Jóhann L. Helgason
Jóhann L. Helgason
Svandísi Svavarsdóttur bar engin skylda til að láta þetta öfgafulla og einsleita fagráð ráða ferðinni.

Jóhann L. Helgason

Halló. Þó að þetta vesæla ríkisstjórnarsamstarf dragi enn andann og forustan BB, KJ og SIJ reyni að þagga niður spillinguna, stjórnleysið í öllum málaflokkum og ósamlyndið í meginmálefnum stjórnsýslunnar, á bak við allt of langt sumarfrí eða utanlandsferðir eða aðrar afsakanir, þá er það illmögulegt nú þótt reynt verði að þessu sinni.

Að margra mati er ástandið það alvarlegt í ríkisstjórninni að tilraunir til yfirhylmingar og þöggunar gera illt verra.

Tríóið verður núna að koma úr felum og svara öllum þeim ásökunum sem á það hafa verið bornar. Eða kannski getur maður bara strax með góðri samvisku flaggað í hálfa stöng yfir andláti þessarar ríkisstjórnar og þótt fyrr hefði verið. Andlátið sjálft er eiginlega aðalatriðið fyrir þessa þjóð, þótt það verði erfitt að bræða saman góða útfararræðu, aðalatriðið er að moka nógu fljótt yfir boxið.

Svandís Svavarsdóttir ráðherra var þó manneskja til og reyndi það í fyrradag að skýra fáránlega og ólöglega ákvörðun sína varðandi skyndilegt veiðibann á hvölum á fundinum á Akranesi.

„Góður fundur“ kallaði hún það eftir að hafa mætt óþægilegum spurningum, úi, púi og öskrum utan úr sal og eiginlega mætti hún öllu nema mygluðum tómötum og eggjum, sem þó mögulega svifu um salarkynnin þótt ekki hafi verið nefnt.

Svokallað fagráð er samansafn öfgamanna, en öfgafullar tillögur þess eru alls ekki bindandi fyrir einn eða neinn heldur gefa aðeins ráðgefandi niðurstöðu. Niðurstöður þessa hóps eru auðvitað pólitískar og byggðar á fyrirframákveðnum skoðunum og gera þær þar af leiðandi óhæfar, sem menn geta síðan haft sér til hliðsjónar eða ekki, við ýmsar rannsóknir. En fyrirfram getur maður gefið sér að fagráðið er auðvitað óhæft og ónothæf niðurstaða þess í hvalveiðimálum því auðvitað afar eðlileg.

Svandísi Svavarsdóttur bar engin skylda til að láta þetta öfgafulla og einsleita fagráð ráða ferðinni, enda gerði hún það ekki fagráðsins vegna og síður hvalanna vegna, heldur notfærði hún sér óráðið í pólitískum tilgangi, og eingöngu til að ögra og jafnvel sprengja ríkisstjórnina í loft upp.

Fylgi VG er í sögulegu lágmarki, stjórnarsamstarfið er í molum og það styttist í næstu kosningar og magalending forsætisráðherra í votmýrinni er öllum kunn. Er það ekki ástæðan sem að baki liggur, að reyna að tosa upp fylgið?

Aðeins að fiskveiðum og hvölum. Hvalir eru spendýr eins og selir, rostungar, sæljón og fleiri. Þessi dýr hefur maðurinn veitt sér til matar langt aftur í aldir. Nú virðist ágreiningurinn aðallega vera gegn hvalveiðum; að hvalurinn kveljist og sé of lengi að drepast eftir skotið, eða þetta einn til tvo tíma, sem í sjálfu sér er alveg viðunandi miðað við hversu stór þessi sjávardýr eru.

Fiskar í sjó hafa kalt blóð og lifa í hafinu stóra, og hafa sömu heimkynni og hvalir en fjölga sér með hrygningu. En viti menn; fiskar finna líka til eins og hvalir, hafa sínar sársaukatilfinningar ekki síður en þeir.

Fiskarnir í trollinu niðri á hafsbotni eiga aumt líf þar sem þeir kremjast næstum til dauða á meðan trollpokinn er dreginn eftir hafsbotninum þangað til hann að lokum endar uppi á þilfari þar sem veiðimaðurinn opnar pokann. Sumir fiskar drepast í trollinu í þessum hremmingum á hafsbotni en ekki allir, sumir eru lifandi þegar þeir detta úr pokanum á þilfarið. – Þetta eru bara fiskar, segja sumir, en má þá ekki segja á móti: Þetta eru bara hvalir sem nóg er af. Auðvitað má segja svo.

Línuveiðar eru ekki heldur mjög mannúðlegar ef svo má komast að orði. Þar hangir ýsan, þorskurinn eða hvaða fiskur sem er fastur spriklandi á önglinum í langan tíma áður en veiðimaðurinn húkkar hann inn á dekk. Auðvitað finnur fiskurinn til með krókinn fastan í blóðugum kjaftinum eða tálknunum og kemst hvergi.

Við skulum venja okkur af þeirri hræsni að gera upp á milli fiska, hvala eða annarra dýrategunda. Persónulega set ég samasemmerki á milli þorsksins sem hangir á króknum og bíður dauða síns og hvals sem fær í sig skot og drepst á innan við tveimur tímum. Veiðimaðurinn veiðir þá bráð sem hann æskir hverju sinni og svo lengi sem farið er eftir settum reglum og leyfum eru veiðarnar hið mesta lífsins endamál.

Mér finnst þetta uppistand með hvalveiðibanninu lýsa hinu raunverulega hugarfari forsætisráðherra afar vel; hún sjálf hefur ekki kjark til að varpa þessum mólótov-kokteil inn á ríkisstjórnargólfið heldur lætur Svandísi Svavarsdóttur um kastið.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Jóhann L. Helgason