Melissa Ann Lowder, markvörður Þórs/KA, var besti leikmaðurinn í tíundu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta, að mati Morgunblaðsins.
Melissa fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína með Þór/KA gegn Stjörnunni á Þórsvellinum á sunnudaginn, og er leikmaður umferðarinnar þrátt fyrir að hún hefði fengið á sig þrjú mörk í fyrri hálfleik.
Þór/KA var þá undir, 0:3, gegn Stjörnunni en jafnaði síðan metin með frækilegri frammistöðu í seinni hálfleik og lokatölur urðu 3:3.
„Það er við hæfi að telja Melissu Ann Lowder, markvörð Þórs/KA, besta mann leiksins. Hún varði oft á tíðum stórvel og bjargaði liði sínu frá enn háðulegri útreið í fyrri hálfleiknum. Lagði hún grunninn að mögulegri upprisu Þórs/KA,“ skrifaði Einar Sigtryggsson um frammistöðu Melissu í grein sinni um leikinn á mbl.is.
Melissa er 26 ára gömul, fædd í San Diego í Kaliforníu, og lék með háskólaliðinu Santa Clara Broncos í efstu deild bandarísku háskólanna á árunum 2015 til 2018, þar sem hún var fyrirliði á síðasta tímabilinu.
Hún var síðan á mála hjá þremur atvinnuliðum í Bandaríkjunum frá 2020 til 2022, Utah Royals, Chicago Red Stars og San Diego Wave. Hún var í hlutverki varamarkvarðar hjá þeim öllum og fékk ekki leik í NWSL-deildinni.
Melissa kom til liðs við Þór/KA rétt áður en Íslandsmótið hófst og hefur varið mark liðsins í öllum leikjum þess á tímabilinu.
Hún er í annað sinn í liði umferðarinnar hjá Morgunblaðinu og er, eins og sjá má hér fyrir ofan, ein af fimm leikmönnum í úrvalsliðinu sem hefur verið valin áður. Af þeim hefur Agla María Albertsdóttir úr Breiðabliki verið oftast í liðinu, eða fjórum sinnum. Sex konur eru valdar í liðið í fyrsta skipti á þessu tímabili.
Murielle Tirenan, framherji Tindastóls, var eini leikmaðurinn auk Melissu sem fékk tvö M í tíundu umferðinni. vs@mbl.is