Gísli Eiríksson fæddist 29. september 1963. Hann lést á HSU 20. júní 2023.
Foreldrar: Eiríkur Gíslason, f.13.6. 1941, d. 13.9. 1995, og Eiríka Pálína Markúsdóttir, f. 19.6. 1942. Systkini: Ágústa Gina Eiríksdóttir, f. 6.3. 1961, Guðlaug Ásgerður Eiríksdóttir, f. 23.3. 1962, maki Magnús Haraldsson, f. 26.9. 1964, Markús Auðunn Eiríksson, f. 27.11. 1964.
Eftirlifandi eiginkona er Þórunn Jónsdóttir, f. 19.8. 1966. Foreldrar hennar eru Anna Sæby Lúthersdóttir, f. 5.6. 1942, og Jón Pálsson, f. 22.2. 1942, d. 18.1. 2020.
Fyrri eiginkona Gísla var Erla Ólafsdóttir, f. 23.8. 1958, og börn þeirra eru: Eiríkur Gíslason, f. 5.10. 1985, maki hans er Gunnhildur Þ. Sigurþórsdóttir, f. 24.6. 1975. Barn Eiríks og Arnheiðar A. Sigurðardóttur er Aron Helgi, f. 10.5. 1911. Börn Gunnhildar eru Ingibjörg Rún, f. 8.2. 1998, Þóra Rún, f. 20.10. 1999, og Ólafur Þór, f. 12.4. 2003. Auður Anna Gísladóttir, f. 7.2. 1992, maki Erlend Molvær, f. 22.9. 1989. Sigríður Þóra Ívarsdóttir, f. 28.1. 1979. Börn Þórunnar eru: Jón Auðunn Haraldsson, f. 30.12. 1987, maki Hrefna Rún Olivers Óðinsdóttir, f. 18.7. 1993. Barn þeirra er Brynjar Aron, f. 19.5. 2022. Andrés Már Haraldsson, f. 9.5. 1990, maki Sigurdís Jara Brynjólfsdóttir, f. 24.11. 1987, barn Jöru er Patrekur Ingi, f. 25.5. 2016. Magnús Páll Haraldsson, f. 3.9. 1994, maki Birna Dögg Jónasdóttir, f. 22.3. 1992. Börn Birnu eru Esther Gabrielle, f. 22.11. 2013, d. 3.12. 2013, Heiða Karen Bjarndal, f. 24.1. 2015, Esther Elena, f. 8.11. 2016, Kamilla Sif, f. 31.8. 2021.
Gísli fæddist í Vestmannaeyjum en bjó fyrstu árin sín í Hafnarfirði. Hann fluttist til Vestmannaeyja 5 ára og þaðan til Eyrarbakka þar sem hann sleit barnsskónum. Hann fór ungur í sveit austur á Neskaupstað á bæinn Miðbæ og talaði hann alla tíð um þau sumur sem bestu ár æsku sinnar. Hann flutti til Vestmannaeyja 16 ára til að stunda sjómennsku og var lengst af á togaranum Jóni Vídalín. Eftir það flutti hann á Akranes, stundaði verslunarstörf auk þess að stunda sjómennsku. Gísli flutti til Þorlákshafnar 1998, hann tók fiskvinnslumatsréttindi og vann eftir 2006 sem verkstjóri, fyrst hjá Auðbjörgu og nú seinni ár hjá Skinney-Þinganesi. Hann var lengi virkur félagi í Háfeta, hestamannafélagi Þorlákshafnar. Hann var í Kiwanisklúbbnum Ölveri og tók við embætti forseta félagsins 2016. Þá stundaði hann golf af miklum móð og hafði gaman af og vann meðal annars verðlaun öldunga í einni keppninni.
Útförin fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 28. júní 2023, klukkan 13.
Elsku pabbi minn, þú varst minn klettur og hetja. Þú stóðst með mér í gegnum súrt og sætt.
