Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson
„Það hafa engin svör borist, sem er að mínum dómi mjög ámælisvert miðað við þá miklu hagsmuni sem starfsmennirnir eiga í þessu máli,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Morgunblaðið

„Það hafa engin svör borist, sem er að mínum dómi mjög ámælisvert miðað við þá miklu hagsmuni sem starfsmennirnir eiga í þessu máli,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Morgunblaðið.

Félagið sendi matvælaráðherra bréf 22. júní sl. þar sem þess var krafist að ákvörðun um tímabundna stöðvun hvalveiða yrði afturkölluð. Ef ekki, krefðist félagið þess að matvælaráðherra gripi til aðgerða til að bæta fjárhagstjón félagsmanna verkalýðsfélagsins. Ráðherra var gefinn frestur til sl. mánudags til þess að svara framangreindum kröfum félagsins. Erindinu hefur ekki verið svarað.

Spurður um næstu skref og viðbrögð af hálfu verkalýðsfélagsins, svaraði Vilhjálmur því til að þau væru í skoðun hjá lögmanni félagsins. „Við lifum í voninni um að undið verði ofan af þessari ákvörðun,“ sagði hann og minnti á nýframkomið ítarlegt álit lögmansstofunnar LEX sem unnið var að beiðni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, þar sem fram kemur að ákvörðun matvælaráðherra um að banna tímabundið veiðar á langreyðum sé andstæð lögum.

„Setjum þetta í samhengi við Íslandsbankasöluna, þar sem þingmenn og ráðherrar sem hafa verið að tjá sig, tala um að stjórn og bankastjóri þurfi að axla ábyrgð vegna þess að lög og reglur voru brotnar. Vegna þess þá spyr ég, í ljósi þess að það er allt sem bendir til þess að matvælaráðherra sé að brjóta lög, hvort hann ætli að axla sína ábyrgð þegar og ef Hvalur hf. fer með málið fyrir dómstóla og ríkið verður dæmt til greiðslu skaðabóta?“ sagði Vilhjálmur.

„Það er kaldhæðnislegt að sektin í Íslandsbankamálinu er nákvæmlega sama upphæðin og tekjutap starfsmanna Hvals hf., 1,2 milljarðar króna, og er sú upphæð reyndar án launatengdra gjalda,“ sagði Vilhjálmur.