Knattspyrnumaðurinn Aron Elís Þrándarson gekk í gær til liðs við Víking í Reykjavík á nýjan leik eftir hálft níunda ár í atvinnumennsku í Danmörku og Noregi og samdi við félagið til fjögurra ára. Aron er löglegur með Víkingi frá og með 18. júlí þegar opnað er á ný fyrir félagaskiptin innanlands og hans fyrsti leikur á Íslandsmótinu gæti því verið gegn KR á Meistaravöllum 23. júlí.
Aron er 28 ára gamall miðjumaður sem lék með meistaraflokki Víkings frá 2011 til 2014, með Aalesund í Noregi frá 2015 til 2019, og frá þeim tíma með OB í Danmörku.
Hann á að baki 17 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark, 86 úrvalsdeildarleiki og 3 mörk í Danmörku, 127 leiki og 18 mörk í tveimur efstu deildunum í Noregi og 54 leiki og 22 mörk í tveimur efstu deildunum hér á landi.
vs@mbl.is