Þú kenndir mér að bæta og hnýta hnúta í skúrnum heima og mótaðir þannig mína sjómennsku. Ég leit alltaf upp til þín í einu og öllu.
Þú barðist við krabbamein í tvö ár, sigraðir það tvisvar en það þriðja tók þig frá okkur. Þú varst allan tímann jákvæður í þessu ferli þínu og hafðir húmorinn að vopni en þannig var þín stilling alla tíð, alltaf léttur í lund. Þið Þórunn þín tækluðuð þessa baráttu vel saman.
Í 27 ár hér og þar varst þú á sjó, en lengst af á Jóni Vídalín ÁR1. Sex ára gamlan tókstu mig með á sjóinn. Okkar samskipti voru sterk og var allt sem tengist sjónum okkar mesta umræðuefni.
Eftir slys byrjaðir þú sem kokkur á sjó og dafnaðir vel. Þá fékkstu viðurnefnið Gilli kokkur. Minn sjómennskuferill byrjaði um borð hjá þér og varstu strangur á að ég stæði mig vel og næði hlutunum fljótt. Þegar ég útskrifaðist úr stýrimannaskólanum fylltist þú stolti enda áttirðu ríkan þátt í þessu með mér.
Þær voru ófáar veiðiferðirnar sem þú fórst með okkur og minningarnar margar frá þeim tíma þótt oftast hafirðu þurft að veiða mig upp úr vatninu.
Hestamennskan átti hug okkar líka og áttum við saman hesthús og vörðum miklum tíma saman í útreiðum og hestaferðum.
Þegar Aron Helgi minn fæddist voruð þið Þórunn mér innan handar og tókuð hann um pabbahelgar þegar ég var á sjó. Ég sá myndast ofboðslega fallegt samband á milli ykkar. Ég er þakklátur ykkur og er strákurinn okkar mikill afa- og ömmudrengur.
Þú varst snillingur í bullsögum og ein er þegar þú sagðir frá því þegar steypireyður strandaði í höfninni í Þorlákshöfn og þú stökkst í sjóinn, tókst um sporðinn á henni og sveiflaðir þrjá hringi og kastaðir henni suður af Surtsey. Svona sögur þekkja öll börn sem þig þekkja.
Elsku pabbi minn, það er stórt skarð að missa þig en minningarnar lifa. Þú snertir fjöldann allan af fólki, hvort sem þú varst á sjó eða landi. Þú varst alltaf hressi gæinn, gítarinn eða Rolling Stones á fóninum og þú með bros á vör.
Það verður skrítið að heyra ekki í þér né geta hringt í þig, því daglega heyrðum við hvor í öðrum.
Takk pabbi minn fyrir allt sem þú kenndir mér. Þú varst minn besti vinur. Ég mun fylgja þínu mottói alla tíð: „Áfram gakk!“
Elska þig.
Þinn sonur,
Eiríkur Gíslason.
Elsku pabbi, hvernig á ég eiginlega að byrja þetta, ég trúi þessu ekki enn.
Frá því ég fæddist var ég svona líka hin svakalegasta pabbastelpa. Ég sá ekki sólina fyrir þér og vildi helst vera í fanginu á þér um leið og þú komst af sjónum þar til þú fórst aftur. Nokkrum áratugum síðar er ég ennþá sama pabbastelpan og vildi mest af öllu vera hjá þér þegar ég kom heim frá Noregi.
Ég á svo mikið af fallegum minningum af okkur saman, hvort sem það var þegar þú spilaðir og ég söng eða við dönsuðum saman í stofunni. Ég mun lifa á minningum mínum um fíflalætin og góðu tímana. Það var alveg sama hvert þú fórst, þú varst alltaf ljósið í herberginu. Þú elskaðir ekkert meira en að gleðja fólk og fá það til brosa. Það fór ekki á milli mála að ég átti skemmtilegasta pabbann, allir vildu kynnast þér og þekkja.
