Ávarp Vladimír Pútín Rússlandsforseti kom fram opinberlega í fyrsta skipti í gær síðan á laugardaginn
Ávarp Vladimír Pútín Rússlandsforseti kom fram opinberlega í fyrsta skipti í gær síðan á laugardaginn — AFP/Sergei Guneyev
Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, staðfesti í gær í samtali við fjölmiðla þar í landi að Jevgení Prigósjín, stofnandi og leiðtogi Wagner-málaliðahópsins, væri kominn til Hvíta-Rússlands

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, staðfesti í gær í samtali við fjölmiðla þar í landi að Jevgení Prigósjín, stofnandi og leiðtogi Wagner-málaliðahópsins, væri kominn til Hvíta-Rússlands. Lúkasjenkó tók jafnframt fram að Prigósjín væri þar á kostnað Wagner-hópsins og að ríkið væri ekki að borga einn eyri til að hýsa málaliðahópinn.

Óvissa hafði ríkt um hvar Prigósjín og Wagner-liðar hans væru niðurkomnir eftir að Prigósjín skipaði mönnum sínum að hörfa og halda aftur til herbúða sinna eftir að þeir voru komnir langleiðina til Moskvu á laugardaginn. Prigósjín sendi frá sér ellefu mínútna hljóðupptöku í gær þar sem hann sagði meðal annars að það hefði aldrei verið ætlunin að steypa Vladimír Pútín Rússlandsforseta af stóli en ekki kom fram í upptökunni hvar hann væri staddur.

Fylgist grannt með Wagner

Lúkasjenkó sagði í gær að hann vildi hlýða á Wagner-liða um reynslu þeirra af stríðinu í Úkraínu og læra af þeim. Hann tók jafnframt fram að Hvít-Rússar þyrftu ekki að óttast vegna veru þeirra í landinu og sagði að yfirvöld í Hvíta-Rússlandi myndu fylgjast grannt með þeim.

Lúkasjenkó sagði jafnframt að hann hefði hvatt Pútín til að þyrma Prigósjín og leyfa honum frekar að koma til Hvíta-Rússlands. „Ég sagði við Pútín, við gætum eytt Prígósjín, ekki málið. Ef ekki í fyrstu tilraun þá þeirri seinni. Ég sagði við hann, ekki gera þetta.“ Fréttastofa Reuters greindi frá því í gær að Viktor Khrennikov, varnarmálaráðherra Hvíta-Rússlands, hefði óskað eftir leyfi frá Lúkasjenkó til að láta þá Wagner-liða sem fara til landsins ganga í hvítrússneska herinn.

Pútín sagði í gærmorgun að hermenn Rússlands hefðu komið í veg fyrir borgarastyrjöld og harmaði að flugmenn hersins hefðu látist í átökunum, en hermt er að á bilinu 12-13 flugmenn hafi fallið á laugardaginn. Pútín greindi einnig frá því að Rússland hefði borgað Wagner-liðum um það bil milljarð bandaríkjadala í laun í maí í fyrra, en það nemur um 135 milljörðum íslenskra króna. Stjórnvöld í Rússlandi höfðu áður neitað öllum tengslum við Wagner-hópinn.

Pútín hefur nú boðið málaliðum á snærum Wagner-hópsins að ganga til liðs við rússneska herinn eða að halda í útlegð í Hvíta-Rússlandi.

Frelsa svæði frá 2014

Breska varnarmálaráðuneytið sagði í stöðumati sínu í gær að Úkraínumenn hefðu líklega náð að endurheimta landsvæði sem Rússar lögðu undir sig í innrásinni í Donbass-héruðin árið 2014, en Úkraínumenn sögðust á laugardaginn hafa frelsað landsvæði nálægt þorpinu Krasnohorvíka í Donetsk-héraði. Að sögn breska varnarmálaráðuneytisins hefur Úkraína náð að sækja fram lengra í austur frá þorpinu á síðustu dögum.

Úkraínumenn hafa einnig náð að hasla sér völl á vinstri bakka Dnípró-árinnar í Kerson-héraði að sögn rússneskra herbloggara, en áin hefur markað yfirráðasvæði Rússa og Úkraínumanna frá því í nóvember, þegar gagnsókn Úkraínu náði að frelsa Kerson-borg undan hernámsliðinu.

SÞ skrá 77 aftökur

Sameinuðu þjóðirnar sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem kom fram að Rússland hefði tekið að minnsta kosti 77 almenna borgara, sem voru í haldi hersins, af lífi síðan innrás Rússlands í Úkraínu hófst. Sameinuðu þjóðirnar vísuðu til verknaðarins sem stríðsglæps og sögðu morðin vera stórfellt brot gegn mannréttindum.

„Augljóslega eru fleiri aftökur sem nefndin hefur ekki getað greint, en við gerum ekki ráð fyrir að það séu háar tölur,“ sagði Matilda Bogner, formaður eftirlitsnefndar mannréttinda hjá Sameinuðu þjóðunum.

Höf.: Tómas Arnar Þorláksson