Árna Gunnarssyni eru orkuskiptin mjög hugleikin þessa dagana og segir hann spennandi tíma fram undan í þeim efnum. Ber hann þróunina saman við slaginn á milli VHS og Betamax, því ekki er enn ljóst hvaða tegund rafeldsneytis verður á endanum ofan á.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Þrátt fyrir að notkun jarðefnaeldsneytis sé fyrirsjáanlega að minnka á næstu árum þá hefur notkunin aldrei verið meiri. Á sama tíma erum við hjá Olíudreifingu í auknum mæli farin að undirbúa okkur fyrir þau orkuskipti sem fram undan eru með því að búa í haginn fyrir komu rafeldsneytis. Hlutverk okkar hjá Olíudreifingu er að sjá um birgðahald og dreifingu á eldsneyti og þar sem að hluta til eru gerðar aðrar kröfur til rafeldsneytis en jarðefnaeldsneytis verður það spennandi áskorun að láta þetta tvennt ganga saman.
Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?
Fundur Viðskiptaráðs um niðurstöður IMD á samkeppnishæfni Íslands í síðustu viku var áhugaverður. Við stöndum í stað í 16. sæti, lægst Norðurlanda og hefur skilvirkni hins opinbera ekki mælst minni í átta ár. Nágrannar okkar í Danmörku og Írlandi raða sér hins vegar í tvö efstu sætin þannig að við þurfum ekki að fara langt til að læra hvernig við getum gert betur.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Það er nú yfirleitt síðasta bók sem ég les sem er mér efst í huga og hefur áhrif á mig. Síðasta bók sem ég las er Lifað með öldinni eftir Jóhannes Nordal. Gríðarlega yfirgripsmikil bók sem lýsir vel þróun atvinnulífs á síðustu öld og hvernig mismunandi stjórntæki hins opinbera hafa áhrif á þróunina. Einnig gefur Jóhannes innsýn inn í það hvernig hann nálgaðist verkefni hvers tíma sem hægt er að draga ákveðinn lærdóm af.
Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?
Mest finnst mér ég fá út úr samtölum við vinnufélaga og samstarfsaðila. Einstaka ráðstefnur geta einnig verið nytsamlegar og lestur á ýmsu efni, hvort sem er í bókarformi eða á netinu.
Hugsarðu vel um líkamann?
Reyni það með ýmiss konar hreyfingu, t.d. að hlaupa og hjóla. Líkamsræktarstöðvar hafa fengið frið fyrir mér undanfarið en það er alveg að fara að breytast.
Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Er ekki upptekinn af gráðum en áhugaverður hópur sem gæfi af sér við að fást við krefjandi viðfangsefni væri spennandi.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Rekstrarkostnaður er stöðugt að aukast, sem eykur kröfu á hagræðingu í rekstri, en á sama tíma hefur endurnýjun bílaflotans tekið mun lengri tíma en við hefðum viljað vegna tafa í afhendingu og aðfangakeðju framleiðanda, sem hefur aftur þýtt meiri notkun á eldri bílum sem eru óhagkvæmari. Vextir eru síðan svimandi háir sem gerir alla fjármögnun mjög dýra.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Finnst gott að hreyfa mig nokkuð reglulega til að hreinsa hugann og hugsa um hlutina í öðru umhverfi. Léttur hlaupa- eða hjólahringur hefur leyst ýmis mál.
Ævi og störf:
Menntun: Stúdentspróf frá Fjölbrautarskólanum í Garðabæ 1988; rekstrarhagfræðingur frá Háskólanum í Augsburg, Þýskalandi 1994.
Störf: Deildarstjóri hjá FTI Touristik Þýskalandi 1994 til 1996; framkvæmdastjóri Íslandsferða, 1997 til 1998; sölu- og markaðsstjóri Flugfélags Íslands 1999 til 2005 og síðan framkvæmdastjóri frá 2005 til 2020; framkvæmdastjóri Iceland Travel, 2020 til 2023; framkvæmdastjóri Olíudreifingar frá júní 2023.
Áhugamál: Allt sem tengist ferðalögum og hreyfingu, sérstaklega þegar hægt er að tengja þetta tvennt saman, líkt og í skíðaferðum, golfferðum og snjósleðaferðum. Síðasta ferðin var mótorhjólaferð um Suður-Frakkland. Stangveiði hefur lengi verið á listanum og nú seinni árin einnig skotveiði.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Sigríði Bjarnadóttur iðjuþjálfa og eigum við strákana Ingvar, Gunnar og Arnar