Svo mikill sögumaður varstu að fólk hlustaði agndofa á sömu sögurnar aftur og aftur, hvort sem það var að heyra hana í fyrsta, annað, þriðja eða tíunda skiptið
Húmorinn þinn og jákvæðnin er nokkuð sem ég mun aldrei gleyma. Ég er svo þakklát fyrir hve mikið þú kenndir mér, hvernig þú sýndir mér lífið í öðru ljósi. Þú kenndir mér að það væru aldrei vandamál, bara lausnir. Eða eins og þú varst vanur að segja: þetta reddast! Ég er svo þakklát hve lík ég er þér á margan hátt, því einstakari mann er erfitt að finna.
Ég hafði eitthvað á tilfinningunni og sneri heim til landsins í skyndi. Þú sofnaðir þann morguninn og vaknaðir ekki aftur. Ég vildi að ég hefði getað sagt þér hversu mikið ég elska þig og hve mikið ég horfi upp til þín. Orð fá því ekki lýst hvað ég er stolt af þér, hvernig þú barðist eins og hetjan sem þú ert. Dálítið skrítið eftir alla hákarlaslagina, að krabbi tók þig.
Takk fyrir koma með Þórunni inn í lífið okkar, það er ómetanlegt hvað þið voruð miklir klettar hvort fyrir annað og að sjá hve heitt þið elskuðuð hvort annað var svo fallegt.
Hvíldu í friði, elsku pabbi minn, ég veit ekki hvernig lífið verður án þín, míns besta vinar. En eins og ég lofaði þá mun ég taka á öllu með jákvæðni og gleði í hjarta. Síðast en ekki síst skal ég passa vel upp á hana Þórunni okkar.
Með einkunnarorðunum þínum „Áfram gakk!“ kveð ég þig, pabbi minn.
Þín,
Auður Anna.
Elsku tengdapabbi minn var hrókur alls fagnaðar.
Hann hafði skemmtilegan talanda og oft var ekki hægt að halda hlátrinum niðri í sér.
Okkar kynni hófust fyrir átta árum þegar ég kom inn í fjölskylduna.
Ég dáðist að þeim hjónum, hversu vel þau hugsuðu um og stóðu þétt við bakið á strákunum mínum.
Þeir feðgarnir voru miklir félagar. Símhringingar þeirra á milli voru daglega ekki einu sinni eða tvisvar á dag, oft náðu símhringingar þeirra tölu allra fingra, svo nánir voru þeir.
Gísli stóð heldur betur vel undir afatitlinum, hann var heimsins besti afi. Missir þeirra er mikill.
Ég lofaði Gísla að halda vel utan um þá og styðja eins vel og ég gæti.
Nú hefur tengdapabbi dansað sinn hinsta dans hér á meðal okkar. Ég er þakklát okkar dansi, þeim stundum og minningum sem ég á um góðan tengdapabba.
Hvíldu í friði, elsku Gísli minn.
Elsku Þórunn mín, það hefur verið aðdáunarvert að sjá hversu vel þú hefur staðið þig í þessum verkefnum ykkar Gísla. Þinn missir er mestur en ég veit að þú stendur sterkari upp enda baráttukona alla leið.
Megi allar góðar vættir vaka yfir þér. Innilegar samúðarkveðjur til þín og þinna.
Elsku hjartans fjölskylda, megi minningarnar um dásamlegan eiginmann, föður, stjúpa, tengdapabba og afa ylja okkur um ókomin ár.
Ég vil gjarnan lítið ljóð
láta af hendi rakna.
Eftir kynni afargóð
ég alltaf mun þín sakna.
(Guðrún V. Gísladóttir)
Gunnhildur Þorbjörg Sigþórsdóttir.
Mér finnst eins og ég hafi alltaf vitað hver Gísli var, þó að raunverulega höfum við ekki kynnst fyrr en hann kom með henni Þórunni okkar inn í fjölskylduna fyrir nokkrum árum. Kannski sá ég hann á sveitaböllum í gamla daga. Kannski þegar hann kom á puttanum á Selfoss sem peyi til að „ná sér í“ dúfur í dúfnaræktina sína. Eða kannski bara þegar hann kom í skólann á foreldrakynningardögum eftir að ég kom í Þorlákshöfn. Hvað sem því líður kom fljótt í ljós eftir að við kynntumst að hann var með ættartengsl okkar á hreinu, við vorum skyld í fimmta lið – Diðrikar úr Biskupstungum. Það þótti honum nóg til að ávarpa mig aldrei öðruvísi en sem „frænku“. Líkamsbygging okkar, óvenjuleg fegurð (!), ýmis persónueinkenni, skemmtilegheit og greind urðu að sögn Gísla best skýrð með þessum uppruna og tengslum ofan úr Tungum. Auðvitað var þetta allt í gamni sagt og stutt í glottið þegar gantast var með það hve makar okkar, systkinabörnin Þórunn og Siggi, voru heppin að finna okkur! Staðreyndin er sú að lánið var ekki síður okkar Gísla.
Þórunn hefur verið fastur punktur í tilveru okkar Sigga hér í Þorlákshöfn frá því við komum hingað, svo trygg og trú og alltaf hægt að leita til hennar með alla hluti. Ég held að á sama hátt hafi hún verið kletturinn í lífi Gísla eftir að þau tóku saman. Og það kunni hann að meta og var ekki spar á hólið þegar hann lýsti konunni sinni. Samband þeirra var einstaklega fallegt, þau deildu áhugamálum og lífssýn og hamingjan var þeirra förunautur þann tíma sem þau fengu saman. Kærleikurinn skein ekki síst í gegn í veikindastríði Gísla sl. tvö ár. Þau fóru saman í gegnum það og þau misstu aldrei vonina. Þau misstu heldur ekki húmorinn og voru ófeimin að tala um hlutina nákvæmlega eins og þeir voru. Okkur samferðafólkinu voru og verða þau frábærar fyrirmyndir. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst Gísla frænda mínum og lært af honum að það er mikilvægt að halda í húmorinn og kærleikann til hinstu stundar. Við Siggi og krakkarnir vottum elsku Þórunni og fjölskyldum þeirra Gísla okkar dýpstu samúð á kveðjustundu. Honum þökkum við samfylgdina og gleðina sem hann gaf okkur og samfélaginu sem var honum svo kært. Blessuð sé minning Gísla Eiríkssonar.
Sigþrúður Harðardóttir
og fjölskylda.
Elsku besti hjartans frændi minn, Gilli – stundum kallaður „Gilli, Aui og við“ – er farinn frá okkur alltof snemma eftir erfið veikindi. Gilli sagði mér mjög ungri að hann væri uppáhalds- og sterkasti frændi minn sem reyndist svo satt og rétt.
Ég var kannski ekki alveg að trúa öllum hákarlasögunum en gat samt einhvern veginn aldrei verið viss, vegna þess að Gilli átti svo margar skreyttar sögur af sjálfum sér, sem að ég held að hann hafi ekki sjálfur vitað að sumar þeirra væru dagsannar. Þegar foreldrar mínir lentu í bílslysi síðastliðið sumar var Gilli nýbúinn að ljúka einni meðferðinni og nýkominn heim þegar ég hringdi í hann og sagði honum fréttirnar af mömmu og pabba. Þá var hann stokkinn af stað til þess að hjálpa til, þannig var hann Gilli frændi minn, alltaf til staðar fyrir alla. Ég get sagt margar sögur af Gilla sem myndu sennilega fylla nokkur bókarbindi. En ég minnist þess alltaf með hlýju í hjarta þegar við vinkonurnar úr Þorlákshöfn komum upp á Skaga um 16 ára aldurinn til þess að fara á landsmót, eða meira svona að fara á ballið um kvöldið og Gilli tók auðvitað á móti okkur öllum, hýsti og fæddi. Þetta var án efa ein af mínum skemmtilegustu heimsóknum til Gilla á Skagann. Allar sumarbústaðaferðirnar og ættarmótin voru svo miklu skemmtilegri með Gilla, hann frændi minn kunni að lifa og njóta. Við áttum mjög fallegt samtal fyrir þremur vikum þar sem við ræddum allt á milli himins og jarðar, líkt og við vissum að þetta yrði okkar síðasta samtal, gátum meira að segja gert smá grín að mömmu, þrátt fyrir þeirra einstaka vina- og systkinasamband. Ég passa að sögurnar hans Gilla lifi, sögurnar af honum sjálfum þegar hann veiddi meðal annars hákarla með berum höndum, svo sterkur var hann Gilli frændi minn.
Með þessum orðum kveð ég minn allra besta frænda og vin og votta Þórunni, ömmu Sissu, börnum og barnabörnum Gilla og Þórunnar mínar innilegustu samúð.
Jóhannna Ó.
Ásgerðardóttir.
Gísli frændi var einstakur maður á svo margan hátt en það sem kemur fyrst upp í hugann þegar maður minnist hans er gleði og hlátur þar sem hversdagssögur voru sagðar á einstakan hátt, en ekki síst hetjusögur sem eiga engan sinn líka. Sögurnar voru ótrúlegar eða kannski frekar lygilegar, en allar voru þær dagsannar að hans sögn.
Allir elskuðu að hlusta og ekki síst börnin sem þótti einstaklega vænt um Gísla og þau munu aldrei gleyma þessum sögustundum þar sem Gísli var ávallt í aðalhlutverki, sterkari og stærri en nokkur annar.
Hér koma sýnishorn af örsögum Gísla.
Dag einn var Gísli að kasta steinum sér til dundurs undir Eyjaföllum, steinarnir stækkuðu eftir því sem leið á daginn og endaði á því að hann reif bjarg úr fjalli einu svo til varð fagur dalur, en bjarginu grýtti hann langt út á haf og varð þar til eyja nefnd Heimaey.
Það var svo einn daginn þegar Gísli var að synda milli lands og eyja að hann lendir í miðri hákarlavöðu, gerðu hákarlarnir atlögu að honum en á örskotsstundu náði hann að drepa þá alla og henti þeim á land, einum af öðrum og bauð síðan upp á hákarl á næsta þorrablóti.
Gísli var líka mikill golfari og átti að sjálfsögðu flottasta golfbíl landsins. Þegar karlinn var í sínu besta formi á vellinum þá þurfti að fella niður flug þann daginn því að skotin voru svo öflug að kúlurnar lentu á vélunum í 30 þúsund feta hæð.
Betri frænda er ekki hægt að fá, ef þungt var yfir manni þá var ekkert betra en að heyra í Gísla því eftir smá spjall (sem oft varð laaangt spjall)
þá léttist á manni brúnin svo um munaði, þessi kostur hans kom berlega í ljós í hans þrautagöngu síðustu misseri, hvar sem hann kom sá hann björtu hliðarnar á málunum og var oft með hálfgert uppistand á spítölunum og skipti þá ekki máli hvort töluð var íslenska, sænska eða annað tungumál.
Hann barðist við sjúkdóm sinn af mikilli hörku eins og honum einum var lagið og sigraði krabbann í tvígang og töluðu læknar um að það væri ótrúlegt hvað hann væri hress, hann ætti miðað við allt að vera rúmliggjandi, þá brosti Gísli og sagði „vita þeir ekki hver ég er.“
Elsku Gísli frændi þetta kom okkur ekkert á óvart þú varst hreystimenni, en umfram allt góður, tryggur maður og einstakur frændi, sem hugsaðir vel um þína.
Þú fórst alltof fljótt, við áttum eftir að bralla og spjalla margt saman, halda fjölmörg ættarmót, golfmót, steypumót ofl.
Hvíl í friði.
Benedikt Gabriel Jósepsson, Hekla, Jökull,
Nótt og Starkaður
Ég gleymi aldrei aðdraganda vináttu okkar félaganna. Eitt sumarkvöld, líklega árið 1972 þegar þú og fjölskylda þín var nýflutt á Eyrarbakka komst þú ásamt pabba þínum í Sætún þar sem ég bjó á þeim tíma. Við krakkarnir sem bjuggum þarna í kring, vorum úti að leika okkur og þú komst til okkar. Einhverra hluta vegna leist okkur ekki á þennan myndarlega dreng því við tókum þig fastan og þá mælti ég til þín fyrstu orðin sem ég man eftir að hafa sagt við þig, „Gefstu upp“.
Þrátt fyrir þessar harkalegu aðferðir voru við orðnir vinir nokkrum mínútum seinna. Þessi vinátta þróaðist síðan eftir því sem lengra dró og innan nokkurra vikna vorum við orðnir perluvinir. Líklega vorum við ekki svo ólíkir, mátulega kærulausir og lifðum fyrir daginn í dag.
Síðast þegar við hittumst fórum við að tala um liðna daga og þú minntist á að þau hafi nú verið nokkur prakkarastrikin sem við frömdum. Þú tókst dæmi af því þegar við í eitt sinn, þ.e. ég, þú og Aui vorum að veiða dúfur í nýlegri móttöku í frystihúsinu og heiðursmaðurinn Halldór Jónsson sem þá var verkstjóri í frystihúsinu kom að okkur. Dóri var vægast sagt ekki kátur með að við værum þarna inni og við logandi hræddir hlupum út um sama gat og við höfðum komið inn um, hlupum eins og fætur toguðu og þessi veiðistaður var þurrkaður út.
Þú sagðir mér líka þegar þú hafðir rifjað upp þessa sögu með mér, að á þessum tíma hafi ég haldið dagbók sem þú hafðir að sjálfsögðu aðgang að og þar hafi verið setning sem tilheyrði þessum degi, „nú er Dóri að elta okkur...“ og hlógum við báðir að þessu. Því miður er þessi dagbók glötuð, kannski er það bara í lagi því þar var margt sem var bannað innan átján.
Þú hafðir líka mjög gaman af því að rifja upp söguna af því þegar við komum heim til mín eftir skrall, ekki mikið samt, glorhungraðir og því voru nú góð ráð dýr. Við fórum að leita að einhverju ætilegu og fundum að lokum sunnudagsmatinn sem mamma hafði útbúið fyrr um daginn. Fullur bakki af soðnum sviðum blasti við okkur. Þar sem við báðir vorum mjög hrifnir af sviðum, kláruðum við af bakkanum og enginn sunnudagsmatur var heima daginn eftir. Mamma gerði ekkert mál úr þessu, líklega vegna þess að þú varst með mér og þá var allt fyrirgefið.
Við vorum báðir miklir Rolling Stones-aðdáendur og oft spiluðum við og sungum saman Honky Tonk Women, það voru sannarlega góðar stundir.
Hjartalag þitt var einstakt, óréttlæti, mismunun og misbeiting gegn þeim sem minna máttu sín var eitur í þínum beinum. Oft sagðir þú mér að þú værir dýravinur. Ég skildi aldrei af hverju þú varst að segja mér þetta í orðum, því þú varst stöðugt að segja mér þetta í verki og á ég þá ekki bara við virðingu gagnvart dýrum heldur líka öllu því sem þér mislíkaði og það ætíð réttilega.
Elsku Gilli, hvíl í friði vinur minn. Þin er sárt saknað og þú munt ætíð eiga stað í hjarta mínu. Einn daginn tökum við saman Honky Tonk Women.
Innilegar samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldu og vinum Gilla. Hugur minn er hjá ykkur og megi Guð gefa ykkur styrk í þessari miklu sorg.
Kjartan Valdimarsson