Margir af stærstu hluthöfum Íslandsbanka telja bankann rúinn trausti og fara þurfi í mikið átak til að endurheimta það traust. Til þess þurfi stjórn bankans að endurnýja umboð sitt.
Margir af stærstu hluthöfum Íslandsbanka telja bankann rúinn trausti og fara þurfi í mikið átak til að endurheimta það traust. Til þess þurfi stjórn bankans að endurnýja umboð sitt. — Morgunblaðið/Hákon
Telja má líklegt að farið verði fram á að stjórnarkjör á komandi hluthafafundi í Íslandsbanka. Stjórn Íslandsbanka hefur orðið við beiðni Bankasýslu ríkisins um að haldinn verði hluthafafundur í bankanum, þó ekki liggi fyrir hvenær hann verður haldinn

Telja má líklegt að farið verði fram á að stjórnarkjör á komandi hluthafafundi í Íslandsbanka. Stjórn Íslandsbanka hefur orðið við beiðni Bankasýslu ríkisins um að haldinn verði hluthafafundur í bankanum, þó ekki liggi fyrir hvenær hann verður haldinn.

Samkvæmt heimildum ViðskiptaMogga hafa aðilar úr hópi hluthafa rætt það sín á milli að þess verði óskað að stjórnarkjör fari fram á fundinum.

Núverandi stjórn bankans var kjörin á aðalfundi hans í mars sl. Ríkið á sem kunnugt er 42,5% hlut í bankanum en lífeyrissjóðir eiga saman um 33% hlut. Gildi-lífeyrissjóður er þar stærstur, með tæplega 8% hlut, en þá á Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) um 7,6% hlut og Lífeyrissjóður verslunarmanna um 6,4% hlut.

Forsvarsmenn stærstu hluthafanna hafi lýst yfir vonbrigðum með starfshætti bankans við sölu á 22,5% hlut ríkisins í mars í fyrra, í kjölfar sáttar bankans við fjármálaeftirlit Seðlabankans sem birt var á mánudag. Þar má nefna forsvarsmenn Bankasýslunnar, stærstu lífeyrissjóða meðal hluthafa að ónefndum stjórnmálamönnum sem hafa látið þung orð falla síðustu daga.

Spjótin beinast ekki beint að Finni Árnasyni, stjórnarformanni Íslandsbanka, þar sem hann tók við stjórnarformennsku aðeins nokkrum dögum áður fyrrnefnt útboð fór fram. Þó hefur þögn hans í málinu valdið pirringi meðal hluthafa sem ViðskiptaMogginn hefur rætt við og lítið liggur fyrir um það hvernig næstu skrefum í málefnum bankans verður háttað. Þá telja aðrir hluthafar að stjórnin þurfi, í ljósi alvarleika málsins, að sækja sér nýtt umboð til að geta tekist á við þann vanda sem blasir við bankanum – sem fyrst og fremst snýr að trausti og trúverðugleika hans – og ákvarðanir um framtíð bankans. Það snýr einnig að áframhaldandi samrunaviðræðum við Kviku banka, sem staðið hafa yfir frá því í febrúar og eru langt komnar skv. heimildum ViðskiptaMoggans.