Hvalbátarnir voru viðraðir í fyrrakvöld en um hefðbundna prófun var að ræða á vélum bátanna. SFS telur hvalveiðibann ekki standast lög.
Hvalbátarnir voru viðraðir í fyrrakvöld en um hefðbundna prófun var að ræða á vélum bátanna. SFS telur hvalveiðibann ekki standast lög. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að banna veiðar á langreyðum tímabundið í sumar er andstæð lögum og ekki reist á nægjanlega traustum lagagrundvelli, að því er fram kemur í áliti lögfræðinga lögmannsstofunnar LEX sem vann álitsgerð þar um fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að banna veiðar á langreyðum tímabundið í sumar er andstæð lögum og ekki reist á nægjanlega traustum lagagrundvelli, að því er fram kemur í áliti lögfræðinga lögmannsstofunnar LEX sem vann álitsgerð þar um fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Í minnisblaði þar sem þessi niðurstaða er kunngjörð kemur fram að afar hæpið sé að að lög um hvalveiðar heimili ráðherra að setja reglugerð sem í reynd stöðvar veiðar á langreyðum fyrirvaralaust eða kemur í veg fyrir að veiðirétthafar geti nýtt réttindi sín.

Stenst ekki stjórnarskrá

Ákvörðun ráðherrans hafi ekki verið reist á lagaheimild sem standist kröfur stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um friðhelgi eignarréttarins sem og atvinnufrelsi sem heimilar öllum að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Stjórnarskrárvarin réttindi megi aðeins takmarka með lögum, en ekki reglugerð, eins og gert var í þessu tilviki.

Reglugerð sem útiloki nær alfarið hvalveiðar í sumar hafi verið sett án fyrirvara eða aðlögunartíma telja lögfræðingar LEX að standist tæpast þær kröfur sem af meginreglu um stjórnskipulegt meðalhóf leiðir. Þá sé aðferðin sem matvælaráðherra beitir í þessu máli, þ.e. að banna hvalveiðar tímabundið með reglugerð í stað þess að fylgja málsmeðferð stjórnsýslulaga, tæpast í samræmi við svonefnda stjórnarfarsreglu. Sú regla felur í sér að stjórnvaldi er bannað að misbeita valdi sínu við val á leiðum til úrlausnar máls.

Ekki gætt að andmælarétti

Þá er á það bent að með því að óska ekki eftir sjónarmiðum Hvals hf., m.a. um álit þeirra sérfræðinga sem kallaðir voru fyrir fagráð Matvælastofnunar um velferð dýra, hafi fagráðið hvorki gætt að þeim andmælarétti sem mælt er fyrir um í 13. gr. stjórnsýslulaga, né rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga. Þetta sé annmarki á málsmeðferð fagráðsins, en svo sem kunnugt er byggði matvælaráðherra ákvörðun sína um takmörkun hvalveiða á niðurstöðu fagráðsins.

Af þessu leiði að umrædd reglugerðarsetning sé ekki reist á nægjanlega traustum grunni. „Það að kollvarpa stjórnsýsluframkvæmd í einu vetfangi, svo sem ráðherra gerði með banninu, með afar skömmum fyrirvara og án tilkynningar fyrirfram þar sem aðilanum sem ákvörðunin beindist að var gefið færi á að bregðast við og gæta hagsmuna sinna, fer í bága við viðmið sem lögð hafa verið til grundvallar í stjórnsýslurétti í réttarframkvæmd,“ segir í minnisblaði LEX.

„Ekki í viðtal í dag“

Morgunblaðið leitaði til matvælaráðuneytisins og óskaði viðbragða matvælaráðherra við lögfræðiálitinu og þeirri niðurstöðu að ákvörðun matvælaráðherra um að banna tímabundið veiðar á langreyðum stæðist ekki lög en fékk þessi svör: „Ráðherra kemst a.m.k. ekki í viðtal í dag.“

Frestun vertíðar ólögmæt

„Þetta er ítarlegt og vandað lögfræðiálit sem rökstyður vel að sú ákvörðun matvælaráðherra að fresta upphafi veiðivertíðar með reglugerðarsetningu er ólögmæt,“ sagði Teitur Björn Einarsson alþingismaður Norðvesturkjördæmis, spurður um álitsgerð LEX.

„Það er athyglisvert að á sama tíma og þetta lögfræðiálit staðfestir í reynd allt sem ég og fleiri höfum sagt um ákvörðun ráðherra, þá hefur matvælaráðherra ekki getað rökstutt á hvaða lagagrundvelli hún byggir ákvörðun sína. Ekki lagt enn fram nein gögn eða sambærilega lögfræðilega álitsgerð sem eiga að hafa legið til grundvallar í ráðuneytinu áður en ráðherra tók ákvörðun um að stöðva veiðarnar fyrirvaralaust og með afar íþyngjandi hætti gagnvart því fólki sem hlut á að málinu,“ sagði hann.

Réttast að endurskoða

„Málatilbúnaður ráðherrans er þannig allur í skötulíki og því réttast í stöðunni sem upp er komin að ákvörðunin verði nú þegar endurskoðuð svo afstýra megi alvarlegu tjóni fyrir fjölda fólks, tjóni fyrir starfsemina í heild og jafnframt forða ríkissjóði frá tjóni vegna fyrirsjáanlegrar skaðabótaskyldu. Í ljósi þess hversu freklega er brotið gegn stjórnskipulegri meðalhófsreglu og hversu alvarlegir annmarkar eru á málsmeðferð fagráðs er ég þeirrar skoðunar að hægt sé að leiða fram aðra skynsamlega og rétta niðurstöðu í þessu máli þar sem saman er gætt málefnalega að dýravelferð en aðallega að grundvallarréttindum fólks sem eru vernduð af stjórnarskránni,“ sagði Teitur Björn.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson