Sjöfn Helgadóttir, Lilla, fæddist í Reykjavík 27. janúar 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Boðaþingi í faðmi fjölskyldu sinnar þann 9. júní 2023.

Foreldrar Sjafnar voru Helgi Einarsson, húsgagnasmíðameistari, f. 25. júlí 1905, d. 28. sept. 1995 og Aðalbjörg Halldórsdóttir, f. 26. nóv. 1910, d. 10. des 1982. Systkini Sjafnar eru Edda Helgadóttir, f. 21. maí 1932 og Birgir Helgason, f. 15. janúar 1944. Hálfbróðir samfeðra er Logi Helgason, f. 19. apríl 1968.

Sjöfn giftist eiginmanni sínum Hannibal Helgasyni frá Unaðsdal á Snæfjallaströnd þann 4. júní 1955, en hann lést 25. júlí 2014. Foreldrar Hannibals voru Guðrún Ólafsdóttir, f. 3. júlí 1897, d. 24. nóvember 1987 og Helgi Guðmundsson, f. 18. september 1891, d. 8. október 1945. Börn Sjafnar og Hannibals eru: 1) Hörður Hrafndal Smárason (sonur Sjafnar), f. 30.12. 1953, kvæntur Guðnýju Stefánsdóttur, þeirra dætur eru a) Drífa Lind, unnusti Óðinn Ólafsson, og á Drífa einn son, b) Hildur, unnusti Arnar Grétarsson, þau eiga þrjú börn. Fyrir átti Hörður Hafdísi Sjöfn sem býr í Danmörku og á hún fjóra syni og eitt barnabarn. 2) Harpa f. 15.10. 1958, hennar börn eru a) Tara Lind, maki Sigurður Óskar Sigmarsson og eiga þau þrjá syni, b) Karólína Íris, unnusti Björgvin Andri Garðarsson og eiga þau eina dóttur og c) Walter Hannibal, unnusta hans er Elín Ósk Björgvinsdóttir Long og eiga þau eina dóttur en fyrir átti hann einn son. 3) Helgi f. 3.2. 1960, hann á a) Þórdísi Sjöfn sem búsett er í Bandaríkjunum, gift Luis Muralles og eiga þau fjögur börn b) Agnes Ýr, unnusti hennar er Anton Logi Helgason. 4) Hannibal f. 29.5. 1963, dóttir hans er Helena Rún, unnusti Andri Már Óskarsson og eiga þau samtals þrjú börn og stjúpdóttir af fyrra hjónabandi er Erla María sem búsett er á Spáni og á hún tvær dætur. 5) Heimir f. 4.11. 1967, d. 4. febrúar 2022, börn hans eru a) Sunna Rós sem á einn son, b) Bjarki Jón. 6) Hekla f. 5.8. 1970, gift Ólafi Má Sigurðssyni og eiga þau tvíburana Kjartan Helga og Ólöfu Örnu, unnusti hennar er Ásgrímur Gunnarsson.

Sjöfn ólst upp í Laugarnesinu og gekk í Laugarnesskóla. Eftir að grunnskólagöngu lauk starfaði Sjöfn við afgreiðslu í bakaríi og önnur störf, m.a. sem kaupakona í Auðsholti í Hrunamannahreppi og í Unaðsdal. Eftir að hún gekk í hjónaband var Sjöfn lengst af heimavinnandi húsmóðir. Hún fór í hlutastarf í versluninni Ullarhúsinu við Aðalstræti á 9. áratugnum og starfaði þar við afgreiðslustörf í um 15 ár. Sjöfn var lengi virkur félagi í Oddfellow. Sjöfn og Hannibal áttu heimili lengst af í Melgerði 20 í Kópavogi sem þau byggðu upp úr 1961 en fluttu þaðan 2003 og bjuggu í átta ár á Hólmavík. Eftir veikindi Hannibals fluttust þau í Boðaþing 22, en Sjöfn bjó þrjú síðustu árin á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi.

Útför Sjafnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 28. júní 2023 og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma mín.

Þú varst mesta hörkutól sem ég veit um, en samt svo nett og fíngerð. Lifðir af krabbamein og mikla beinþynningu og samföll í hrygg og óvænt beinbrot sem þeim fylgir. Þú varst oft mjög verkjuð síðustu árin og ég sagði í mörg ár að þetta yrðu síðustu jólin sem þú myndir lifa. Ég hafði svo rangt fyrir mér. Þú hafðir óbilandi lífsvilja og æðruleysi sem var eftirtektarvert. Ég eyddi ótal samverustundum með þér í gleði og sátt en líka ótal stundum hjá læknum, á spítölum, í hvíldarinnlögnum áður en þú komst inn á Hrafnistu. Eitt sinn fórum við saman í þyrlu eftir að þú hrasaðir í sveitinni okkar og hlaust mjaðmagrindarbrot. Þú reist alltaf upp eins og fuglinn Fönix, endurnýjuð. Kannski beygð en aldrei brotin.

Þú varst stolt af fólkinu þínu og sýndir því alla tíð áhuga og spurðir um hvað allir væru að fást við. Gleðin var fölskvalaus þegar afkomendur komu að heimsækja þig en þú gerðir aldrei kröfur eða settir fram óskir um heimsóknir. Þú undir hag þínum vel á Hrafnistu enda var vel um þig hugsað þar og þar áttir þú góðar vinkonur. Það var þér sérstakt gleðiefni þegar Edda systir þín flutti á sömu hæð og þið gátuð hist daglega. Það er margs að minnast og margt að þakka, elsku mamma mín. Ég minnist þín með gítarinn að syngja og spila fyrir okkur systkinin. Ég minnist þín í sveitinni þar sem þú undir þér svo vel. Ég minnist þín að lesa fyrir barnabörnin og spjalla við þau. Ég minnist þín að vinna handavinnu, sauma, prjóna og hekla. Ég minnist þess að þú vildir alltaf vera fín og sæt, vel til fara með varalit og skart. Þú varst vel gefin og góð í tungumálum og last erlend tímarit á ensku og dönsku. Þegar þú eignaðist tölvu 79 ára gömul varstu fljót að tileinka þér notkun á samfélagsmiðlum til að geta fylgst með fólkinu þínu víðsvegar um heiminn. Þú varst einnig fljót að uppgötva vefleitir og last þér til um alls konar efni sem þú varst áhugasöm um.

Núna síðustu misserin varstu orðin tilbúin að kveðja og varst búin að ákveða allt varðandi útförina þína sem við börnin þín höfðum í heiðri. Ég veit að þú ert hvíldinni fegin en þín verður jafnframt sárt saknað.

Sem ungu barni þú ruggaðir mér

í svefninn, með söng á vörum þér

svaf ég þá vel og svaf ég fast

því ég vissi, alla þína ást mér gafst.

Er erfitt ég átti þú studdir mig

kenndir mér hvernig á að virða sjálfan sig

vera góð og heiðarleg

muna það, virða hvar sem ég dvel.

Ólst mig upp með von í hjarta

mér til handa um framtíð bjarta.

Hamingjusöm ég á að vera

elskuleg móðir sem allt vill gera.

Með þessum orðum vil ég þakka þér

alla þá ást og umhyggju sem gafst þú mér.

Ég elska þig mamma og mun ávallt gera,

vil ég þú vitir það hvar sem ég mun vera.

(Höf. ók.)

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín dóttir,

Hekla.