Hæstiréttur hefur á ný hafnað beiðni Skúla Gunnars Sigfússonar, sem oft er kenndur við Subway, um áfrýjun á máli félaganna Suðurhúsa og Sjöstjörnunnar gegn Þarfaþingi.
Þetta staðfestir Skúli Gunnar í samtali við ViðskiptaMoggann. Landsréttur hafði dæmt Þarfaþingi í vil í deilu félaganna en Hæstiréttur hafnaði beiðni um áfrýjun.
Í bréfi til Hæstaréttar gerði Skúli Gunnar athugasemd við það að Sigurður Tómas Magnússon hæstaréttardómari hefði komið að ákvörðun réttarins að hafna áfrýjunarbeiðni, þar sem Sigurður Tómas hafði áður dæmt í máli sem sneri að ágreiningi vegna uppgjörs á þrotabúi EK1923. Nokkuð hefur verið fjallað um málefni þrotabúsins áður, en skiptastjóri þess er Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður. Hann er tengdur Benedikt Bogasyni, forseta Hæstaréttar, sterkum vinaböndum sem áður hefur verið fjallað um. Fram kom í bréfinu að Skúli Gunnar telur að Benedikt hafi haft áhrif á það hvernig Sigurður Tómas dæmdi í fyrrnefndu máli.
„Ég tel nokkuð ljóst að ég njóti ekki sannmælis hjá Hæstarétti, þar sem ég hef haldið uppi gagnrýni á forseta réttarins og náinn vin hans, og þarf svo að sæta því að aðrir vinir hans úrskurði í máli sem tengist mér,“ segir Skúli Gunnar.
„Það er ekki til þess fallið að tryggja réttaröryggi ef þeir sem lent hafa í deilum við persónulega vini forseta Hæstaréttar geta ekki vænst þess að fá sanngjarna meðferð á málum sínum. Ég tel því að réttaröryggi mínu sé ógnað, þar sem ég get ekki vænst þess að hlutlausir dómarar fjalli um þau mál sem kunna að rata fyrir réttinn.“ gislifreyr@mbl.is