafi verið mjög mikil og telur að þessi stefnubreyting sé afleikur. Það eigi alls ekki að slá af kröfunum þegar kemur að færni fólks til að synda. „Ég óttast að það muni hafa þær afleiðingar að einn daginn horfum við fram á það að sundkunnáttan verði orðin mjög léleg.“

Líf í húfi

Að bjarga sér í sjó eða vatni getur verið spurning um sjálft lífið. „Við erum að sjá tiltölulega fáar drukknanir hér á landi miðað við það sem aðrar þjóðir eru að eiga við þar sem sundkunnáttan er orðin afskaplega léleg þar sem skólar eru farnir að draga úr skólasundi. Ég vona að mönnum auðnist sú gæfa að víkja frá þessari stefnu.“

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) vekur athygli á mikilvægi þess á hverju ári að vinna að því að fækka drukknunum í heiminum en þær eru árlega að jafnaði um 235.000 sem hagtölur ná yfir.

Á undanförnum áratug hafa um tvær og hálf milljón manns látist af völdum drukknunar. Börn undir tíu ára aldri og karlmenn eru líklegust til að drukkna og líkurnar á því eru yfirgnæfandi í löndum þar sem tekjur fólks eru lágar eða í meðallagi.

Frá árinu 1981 hafa drukknanir á Íslandi verið á bilinu ein til sjö á ári. hordur@mbl.is

Höf.: Hörður Vilberg