Hildur Eiríksdóttir fæddist á Núpi í Dýrafirði 21. mars 1947. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 15. júní 2023.
Foreldrar hennar voru þau sr. Eiríkur Júlíus Eiríksson, skólastjóri og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, f. 22. júlí 1911, d. 11. janúar 1987, og Sigríður Kristín Jónsdóttir húsmóðir, f. 5. október 1917, d. 17. febrúar 1999.
Systkini Hildar eru Aðalsteinn skólameistari, f. 10. október 1940, Guðmundur, f. 6. maí 1943, d. 10. júlí 1946, Jón jarðfræðingur, f. 23. september 1944, Ágústa hjúkrunarfræðingur, f. 18. júní 1948, Jónína, bókasafnsfræðingur og kennari, f. 14. febrúar 1952, Magnús tæknifræðingur, f. 10. desember 1953, Guðmundur tæknifræðingur, f. 14. maí 1955, Ásmundur verkfræðingur, f. 6. október 1959, Aldís, kennari og iðjuþjálfi, f. 2. október 1960, Ingveldur skólastjóri, f. 9. apríl 1965.
Fyrri eiginmaður Hildar var Steindór Hálfdánarson prentari, f. 19. mars 1945. Foreldrar Steindórs voru Hálfdán Steingrímsson prentsmiðjustjóri, f. 26. september 1920, d. 15. ágúst 2012, og Ingibjörg Steindórsdóttir, f. 28. janúar 1923, d. 14. desember 2019.
Barn Steindórs og Hildar er Björk, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, f. 17. maí 1969. Eiginmaður Bjarkar er Grímur Hergeirsson lögreglustjóri, f. 4. júní 1969. Foreldrar hans voru Hergeir Kristgeirsson, f. 16. ágúst 1934, d. 12. apríl 2020, og Fanney Jónsdóttir, f. 6. mars 1933, d. 3. desember 2016. Börn Bjarkar og Gríms eru: Hildur, f. 18.8. 1987, Eva, f. 15. mars 1995, Hergeir, f. 25. febrúar 1997, og Ragnheiður, f. 25. ágúst 2005. Barnabörnin eru sjö.
Hildur ólst upp á Núpi til 1960 að foreldrar hennar fluttu til Þingvalla en landsprófi lauk hún frá Núpsskóla 1963. Þau Steindór stofnuðu heimili og bjuggu m.a. á Rauðalæk 13 en síðar í Dalalandi 2 uns þau slitu samvistir. Hildur hóf snemma vinnu utan heimilis og var lengi á skrifstofu Slippfélagsins í Reykjavík á árunum 1967-1975. Eftir það kom hún við hjá Innkaupastofnun ríkisins en miklu lengur á tónlistar- og safnadeild Ríkisútvarpsins og sá meðal annars um þáttinn Lög unga fólksins um skeið. Um tíma vann hún að umsjón með birgðahaldi og vaktstjórn við mötuneyti Landspítalans.
Árið 1997 kynntist Hildur Hreggviði Heiðarssyni, f. 1. júlí 1961, fjögurra barna föður þeirra Elínar Elísabetar, f. 28. júlí 1980, Önnu Lilju, f. 1. september 1983, Hugrúnar Heiðu, f. 10. mars 1989, og Hreggviðs Stefnis, f. 2. nóvember 1991. Foreldrar Hreggviðs eldri voru Hugrún Kristjánsdóttir, f. 1. júní 1936, d. 2. mars 2019, og Theodór Heiðar Pétursson, f. 15. janúar 1933, d. 19. ágúst 1988.
Þau Hildur og Hreggviður giftust 31. desember 2003 og bjuggu á Selfossi til dánardægurs Hildar. Með störfum sínum lauk Hildur verslunarprófi og námi félagsliðabrautar. Síðustu starfsárum sínum varði Hildur til þjónustustarfa í sveitarfélaginu Árborg.
Útförin fer fram frá Selfosskirkju í dag, 28. júní klukkan 14.
Við ævilok elskulegrar systur fléttast hér lítill kveðjusveigur. Hildur fæddist í Prestshúsinu á Núpi í Dýrafirði. Þar var héraðsskóli og á hverjum vetri bættust nærri hundrað ný andlit í hóp íbúanna sem fyrir voru. Lífið á Núpi og fyrstu uppvaxtarár Hildar einkenndust af sveitastörfum og á vetrum fjölbreyttu skólastarfi. Systkinahópurinn stækkaði og hin heimilin á staðnum bjuggu við barnalán. Svo komu krakkar að sunnan „í sveit“ á hverju sumri. Þannig myndaðist samheldinn og fjörugur hópur sem sótti saman skóla, sundnámskeið, héraðsmót og alls konar samkomur. Á sumarkvöldum safnaðist hópurinn saman á skólahlaðinu og skemmti sér við leiki. Í rauninni varð systkinahópurinn miklu stærri en einstakar fjölskyldur sögðu til um og fyrir þessu finnum við ennþá bæði í gleði og sorg. Nýir straumar bárust vestur að Núpi þegar fjölbreyttir unglingahópar komu þangað með nýjustu tísku í fötum og tónlist. Hildur tók þátt í leik og starfi og naut sín vel, varð snemma víðsýn og á endanum veraldarvanur heimsborgari, sem lærst hafði að njóta lífsins.
