Dambisa Moyo
Dambisa Moyo
En jafnvel þótt meiri framleiðni auki hagvöxt myndi samdráttur vinnuafls grafa undan honum, sem þýðir að á endanum gæti hagvöxtur auðveldlega staðnað.

Dambisa Moyo

London | Í apríl spáði Sundar Pichai, forstjóri Alphabet, því að gervigreind myndi hafa „djúpstæðari“ áhrif en nokkur önnur uppfinning mannkyns, frá fyrsta eldinum til rafmagns. Þótt enginn viti fyrir víst hver þau áhrif verða nákvæmlega, virðast tvær breytingar afar líklegar: Eftirspurn eftir vinnuafli mun minnka og framleiðni aukast. Með öðrum orðum, við virðumst vera að færast í átt að vinnuaflslausu hagkerfi, þar sem færri starfsmenn þarf til að viðhalda vexti.

Störf í bakvinnslu, þ.e. störf sem eru án beinna samskipta við viðskiptavini, lögfræðiþjónustu og bókhaldi, virðast þau fyrstu til að víkja fyrir nýjum kynslóðum gervigreindar, þar á meðal stórum tungumálalíkönum eins og ChatGPT-4. En allar greinar atvinnulífsins verða líklega fyrir áhrifum. Vegna þess að tungumálaverkefni fylla 62 prósent af vinnutíma starfsmanna gætu stór tungumálalíkön haft áhrif á 40 prósent af öllum vinnutíma, segir í nýlegri skýrslu Accenture.

Accenture áætlar að 65 prósent af þeim tíma sem fer í slík tungumálaverkefni sé hægt að „breyta í skilvirkari verkefni með útvíkkun starfa og sjálfvirkni“. Og í nýrri McKinsey-skýrslu er spáð að gervigreindardrifin framleiðniaukning gæti bætt ígildi 2,6-4,4 trilljóna dollara verðmæta við hagkerfi heimsins árlega.

En jafnvel þótt meiri framleiðni auki hagvöxt myndi samdráttur vinnuafls grafa undan honum, sem þýðir að á endanum gæti hagvöxtur auðveldlega staðnað. Minni eftirspurn eftir starfsfólki felur í sér mikla aukningu atvinnuleysis, sérstaklega þar sem jarðarbúum mun halda áfram að fjölga.

Atvinnuleysi er nú þegar viðvarandi vandamál. Samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnuninni hefur heildarfjöldi atvinnulausra ungmenna (15-24 ára) haldist um 70 milljónum í meira en tvo áratugi. Og atvinnuleysi ungs fólks í heiminum hefur verið að aukast, úr 12,2 prósentum árið 1995 í tæplega 13 prósent eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna 2008 í 15,6 prósent árið 2021.

Gervigreind mun ýta undir þessa þróun. Og vegna þess að áhrif gervigreindar á vinnumarkaði eru líkleg til að verða kerfislæg myndi aukið atvinnuleysi nema varanlegri röskun. Kerfislægt atvinnuleysi, þ.e. vegna skipulags- eða tæknibreytinga, gæti farið aftur í það horf sem síðast sást í af-iðnvæðingu níunda áratugarins, þegar atvinnuleysi í Bretlandi hélst til dæmis yfir 10 prósentum lungann úr þeim áratugi.

Hvernig geta ríkisstjórnir stutt við vöxt vergrar landsframleiðslu á nýjum tímum viðvarandi kerfislægs atvinnuleysis? Augljósustu og líklegustu fyrstu viðbrögð stjórnvalda væru til meiri endurúthlutunar með aukinni skattlagningu á beinan hagnað af framleiðniaukningu vegna gervigreindar og nota þær tekjur til að styðja við almenning, m.a. með því að innleiða einhverja útgáfu af grunn framfærslutekjum til almennings.

Til að tryggja fullnægjandi tekjur til að styðja við stækkandi félagsleg öryggisnet gætu ríkisstjórnir gengið lengra en að skattleggja hagnað sem myndast beint af aukinn framleiðni vegna gervigreindar og skattlagt heildartekjur þeirra fyrirtækja sem uppskera mest vegna tækninnar. Þannig myndi ríkið, og einnig almenningur, gera tilkall til stærri hluta hagsbótanna sem verða til með gervigreindinni.

Auðvitað hefur gervigreindarbyltingin einnig djúpstæð áhrif á fyrirtæki. Til að byrja með verða fyrirtæki að aðlaga stefnu sína og rekstur til samræmis við nýja blöndu af meiri framleiðni og minna vinnuafli, sem gerir þeim kleift ná meiri framlegð með minna fjármagni. Fyrirtæki sem aðlagast og skila lágum kostnaði á móti tekjum munu laða að fjárfesta. Þeir sem eru seinir að breyta rekstri sínum munu glata samkeppnishæfni og gætu fallið í skuggann.

Áhrif slíkra breytinga í rekstri munu óma um allt hagkerfið. Minni eftirspurn fyrirtækja eftir fjármagni mun þrýsta fjármagnskostnaði niður og fyrirtæki munu hafa minni þörf fyrir lántöku hjá bönkum, sem veldur síðan því að heildarumsvif á fjármagnsmörkuðum minnka einnig.

Hærri skattar á hagnað fyrirtækja (eða tekjur) myndu skapa aðrar áskoranir. Þó að ríkið þurfi að auka tekjur til að styðja við vaxandi fjölda atvinnulausra, gæti þetta valdið því að fyrirtæki endi með minna af óráðstöfuðu eigin fé til fjárfestinga, þrátt fyrir viðbótarhagnað sem myndast af aukinni framleiðni með gervigreind.

Þetta er slæmt, ekki aðeins fyrir fyrirtækin. Minni fjárfesting í hagkerfinu myndi grafa undan vexti, minnka efnahagskökuna og draga úr lífskjörum. Það myndi líka lækka skattstofninn, þrengja að millistéttinni og auka ójöfnuð milli fjármagnseigenda og hefðbundins vinnuafls.

Þannig að þótt ríkisstjórnir gætu viljað hækka skatta og dreifa tekjunum til að draga úr skammtímaröskun af völdum gervigreindar, þá þurfa þau til lengri tíma litið að hugsa stærra. Í raun verða stjórnmálamenn að endurskoða ríkjandi efnahagslíkön og meginreglur og byrja á endurskoðun þeirrar forsendu að vinnuafl sé drifkraftur vaxtar. Á öld gervigreindar gerir vinnuafl lítið til að knýja vöxt, en verður samt að njóta góðs af tækninni.

Dambisa Moyo er alþjóðlegur hagfræðingur og höfundur fjögurra metsölubóka New York Times, m.a. „Edge of Chaos: Why Democracy Is Failing to Deliver Economic Growth, and How to Fix It“ (Basic Books, 2018). © Project Syndicate, 2023.

Höf.: Dambisa Moyo