Iðjan kallast útisetur en það er íslenskur siður sem var að mestu stundaður af konum til forna þar sem þær dvöldu á einhverjum stað í náttúrunni til að tengjast kröftum og anda náttúrunnar,“ segir Hrund, sem fer yfirleitt ein í útiseturnar þó það komi fyrir að hún fari með einum eða fleiri vinum eða vinkonum. „Markmiðið er þá fyrst og fremst að hafa ekkert markmið, ekki annað en að finna mannlaust svæði þar sem hægt er að vera í friði í nokkra daga og taka því eins rólega og mögulega er hægt.“
Njóta – ekki þjóta!
„Ég er í tveggja manna gönguhópi með Öldu Daníelsdóttur vinkonu minni en „hópinn“ köllum við Njóta – ekki þjóta. Við förum í mjög óskipulagðar og hægar gönguferðir og það má ganga hvenær sólarhringsins sem er. Við erum alltaf lengi á sama stað og ef okkur finnst mjög næs þá gistum við aðra nótt, og svo enn aðra ef því er að skipta. Tilgangurinn með Njóta – ekki þjóta er að gera allt rólega. Við erum kannski í fjóra tíma að borða hádegismat og göngum af stað þegar okkur sýnist. Málið er bara að staldra við og taka náttúruna og umhverfið inn … fylgja tilfinningunni. Vera á staðnum í hundrað prósent merkingu,“ segir náttúrubarnið. „Það eru allir alltaf að þjóta. Fólk þýtur í daglega lífinu og svo þýtur það í hjólaferðum og þýtur upp á fjöll þegar það fer út á land. Það er allt í lagi auðvitað en sem listamanni finnst mér mikilvægt að kúpla mig út með náttúrunni. Helst svo mikið að mér fari að leiðast,“ segir Hrund, sem uppgötvaði mikilvægi þess að geta látið sér leiðast þegar hún bjó og starfaði í New York, en hún starfar sem listamaður og keyrir þess á milli ríka ferðamenn um landið. „Það er svo mikið að gerast í New York að það á ekki að vera hægt að láta sér leiðast en þegar það gerðist hjá mér þá áttaði ég mig á að leiðinn var ekki beint leiði, heldur sköpunarþörf sem þurfti að brjótast fram í einhverju sem gaf mér eitthvað. Það að láta sér leiðast var í raun innri ólga sem braust svo fram í sköpunarkrafti.“
Stundar útisetur í náttúrunni og lætur sér leiðast til að ræsa sköpunarkraftinn
Með tilkomu internetsins hefur tilveran þróast þannig að það er nánast vonlaust að láta sér leiðast því afþreyingin er alls staðar, alltaf. Við erum bókstaflega með sjónvarpið í vasanum í og getum horft á bíómyndir og þætti allan sólarhringinn ef okkur langar til, átt í samskiptum við fólk í um allan heim og leitað að ástinni á þar til gerðum forritum eða spilað tölvuleiki. Það er af sem áður var þegar sjónvarpið var í fríi í júlí, dægurlög voru spiluð í útvarpinu í sérstökum óskalagaþáttum og krakkar hringdu dyrabjöllum til að finna einhvern til að koma út að leika svo að þeim leiddist ekki.
„Það hefur alltaf verið sagt að það sé hollt að láta sér leiðast en núna þarf að hafa sérstaklega fyrir því að þessi tilfinning láti á sér kræla. Útisetur eru fullkomin leið til þess. Að sitja við læk, tyggja strá og skoða sóley er bein ávísun á að hugmyndaflugið og sköpunarkrafturinn vakni,“ segir hún og bætir sérstaklega við að maður þurfi ekki endilega að vera listamaður til að útiseta geri manni gott: „Þetta er frábær leið fyrir hvern sem er til að leysa erfið mál í lífinu. Að leggja sig í hrauni í góðum mosa er bara best í heimi,“ segir Hrund. „Náttúran getur verið mikilfengleg og ægifögur en þegar maður fer að rýna í þetta smáa þá verður oft til heimur sem er jafnvel enn þá stærri en það sem blasir við og þannig höfðu útiseturnar áhrif á mína vinnu. Þetta er það sem Kjarval gerði þegar hann fór út í hraun og á Þingvelli og var þar dögum saman. Þá kom upp þetta innsæi hjá honum og hann fór að sjá myndir og andlit í hrauninu, en það gerist þegar maður dvelur í íslenskri náttúru.“
Ferðast á nóttunni
Hrund segist ekki muna eftir lífinu öðruvísi en að hafa verið í ferðum úti á landi, en öll hennar fjölskylda er mikið fyrir að láta sig hverfa úr borginni. Í gegnum ævina hefur hún komið á flesta staði landsins en á Hornstrandir eftir, en þær hyggst hún heimsækja í sumar.
