Sagan segir að einhvern tíma á miðöldum hafi óvinaher setið um Siena á Ítalíu og virtust borgarbúum allar bjargir bannaðar. Birtist þá á svæðinu condottiero, hershöfðingi með sinn eigin málaliðaher, og hrakti árásarherinn á brott.
Íbúar Siena fögnuðu og boðuðu til fundar þar sem skyldi ákveðið hvernig mætti launa hershöfðingjanum að hafa forðað þeim frá hörmulegum örlögum. Einn lagði til að bera á hann gull og gersemar, en fljótlega varð samhljómur um að það væri ekki nógu rausnarlegt að útleysa bjargvættinn með fjársjóði. Hvað með að gera hann að æðsta leiðtoga borgarinnar? Nei, það var ekki heldur í neinu samræmi við það mikla afrek sem hershöfðinginn hafði unnið.
Tekur þá einn borgarbúinn til máls: „Best væri að við dræpum hann, þá getum við tilbeðið hann sem verndardýrling Siena um aldur og ævi!“
Þótti þetta fyrirtaks hugmynd og var hertoginn óðara myrtur.
Þessi saga kann að vera helber uppspuni enda fylgir henni ekki nafn ólánsama hershöfðingjans. En ef hún er sönn þá hafa íbúar Siena ekki staðið við sitt því að borgin á í dag fjóra dýrlinga og passar enginn þeirra við lýsinguna á hershöfðingjanum.
Boðskapur sögunnar stendur þó fyrir sínu, og er tvíþættur. Í fyrsta lagi: þeir sem telja sig vera að gera góðverk og koma lítilmagnanum til hjálpar uppskera ekki alltaf það sem þeir höfðu vonast til.
Í öðru lagi: stundum er hægt að vilja fólki of vel, svo að góðvildin snýst upp í öndhverfu sína.
Að velja rétta regnbogann
Nýverið átti ég samtal við ungan stjórnanda íslensks stórfyrirtækis. Hann les pistlana mína af og til, og greindi mér frá að honum væri vandi á höndum: Sú hugmynd hafði nefnilega kviknað á vinnustaðnum að skreyta með regnbogafánum í júní enda er mánuðurinn víst orðinn alþjóðlegur Pride-mánuður og um allan heim (eða a.m.k. á Vesturlöndum – minna í Mið-Austurlöndum) nota fyrirtæki tækifærið og skreyta allt sem skreyta má í regnbogans litum.
Ungi stjórnandinn bar skynbragð á að góðmennskan og réttsýnin getur verið jarðsprengjusvæði, því aldrei hefur verið auðveldara að móðga fólk og særa þrátt fyrir góðan ásetning og mikla varkárni. Vissi hann t.d. ekki hvort það væri nóg að kaupa „gamla“ regnbogafánann til að skreyta, eða hvort þyrfti að nota „nýja“ fánann sem var kynntur til sögunnar árið 2018 og síðan uppfærður 2021. Á nýja fánanum er búið að bæta við fleiri litum sem eiga gagngert að vísa til trans- fólks, jaðarsetts fólks sem er brúnt á hörund, og fólks með HIV/Alnæmi. Árið 2021 bættist við hringur og á að tákna intersex-fólk, þ.e. einstaklinga sem fæðast með líkamleg einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns.
Lesendum til glöggvunar á regnbogafáninn sér nokkuð langa sögu, og litirnir sex í „klassíska“ fánanum (rauður, rauðgulur, gulur, grænn, blár og fjólublár) vísa ekki til ólíkra kynhneigða heldur eiga að tákna gildi á borð við æðruleysi, hugmyndaauðgi og lífsþrótt.
Alltént grunaði unga stjórnandann að ef hann léti duga að kaupa gömlu útgáfuna þá væri einhver vís til að kvarta og saka hann um fordóma í garð trans- og interex-fólks – eða eitthvað þaðan af verra. Hann langaði að sýna lit, og sýna stuðning, en vissi sem er að jafnréttisumræðan hefur farið af hjörunum á undanförnum árum.
Sammæltumst við um að skynsamlegast væri að hann hreinlega hummaði það fram af sér að kaupa fána og skrautborða og ef einhver spyrði gæti hann borið fyrir sig gleymsku. Ef málið yrði að meiri háttar fjaðrafoki gæti hann svo alltaf gert yfirbót með því að láta fjárframlag af hendi rakna til góðgerðarsamtaka. Bað ég hann þó, ef til þess kæmi, að styrkja þá frekar samtök sem starfa í þeim löndum þar sem virkilega er traðkað á réttindum LGBT-fólks, s.s. í Íran, Afganistan, Sómalíu og Sádi Arabíu þar sem samkynhneigðir geta vænst dauðarefsingar, eða um alla Norður- og Austur-Afríku þar sem fólk á yfir höfði sér fangelsisvist fyrir að laðast að eigin kyni.
Allir fara í fýlu
Í apríl fjallaði ég um vandamál bjórframleiðandans Annheuser-Busch og það mikla bakslag sem félagið þurfti að þola eftir að hafa gert transkonuna Dylan Mulvaney að talsmanni metsölubjórsins Bud Light í minni háttar kynningarherferð. Eins og lesendur muna olli valið á Mulvaney miklu fjaðrafoki og upphófst heljarinnar slaufunarherferð á netinu þar sem fólk var hvatt til að hætta að kaupa Bud Light því nóg væri komið af því að fyrirtæki reyndu að troða alls kyns réttsýnisboðskap ofan í kok viðskiptavina sinna.
Viðtökurnar létu ekki á sér standa og hefur sala Bud Light hrunið með svo afgerandi hætti að markaðshlutdeild léttbjórsins, sem hefur verið sá söluhæsti í Bandaríkjunum síðan 2001, hefur næstum helmingast og tók Modelo Especial fram úr Bud Light í maí sem mest selda bjórtegundin vestanhafs.
Modelo er mexíkóskur bjór og hefur m.a. notið mikilla vinsælda meðal Bandaríkjamanna af suður-amerískum uppruna, en hefur í seinni tíð bætt við sig neytendum úr fleiri þjóðfélagshópum og var í mjög sterkri stöðu þegar Bud Light skrikaði fótur. Herma fregnir að Bud Light hafi nýverið hleypt af stokkunum stórri auglýsingaherferð í loftið þar sem kántrítónlist og bandarískur ruðningur eru í forgrunni.
Fleiri fyrirtækjum hefur tekist að fá almenning upp á móti sér með réttsýninni og í nýlegri umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að víða séu stjórnendur farnir að vilja hægja ögn ferðina þegar kemur að því að fylkja sér á bak við hvers kyns baráttumál. Sum fyrirtæki hafa séð sig knúin til að hafa neyðaráætlun tiltæka ef boðskapur sem var vel meintur reynist fara öfugt ofan í hinn almenna neytanda. Enginn vill sitja í súpunni eins og Bud Light.
Einhverra hluta vegna varð t.d. allt vitlaust þegar stórverslanakeðjan Target tók upp á því að hampa sérstaklega regnbogaskreyttum varningi í tilefni Pride-mánaðarins mikla vestanhafs. Target hefur um árabil fagnað júní með nýrri línu af regnbogavörum, en öllum að óvörum blossaði upp mikil gremja í þetta skiptið, og gengu sumir svo langt að skemma regnbogauppstillingar í Target-búðum og hafa í hótunum við starfsfólk fyrirtækisins. Kom það meira að segja fyrir að mótmælendur stilltu sér upp með skilti fyrir utan verslanir Target.
Sá fyrirtækið sig knúið til að taka sumar regnbogavörurnar úr sölu og láta minna fara fyrir varninginum í verslunum sínum.
Stjórnendum Target er vorkunn því þegar lætin byrjuðu var sama hvað þau gerðu; þeim myndi aldrei takast að gera öllum til geðs. Þeim sem voru mótfallnir regnbogavarningnum fannst Target ekki ganga nógu langt, og fylgjendur regnbogavarningsins sökuðu fyrirtækið um að geta ekki staðið í lappirnar.
Það er ekki auðvelt að vera stjórnandi í þessu landslagi því aldrei hefur verið meiri þrýstingur á fyrirtæki að taka afstöðu í alls kyns hitamálum og er nær óhjákvæmilegt að með því að taka afstöðu sé um leið verið að reita tiltekinn hóp til reiði. Þessu fylgir síðan aukið flækjustig og aukinn kostnaður við alla ákvarðanatöku, og fullyrða sumir markaðssérfræðingar að ástandið kalli á það að hafa með í ráðum teymi markaðs- og samskiptastjóra, lögfræðinga og mannréttindaráðgjafa þegar fyrirtæki ákveður að taka afstöðu með eða á móti. Að vera hlutlaus er ekki lengur valkostur og þarf heilan her hálaunaðra sérfræðinga til að reyna að lágmarka skaðann.
Kettir í kennslustofum
Það er í sjálfu sér ekki flókið að greina ástandið.
Samfélagsmiðlar hafa gert okkur öll léttgeggjuð, svo það virðist borin von að eiga eðlilegt samtal um hlutina. Í stað yfirvegaðra skoðanaskipta fáum við árásir, og sá sem nær að móðgast mest af sem minnstu tilefni er sá sem sigrar. Minni háttar núningi og ágreiningi um smáatriði (eða líffræðilegar staðreyndir) er svarað með ásökunum um ofbeldi, jafnvel þjóðernishreinsanir.
Samfélagsmiðlarnir eru líka augljóslega að valda stórum hópum ungs fólks verulegu tjóni: Snjallforrit hafa tekið hamingjuhormónin í gíslingu og táningarnir lifa og hrærast í bjöguðum og yfirborðskenndum sýndarheimi. Í ofanálag geta þau með nokkrum smellum fundið kynferðislegt efni sem skaðar hjá þeim sjálfsmyndina og ýtir undir ótrúlegustu ranghugmyndir.
Nýjasta dæmið um þetta fáum við frá Bretlandi, en þar rataði í fréttir að nemandi birti upptöku úr kennslustund þar sem réttsýnn kennari heyrist húðskamma nemanda fyrir að segja það „galið“ að bekkjarfélagi hennar skilgreindi sig sem kött.
Svo höfum við réttsýnishagkerfið, sem reynir að halda sjálfu sér á lífi. Á Vesturlöndum er búið að vinna alla stærstu sigrana, en frekar en að pakka saman finna allir jafnréttisfulltrúarnir, réttindasamtökin og fræðimennirnir einfaldlega eitthvað nýtt til að berjast fyrir. Það er enga styrki að fá, og engin athygli í boði hjá fjölmiðlum, fyrir það að segja að ástandið sé orðið nokkuð gott og það litla sem upp á vanti komi með tíð og tíma, og að brýnast sé að beina sjónum að þeim heimshlutum þar sem raunveruleg kúgun og mannréttindabrot eiga sér stað.
Og loks höfum við hinn almenna borgara, sem ber sínar byrðar, sár og blæti. Hann er breyskur en reynir að sýna öðrum umburðarlyndi og tillitssemi, en finnur það líka innst inni að sumt af því fólki sem honum er sagt að fagna og styðja gengur einfaldlega ekki heilt til skógar. Hann langar að malda í móinn, ekki af því að hann sé uppfullur af heift, bræði og komplexum, heldur vegna þess að hann grunar að með því að upphefja þetta fólk séum við hugsanlega að hjálpa þeim álíka mikið og þegar íbúar Siena ákváðu að upphefja hershöfðingjann sinn hér um árið.