Fjölskylda okkar fluttist suður til Þingvalla þegar Hildur var 13 ára. Þetta var á margan hátt ferð út í óvissuna og rof á djúpum tengslum við æskuheimili og vini. Önnur veröld blasti við, heimilishald um margt afturhvarf til fortíðar og alger einangrun vikum saman á veturna. Þetta reyndi á unglingsstúlku á viðkvæmum árum. Vinkonur og skemmtilegir viðburðir víðs fjarri, og eldri systkinin að tínast af heimilinu. Svo komu sumrin með miklum erli og þjónustu við gesti og gangandi. Margan daginn mátti Hildur hjálpa til við heimilisstörf, ekki síst þegar sólin skein. En þessu fylgdu líka spennandi ævintýri, það var siglt um ána og vatnið og börnin á næstu bæjum urðu vinir. Á annasömu heimilinu nutum við yngri systkinin góðs af mildilegri handleiðslu hennar, eiginleika sem margir samferðamenn, ungir og aldnir, áttu síðar eftir að njóta. Hildur stofnaði sitt fyrsta heimili með Steindóri fyrri manni sínum og fljótlega fór lífið að snúast um að búa einkadótturinni henni Björk litlu sem bestan uppvöxt. Móðurhlutverkið vafðist ekki fyrir systur okkar og mæðgunum farnaðist vel. Síðustu áratugina bjuggu Hreggviður og Hildur á Selfossi þar sem hún naut grenndar við Björk og vaxandi fjölskyldu hennar. Með Hreggviði naut hún dýrðarstunda á ferðalögum og útivera veitti henni mikla lífsfyllingu.
Alla ævi var Hildur leitandi þekkingar og færni til að takast á við áskoranir lífsins. Þar naut hún einstakrar nákvæmni sinnar og þrautseigju í bland við óvenju sterkan heiðarleika og kærleika til allra. Smekkur og listfengi lituðu öll hennar viðfangsefni, framkomu hennar og fas og allt hjá henni ljómaði af fegurð og fínleika. Samveru með fólkinu sínu þáði Hildur manna best og við nutum mannkosta hennar og einlægrar væntumþykju á öllum samverustundum. Alls þessa minnumst við með þakklæti og kveðjum í dag kæra systur með sárum söknuði: leikfélaga, vinkonu, fóstru okkar, allt eftir æviskeiðinu.
Jónína Eiríksdóttir.
Mig langar að skrifa nokkur falleg orð um elsku vinkonu mína, Hildi.
Við Hildur kynntumst fyrir 55 árum þegar ég fór að vinna hjá Slippfélaginu en hún var búin að vinna þar í nokkurn tíma á undan mér. Sá ég fljótt hverslags mannkosti hún hafði að geyma og tókst strax með okkur góð vinátta sem varað hefur æ síðan. Bjuggum við lengi í göngufæri hvor frá annarri og var samgangur oft og tíðum mikill.
Hildur var yndisleg, vel gerð og góðhjörtuð vinkona sem var alltaf til staðar, bæði í gleði og sorg, sem auðvelt og þægilegt var að leita til ef eitthvað bjátaði á eða ef ėg þurfti ráðleggingar með lífsins mál.
Ég á yndislegar minningar um sumarbústarferðir með henni, Björk dóttur hennar og sonum mínum þar sem slakað var á og notið lífsins. Gátum við setið saman löngum stundum og rætt um lífsins gagn og nauðsynjar.
Árið 2003 giftist Hildur eftirlifandi manni sínum Hreggviði og var það mér mikill heiður að fá að vera svaramaður hennar í athöfninni.
Ég votta Hreggviði og Björk dýpstu samúðar, sem og öðrum aðstandendum,
Björk Þorsteinsdóttir.
Í huga mér er söknuður þegar kær vinkona, allt frá unga aldri, er kvödd. Við Hildur fæddumst báðar á Núpi í Dýrafirði, ólumst þar upp og höfum því þekkst alla ævi. Báðar erum við úr stórum systkinahópum sem léku sér saman og nutu uppvaxtaráranna á Núpi. Hildur og fjölskylda hennar fluttu frá Núpi til Þingvalla þegar við vorum táningar en þrátt fyrir það slitnaði vinskapurinn aldrei. Það var mikil gæfa að eiga þessa tryggu vinkonu og þó við höfum sjaldan hist síðustu árin þá höfðum við alltaf samband og milli okkar ríkti ávallt einlæg vinátta. Fyrir hana er ég þakklát.
Við Sigurður sendum innilegar samúðarkveðjur til allrar fjölskyldunnar.
Rakel Valdimarsdóttir