„Þegar ég var barn þá voru engar klukkur á veggjunum í bústaðnum sem við áttum í Borgarfirði, en það skipti engu máli því það var hvort sem er bjart allan sólarhringinn. Mamma er líka b-manneskja eins og ég svo hún skildi mig og sá ekkert að því að ég færi út að vappa þó komið væri fram yfir miðnætti. Það er svo mikill galdur í íslensku sumarnóttinni og túristarnir fatta ekki að það er alveg eins gott að vera á ferðinni þegar aðrir sofa. Þá er algjört ævintýri að skoða alla þessa helstu ferðamannastaði en vera alveg ein í kyrrð bjartrar næturinnar,“ segir Hrund, sem er alin upp við að bera virðingu fyrir ósnortinni náttúru og finnst bókstaflega allt rangt við að gera það ekki.
Verðmæti þjóðarinnar felast í ómanngerðum svæðum
Hrund hefur búið víða í borgum erlendis og þó hún hafi alist upp með náttúruunnendum og ferðast um allt land sem krakki, þá áttaði hún sig enn betur á kraftinum þegar hún flutti aftur heim. „Það eru þessi ósnortnu svæði, þetta víðerni sem ég elska og ég áttaði mig svo sterkt á því, eftir að hafa búið í New York, Japan og Amsterdam, að það er ómetanleg gjöf að mega dvelja í ómanngerðu umhverfi. Af þessari ástæðu er ég á móti virkjanaframkvæmdum vegna þess að í allri Evrópu kemst maður hvergi í neitt þessu líkt, en mögulegagerir meirihluti landsmanna sér ekki raunverulega grein fyrir verðmætunum sem felast í ósnortinni náttúru. Þegar maður er í ómanngerðu umhverfi þá losnar um einhver höft og það er þetta sem ferðamennirnir sem hingað koma eru að sækjast eftir, enda eru í raun engin takmörk fyrir því hvað náttúran gerir fyrir bæði líkama og sál. Ég hef ferðast víða um Bandaríkin, sem eru nánast manngerð frá a-ö, en þau svæði sem eru ekki manngerð hafa verið afmörkuð sérstaklega og gerð að þjóðgörðum. Svo merkileg þykir ósnortin náttúra. Þú þarft bókstaflega að keyra inn um sérstakt hlið til að komast í ómanngert umhverfi og oft þarf að borga fyrir það. Við þurfum að gera okkur grein fyrir þessum verðmætum sem við eigum hérna og sjá til þess að passað sé upp á þau..“
Staðir í felum meðan þrasað er um framkvæmdir
Eru einhverjir staðir á Suðurlandi þar sem maður kemst fram hjá ferðamannastraumnum og getur upplifað þessa „Palli var einn í heiminum“ tilfinningu í náttúrunni?
„Já, ekki spurning. Til dæmis er hægt að fara að Þjórsá sem er lengsta á landsins. Það er ótrúleg fegurð í kring um hana, allt frá upptökum og til staðarins þar sem hún endar í ósunum. Víða í kring um Þjórsá er margt alveg ósnortið enda hefur engin áhersla verið lögð á uppbyggingu fyrir ferðamannaiðnaðinn þar, einfaldlega af því það er alltaf verið að rífast um virkjanir þarna,“ segir hún með látbragði, sem gefur til kynna að hún sé heldur langþreytt á þrasinu og útskýrir að náttúruverndarpólitíkin virki þannig að meðan þrasið yfir virkjanaframkvæmdum sé í gangi þá sé taktíkin sú að bíða með að vekja athygli ferðamanna á fallegum stöðum. „Svo komu nú reyndar frábærar fréttir fyrr í þessum mánuði þegar það var fallið frá hugmyndum um Hvammsvirkjun en mér skilst að náttúrufegurðin og lífríkið hafi haft áhrif á þá ákvörðun.“
Umkringd fegurð við risastóra leynifossinn Dynk
„Ofarlega í Þjórsá er risastór og óendanlega fallegur foss sem heitir Dynkur. Það fara mjög fáir að honum svo ef þú skellir þér þá getur þú næstum því bókað að geta verið ein í þínum heimi umkringd þessari fegurð. Rétt fyrir neðan Dynk er svo Urriðafoss sem er vatnsmesti foss landsins og þar fyrir neðan er svo Hjálparfoss, en þar má vaða út í lónið á góðum degi. Hjálparfoss er reyndar ekki í Þjórsá heldur við hlið hennar. Ég held að ég geti fullyrt að Dynkur sé uppáhaldsfossinn minn á landinu og það besta er að maður þarf ekki að vera á ofurjeppa til að fara að honum þó smábíll eða Tesla sé kannski ekki málið. Ef fólk vill skoða Dynk þá mæli ég með því að koma að honum Sprengisandsmegin, eða austanmegin, því þar er hægt að ganga alveg meðfram honum.“
