Það að Seðlabankinn dragi rannsóknir í marga mánuði, jafnvel nokkur ár, er ekki til þess fallið að auka traust og trúverðugleika fjármálakerfisins.
Það að Seðlabankinn dragi rannsóknir í marga mánuði, jafnvel nokkur ár, er ekki til þess fallið að auka traust og trúverðugleika fjármálakerfisins. — Morgunblaðið/Ómar
Fjármálaeftirlit Seðlabankans telur að starfshættir Íslandsbanka í tengslum við sölu á hlut í bankanum í mars í fyrra hafi verið til þess fallnir að rýra traust og trúverðugleika á fjármálakerfinu. Það er stór fullyrðing, sem erfitt er að sannreyna og hvað þá verðmeta

Fjármálaeftirlit Seðlabankans telur að starfshættir Íslandsbanka í tengslum við sölu á hlut í bankanum í mars í fyrra hafi verið til þess fallnir að rýra traust og trúverðugleika á fjármálakerfinu. Það er stór fullyrðing, sem erfitt er að sannreyna og hvað þá verðmeta. Traust og trúverðugleiki byggjast á huglægu mati og verður ekki svo auðveldlega metið til fjár. Þessi hugtök eru þó mikilvæg ef fjármálakerfinu er ætlað að virka eins og að á að virka. Það er því engin ástæða til að gera lítið úr því þegar talað er um að traust og trúverðugleiki fjármálakerfisins hafi beðið hnekki, enda þarf fjármálakerfið sjálft á því að halda að á því ríki traust.

Það þarf að ræða þessa hluti af yfirvegun eins og annað. Það má vel færa rök fyrir því að þau brot sem listuð eru upp í sátt fjármálaeftirlitsins og Íslandsbanka, sem birt var í upphafi vikunnar, séu ítrekuð og til þess fallin að kasta rýrð á fjármálakerfið. Þegar þeim er safnað saman, líkt og gert er í sáttinni sem birt var, má segja að þau séu alvarleg. Það er ekki hægt að draga fjöður yfir þá staðreynd að brotalamir hafi verið í starfsemi bankans og líklega hefði sr. Friðrik orðað það þannig að kappið hefði borið fegurðina ofurliði við framkvæmd sölunnar í fyrra.

Nú liggur ekki fyrir hver afdrif bankastjórans eða annarra stjórnenda innan bankans verða. Ef raunin er sú að fjármálakerfið hafi beðið hnekki, þá er um raunverulegt vandamál að ræða sem allir þurfa að taka á. Gífuryrði stjórnmálamanna um umrætt mál eða fjármálakerfið í heild sinni gefa ekki tilefni til bjartsýni. Þegar þörf er á yfirvegun í umræðu þurfa stjórnmálamenn líka að axla ábyrgð á því að geta rætt mál af yfirvegun.

Fáar starfsgreinar lúta jafn miklu regluverki og fjármálastarfsemi. Samhliða því sem regluverkið hefur aukist hafa ríkisstjórnir Vesturlanda gengið langt í því að efla eftirlit með fjármálamörkuðum og þar eru íslensk yfirvöld engir eftirbátar. Það tók fjármálaeftirlit Seðlabankans þó fjórtán mánuði að rannsaka þau brot sem fjallað er um í sátt eftirlitsins og Íslandsbanka, og enn eru önnur fjármálafyrirtæki til rannsóknar vegna sölu á hlut ríkisins í bankanum í mars í fyrra. Tafir á rannsóknum eru heldur ekki til þess fallnar að auka traust og trúverðugleika fjármálakerfisins. Það er kannski tilefni fyrir fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans að taka það til skoðunar hversu hægt fjármálaeftirliti Seðlabankans gengur að rannsaka umrædd mál.