Ætlar þú að ferðast innanlands í sumar?
„Já, ég reikna með að ferðast eitthvað innanlands í sumar. Mig langar að kíkja til Vestmannaeyja og eyða þar helgi. Einnig ætla ég að heimsækja Austurlandið og dvelja á Reyðarfirði, langar líka að fara í Vök Baths, á það alveg eftir. Þá er alltaf gaman að fara á Akureyri, eiginlega skylda að fara þangað að sumri til.“
Áttu þér uppáhaldsstað á Suðurlandi?
„Nú er ég kannski ekki hlutlaus, en uppáhaldsstaðurinn minn á Suðurlandi er heimabærinn minn, Hveragerði. Hér er allt til alls, rólegt og afslappað umhverfi og stutt í náttúruna. Dásamlegar gönguleiðir hér allt í kring og ævintýralegur golfvöllur. Hvet fólk til þess að kíkja hingað í sumar. Hér er mikið úrval af ýmsum tegundum af gistingu, eins og til dæmis Hótel Örk og Varmi-Guesthouse svo fátt eitt sé nefnt. Hér eru einnig ljúffengir veitingastaðir, eins og Gróðurhúsið, Matkráin, Ölverk, Hver restaurant og síðast en ekki síst, Hofland Eatery en þar færðu heimsins bestu pítsur, þó víðar væri leitað.“
Áttu þér uppáhaldssundlaug á Suðurlandi?
„Sundlaugin Laugarskarð í Hveragerði er dásamleg. Það er mjög rólegt og afslappandi að koma þar við. Mæli líka eindregið með Fontana á Laugarvatni og einnig upplifun að fara í Secret Lagoon á Flúðum.“
Hvað finnst þér best að grilla í útilegunni?
„Vel grillaðar lambakótilettur eru algjört lostæti en grillaður humar er toppurinn á grillið.“
Áttu þér uppáhaldstjaldstæði?
„Verð að viðurkenna að ég hef lítið verið á tjaldsvæðunum undanfarin árin. En ég hef heyrt að tjaldsvæðið á Hellishólum sé með allt til alls.“
Hvert er eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?
„Það koma margar ferðir upp í huga minn. Það var mjög gaman að skoða Vestfirðina og einnig að fara um Austurlandið. Þá var eftirminnilegt að skoða Norðurland eystra, heimsækja öll bæjarfélögin þar eins og Vopnafjörð, Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn.“
Áttu þér uppáhaldsgönguleið?
„Gönguleiðin upp í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði og alla leið upp í heita læk er alveg toppurinn. Það er ótrúlega falleg gönguleið og hægt að ganga þangað með alla fjölskylduna og að lokum hægt að baða sig í heita læknum. Ég mæli eindregið með þessari göngu. Þetta er einnig ákveðin upplifun sem allir þurfa að prófa einu sinni á ævinni. Þá hef ég einnig gengið Fimmvörðuhálsinn í góðra vina hópi og var það ótrúlega gaman. Ég mun eindregið fara aftur þangað.“
Er einhver staður á landinu sem þú hefur ekki komið á og langar að heimsækja?
„Ég hef verið ótrúlega dugleg að ferðast um Ísland síðustu árin, en mig langar að ganga Grænahrygg og Laugaveginn, á það eftir. Þá á ég einnig eftir að fara og skoða Borgarfjörð eystri, sem er víst algjör náttúruperla.“
Tjald eða hótel?
„Mig langar að segja tjald en held ég verði að segja hótel eins og staðan er í dag. En ég vil þó meina að ég sé með útilegublóð í æðum þar sem foreldrar mínir voru mjög duglegir að fara með okkur systkinin út um hvippinn og hvappinn í tjaldútilegu.“
Hvaða flík verður að fara með í útileguna?
„Fallegur og töff hattur er ómissandi. Einnig hlýtt og fallegt ponsjó.“
Hvað ætlar þú að gera skemmtilegt í sumar?
„Ég ætla að byrja á því að skella mér í nokkra daga til Parísar, drekka í mig menninguna þar og síðan er allt frekar óráðið. En eitthvað skemmtilegt og skyndilegt verður það, ef ég þekki mig rétt!“