Mosavaxinn töfraheimur og yngsta gljúfur í heimi
„Kirkjubæjarklaustur er algjört töfraland. Allt í kring um það svæði eru geggjaðir staðir og stutt í þessa hálendistilfinningu þar sem kyrrðin og róin er alger. Í kring um Kirkjubæjarklaustur er líka Skaftárhraun og magnaður mosavaxinn undraheimur sem vex upp úr því. Í Skaftárhrauni rennur Hverfisfljót og þar hefur yngsta gljúfur í heimi rutt sér veg í gegnum hraunið. Þetta er svona hrá jökulá, ótrúlega kraftmikil og brennisteinslykt af henni. Það er ekkert hefðbundið rómantískt við hana, þar sem þetta er ekki litla lautin með sóleyjunum, en krafturinn er rosalegur og vel þess virði að upplifa. Ef maður gengur upp meðfram Hverfisfljóti þá er alveg röð af geggjuðum fossum á leiðinni en svæðið er við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðar svo maður er ekki í traffíkinni en samt á alveg stórkostlega fallegu svæði. Þú getur legið þarna með bók og verið viss um að það kemur enginn að trufla þig.
Fyrir neðan Kirkjubæjarklaustur eru Landbrot og Landbrotshólar sem er líka eins og mosavaxið ævintýraland með fullt af litlum gígum á yfir fimmtíu kílómetra svæði. Þangað er hægt að fara eftir stikaðri gönguleið sem er í níu kílómetra hring en svo er líka hægt að fara og týna sér í þessari náttúru og fara aðrar og lengri leiðir. Í raun er allt umhverfið í kringum Kirkjubæjarklaustur alveg stórkostlegt og ég hvet alla til að fara þangað,“ segir Hrund og nefnir líka Hoffell sem er jökullón við Hoffellsjökul. „Hoffell er skammt frá þjóðveginum og það austasta sem maður kemst að mörkum suður- og austurlands, rétt áður en maður kemur að Höfn. Svo má líka minnast á það að á milli Kirkjubæjarklausturs og Hoffells er maður með Vatnajökulsþjóðgarð sem er auðvitað alveg trylltur en þá mæli ég með að skreppa í Skaftafellsstofu og sækja sér upplýsingar áður en lagt er í upplifunarleiðangur.“
Tólf ára sjálfboðaliði að byggja tröppur við Skógafoss
„Ef maður er á annað borð að keyra eftir Suðurlandi þá er hressandi að hoppa út úr bílnum og skoða Skógafoss. Ég segi alltaf fólki að taka með sér regnjakka og fara eins nálægt honum og það kemst, því það er besta leiðin til að upplifa hann almennilega. Maður verður að blotna aðeins. Svo myndast oft regnbogi við Skógafoss þannig að hann er verulega Instagram-vænn ef fólk fílar það.“ Skógafoss er ekki bara fallegur og ferðamannavænn foss í huga Hrundar því hún á skemmtilega æskuminningu frá staðnum. „Þegar ég var tólf ára þá byggði ég tröppur meðfram Skógafossi ásamt hópi af náttúruverndarsinnum og foreldrum mínum í sjálfboðastarfi. Við gistum í skólahúsinu og svo voru konur af svæðinu sem elduðu handa okkur. Tröppurnar eru þarna enn þá og marka upphaf leiðarinnar að Laugavegi og Fimmvörðuhálsi.“
Gott að muna eftir Úlfljótsvatni til að losna frá traffíkinni á Þingvöllum
Að endingu nefnir Hrund Úlfljótsvatn sem einn af sínum uppáhaldsstöðum en hún rekur ættir sínar þangað þar sem landið og vatnið voru í eigu ættarinnar þangað til árið 1940 þegar þau seldu ríkinu jörðina.
„Úlfljótsvatn er stutt frá borginni en mjög skemmtilegt og fjölbreytt umhverfi. Ég ber taugar til staðarins sem hefur eitthvað að gera með forvera mína en bæði langamma og afi eru jörðuð þar í kirkjugarðinum. Þegar maður vill losna við traffíkina á Þingvöllum þá er alltaf gott að muna eftir Úlfljótsvatni og fyrir fjölskyldur er til dæmis alveg frábært að fara þangað því skátarnir hafa byggt upp svo skemmtilegt svæði þar sem hægt er að leika sér,“ segir skapandi náttúruelskandinn Hrund Atladóttir að lokum.