Agnes Kristjónsdóttir við Krýsuvíkurberg.
Agnes Kristjónsdóttir við Krýsuvíkurberg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes lýsir starfi sínu í kvikmyndaiðnaðinum sem tvíþættu. „Í leikmyndadeildinni er ég oft svokallaður „buyer“ sem í stuttu máli felst í því að kaupa og útvega hluti sem þarf fyrir settin og persónurnar, eins og innanstokksmuni, smáa og stóra, og hvaðeina sem þarf úti og inni

Agnes lýsir starfi sínu í kvikmyndaiðnaðinum sem tvíþættu. „Í leikmyndadeildinni er ég oft svokallaður „buyer“ sem í stuttu máli felst í því að kaupa og útvega hluti sem þarf fyrir settin og persónurnar, eins og innanstokksmuni, smáa og stóra, og hvaðeina sem þarf úti og inni. Svo gengur maður í önnur störf í deildinni líka. Þetta er mikil samvinna. Stundum þarf að kaupa mjög mikið af dóti og ég reyni að versla fyrst og fremst við nytjamarkaðina eða leigja hjá leikmunaleigum. Leikmyndadeildin byrjar undirbúningsvinnu snemma í ferlinu og verkefnin eru mislöng. Síðasta stóra verkefni hjá mér var sjónvarpsþáttaröðin True Detective fyrir HBO hjá True North og stóð í næstum heilt ár,“ segir Agnes.

„Í tökustaðaleitinni eru verkefnin mjög fjölbreytt. Fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir eru oftast fundin nokkur heimili, skrifstofur, vinnustaðir og þetta helsta sem við sjáum á skjánum. Svipað á við um auglýsingar. Höfundar og leikmyndahönnuðir eru með hugmyndir um hvað þeir vilja sjá og mitt hlutverk er að reyna að finna eitthvað sem passar við það.
Og vonandi koma þeim líka á óvart með tilboðum sem falla í kramið,“ segir Agnes.

Stundum fer hún út á land. „Það þarf að finna kletta, himinhá björg, dali, fjöru, kirkju, gamla verksmiðju, útihús eða sveitabæ svo eitthvað sé nefnt. Í þessum ferðum kemur oft upp eitthvað óvænt sem gerir starfið skemmtilegt. Ég villist oft og Google Maps ruglast aðeins og það endar oft skemmtilega. Maður rekst á fallega staði langt í burtu frá mannabyggðum, finnur einhvern fjársjóð eða einhver í sveitinni eða á bænum bendir manni á fallegan stað,“ segir hún.

„Á meðal íslenskra verkefna þar sem ég hef leitað að tökustöðum eru sjónvarpsþáttaraðirnar Katla, Ófærð 3, Svörtu sandar, Heima er best, Venjulegt fólk og kvikmyndin Abbababb. Nýlega vann ég við splunkunýja spennandi sjónvarpsseríu hjá Glassriver svo eitthvað sé nefnt. Ég hef einnig verið í tökustaðaleit fyrir erlend verkefni og í sumar verð ég í tökustaðaleit fyrir aðra þáttaröð af Svörtu söndum. Bæði þessi störf innan kvikmyndaiðnaðarins eru mjög skapandi og það á vel við mig.“

Gaman að finna staði sem enginn hefur notað áður

Skoðar þú aðallega náttúruperlur eða þarftu að hafa augun opin fyrir því sem hinn hefðbundni ferðamaður er ekki að skoða?

„Í tökustaðaleitinni er oft verið að mynda þekkta ferðamannastaði en einnig að leita að minna þekktum stöðum og vonandi sérstökum sem koma vel út. Þá er gaman að finna eitthvað sem enginn hefur notað áður.“

Hvað finnst þér gera staði áhugaverða?

„Það er margt sem gerir staði sérstaka í mínum huga. Ef um byggingu er að ræða er það stíllinn, birtan, litirnir og karakterinn. Ef í náttúrunni þá er það fegurðin eða mikilfengleikinn, litir og birta. Sjórinn heillar mig alltaf og gaman er að fá það verkefni að finna sérstaka fjöru eða kletta við sjó.“

Vitar eru áhugaverðir

Er einhver landshluti sem þú heldur sérstaklega upp á?

