40 ára Hestakonan landsfræga, Þórdís Erla Gunnarsdóttir, fæddist í Reykjavík og bjó frá tíu ára aldri í Árbænum. Öll sumur var fjölskyldan á hrossaræktarbúinu Auðholtshjáleigu í Ölfusi, en Þórdís er fædd inn í mikla hestamannafjölskyldu

40 ára Hestakonan landsfræga, Þórdís Erla Gunnarsdóttir, fæddist í Reykjavík og bjó frá tíu ára aldri í Árbænum. Öll sumur var fjölskyldan á hrossaræktarbúinu Auðholtshjáleigu í Ölfusi, en Þórdís er fædd inn í mikla hestamannafjölskyldu. Samhliða hestamennskunni var Þórdís í íþróttum, var annaðhvort á handboltaæfingu í Fylkishöllinni eða í Víðidalnum og svo á sumrin í sveitinni. Þórdís Erla lék með unglingalandsliðinu í handbolta og æfði með A-landsliðinu. „En svo sleit ég krossbönd í hné og þá fór ég alveg í hestamennskuna.”

Eftir stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands fór hún í reiðkennaranám í Háskólanum á Hólum. Hún hlaut FT-bikarinn fyrir hæsta lokapróf í tamningum og reiðmennsku þegar hún útskrifaðist á öðru ári á Hólum. „Þegar ég var unglingur var ég svo heppin að vera að vinna með Lenu Zielinski tamningakonu og við unnum saman í nokkur ár. Hún er ofboðslega flink og ég lærði mikið af því að fylgjast með henni.“ Áhuginn hefur verið óstöðvandi síðan og í dag starfar hún við reiðkennslu hér heima og erlendis ásamt því að rækta, þjálfa og temja í Auðsholtshjáleigu.

Þórdís hefur unnið til fjölda verðlauna og hefur verið valin íþróttakona Fáks tvisvar og hefur riðið til úrslita í mjög eftirminnilegum A-flokksúrslitum á Landsmóti 2014, rétt eftir að hún átti dóttur sína Svölu Björk. „Það voru mjög sterk og eftirminnileg úrslit á Hrafnari mínum,“ sérstaklega þar sem hesturinn var ræktaður og taminn af mér. Ég náði góðum árangri með hryssunni Ösp frá Enni sem m.a. vann Stjörnutöltið fyrir norðan mjög ung og varð Íslandsmeistari í slaktaumatölti. Skeið og kappreiðar hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá mér og gengið vel. Ég er heppin að hafa kynnst mögnuðum hrossum og þjálfað heiðursverðlaunahrossin Gígju og Gaum frá Auðsholtshjáleigu sem fóru bæði yfir 9 fyrir hæfileika og ferillinn hefur verið fjölbreyttur og litríkur.“

Fjölskylda Foreldrar Þórdísar eru Gunnar Arnarsson og Kristbjörg Eyvindsdóttir hrossaræktendur, margverðlaunuð, en Þórdís vinnur með þeim í ræktuninni á Grænhóli. Þau hafa hlotið titilinn ræktunarmenn ársins sex sinnum. Þórdís er í sambandi með Jens Andersen húsasmið og fyrrverandi landsliðsmanni í rugby. Dóttir Þórdísar, Svala Björk, er greinilega dóttir móður sinnar og er á fullu í fótbolta, handbolta og söng. „Svo hefur hún líka mikinn áhuga á hestunum.“