„Ég ætla að nefna suðvesturhornið þar sem að það hefur komið mér mjög á óvart. Suðurstrandarvegurinn og Reykjanesið, eða Suðurnesin eins og þau voru áður nefnd. Ég hef verið töluvert á ferðinni þar. Mér finnst gaman að renna í gegnum bæina þarna suður frá, skoða náttúruna, húsin og kirkjurnar og finna róna sem hvílir yfir öllu á stöðum eins og Höfnum og Hvalsnesi til dæmis.

Einnig er mjög gaman að koma í vitana á Garðskaga. Ég veit ekki hvað það er en mér finnast vitar alltaf áhugaverðir og svo táknrænir fyrir margt. Þeir eru ljós í myrkrinu. Á Garðskaga er það ekki síst víðátta hafsins sem heillar, lognið ef svo ber undir, eða vindurinn í fangið. Reykjanesvitinn stendur á einstaklega tignarlegum stað og bæjarstæðið og umhverfið þar um kring er hreint töfrandi. Í beinu framhaldi er svo hægt að fara að Valahnúk, niður að sjónum og skoða bergið og Geirfuglsstyttuna og úti fyrir Valahnúk stendur Karlinn sem er hár klettur eða forn gígtappi.

Þá er það Gunnuhver. Hann er jarðhitasvæði með sínum fallegu litum og óbeisluðu orku. Brimketill sem er sérstök laug í sjávarborðinu finnst mér heillandi og sandurinn við bjargið með grænum gróðrinum finnast mér ævintýraleg. Krýsuvíkurberg, sem eru voldugir 15 km langir og litríkir sjávarklettar með fjölskrúðugu fuglalífi, er staður sem ég gleymi ekki vegna mikilfengleika. Þá er Festarfjall við Suðurstrandarveg einstaklega tignarlegt eldfjall og svo kyrrðin í Herdísarvík sem er síðasta heimili þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og sambýliskonu hans, Hlínar Johnson. Þá hef ég komið inn að Djúpavatni og er vel þess virði að keyra þangað. Eins er alltaf fallegt og óvenjulegt að koma að Kleifarvatni. Ég fæ ekki nóg af því einstaka umhverfi. Það er svo margt fleira fallegt á leiðinni alla leið að Strandarkirkju sem er í uppáhaldi hjá mér eins og mörgum,“ segir Agnes.

Bauð vinkonum sínum í óvissuferð

Agnes á margar góðar minningar frá þessu svæði. Oft er hún ein á ferð en henni finnst ekki síðra að vera í góðum félagsskap. „Í fyrrasumar bauð ég til dæmis vinkonum mínum í óvissuferð og sýndi þeim þessa fallegu staði. Við fengum okkur að borða á veitingastaðnum hjá Höllu í Grindavík, sem ég held mikið upp á, og enduðum í grasinu í Herdísarvík með kaffibolla. Það var einstök ferð,“ segir Agnes.

„Ég á sannarlega eftir að skoða margt fleira þarna. Af nógu er að taka og suma staði vil ég heimsækja aftur og aftur eins og Valahnúk, vitana alla og Brimketil, já og líka allar kirkjurnar í þessum landshluta. Fyrir utan þetta svæði hér fyrir sunnan er Hvalfjörðurinn í miklu uppáhaldi vegna fegurðar og fjölbreytileika. Þangað fer ég reglulega.“

Áttu þér uppáhaldslaug?
„Ég er mikil sundkona og fer helst ekki í frí nema að það sé sundlaug eða náttúrulaug á næsta leiti. Á þessum slóðum nefni ég gömlu laugina, Laugarskarð í Hveragerði, sem lengi var ein stærsta sundlaug landsins og vígð 1938. Einnig kann ég vel að meta Þorlákshafnarsundlaugina sem er nýleg og mjög fín.“

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir |