Ferðaþjónusta Frá Efstadal II við Laugarvatn þar sem Sölvi Arnarson býður ferðamönnum upp á mat samhliða þeim búskap sem hann stundar.
Ferðaþjónusta Frá Efstadal II við Laugarvatn þar sem Sölvi Arnarson býður ferðamönnum upp á mat samhliða þeim búskap sem hann stundar.
Bændum sem færa sig út í ferðaþjónustu hefur fjölgað gífurlega síðustu ár en Sölvi Arnarson, formaður Félags ferðaþjónustubænda og stjórnarmaður í Ferðaþjónustu bænda hf., segir í samtali við Morgunblaðið að búskapur og bóndabæir á landsbyggðinni…

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Bændum sem færa sig út í ferðaþjónustu hefur fjölgað gífurlega síðustu ár en Sölvi Arnarson, formaður Félags ferðaþjónustubænda og stjórnarmaður í Ferðaþjónustu bænda hf., segir í samtali við Morgunblaðið að búskapur og bóndabæir á landsbyggðinni búi yfir gríðarlegu aðdráttarafli fyrir erlenda ferðamenn sem heimsækja Ísland. „Íslenska sveitin selur sig bara sjálf,“ segir hann.

Sölvi segir að fleiri bændur en færri séu nú í einhvers konar ferðaþjónustu samhliða búskap. Hann tekur þó fram að meðlimum í félaginu hafi fækkað nokkuð á síðustu árum og segir Félag ferðaþjónustubænda vera barn síns tíma og að breytingar séu í vændum á þeim vettvangi.

„Ferðaþjónustan er orðin það stór atvinnugrein að þeir bændur sem eru í ferðaþjónustu þurfa í raun frekar að vera í Samtökum ferðaþjónustunnar og líka í Bændasamtökunum.“ Aftur á móti bendir Sölvi á að Félag ferðaþjónustubænda hafi stofnað ferðaskrifstofuna „Ferðaþjónusta bænda hf.“ og að þar hafi félögum fjölgað töluvert undanfarin ár.

„Ég held að margir bændur séu að átta sig á því að þetta eru nokkuð góðar aukatekjur. Landbúnaður og ferðaþjónusta fara vel saman og maður verður alltaf sorgmæddur þegar maður sér bændur hætta búskap og fara einungis í ferðaþjónustu.“

Landbúnaður er undirstaðan

Spurður hvort hann hafi orðið var við að margir bændur hafi lagt niður búskap í skiptum fyrir ferðaþjónustu svarar Sölvi því játandi og segir það miður. „Ég myndi segja að við í Félagi ferðaþjónustubænda viljum standa fyrir því að ferðaþjónusta og landbúnaður fari saman. Við viljum ekki að önnur atvinnugreinin yfirtaki hina. Það þarf að finna góðan farveg fyrir það en vissulega eru meiri fjármunir í ferðaþjónustunni í dag.“

Hann ítrekar þá mikilvægi búskapar fyrir íslenska ferðamannageirann „Þetta er söluvara. Íslenskur landbúnaður og þær afurðir sem eru framleiddar er bara eitt helsta aðdráttarafl ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan væri fljót að fara á verri veg ef við myndum missa landbúnaðinn. Ég held að fólk átti sig ekki almennt á hvað landbúnaðurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir ferðaþjónustuna.“ Aðspurður segist hann hafa fundið fyrir mikilli aukningu á eftirspurn hjá ferðamönnum sem vilja kynnast íslenskum landbúnaði. Hann tekur þó fram að uppgangurinn hafi verið hraðari á suðvesturhorninu og bendir á að annar alþjóðaflugvöllur myndi dreifa ferðamönnum víðar um landið.

Sölvi tekur fram að ferðaþjónusta sé ekki nauðsynleg fyrir bændur til að halda rekstri á Íslandi en viðurkennir þó að hún sé góð búbót. „Það er frábært hvað íslenskir bændur eru atorkusamir að láta þetta ganga miðað við hvar okkar blessaða land er statt á hnettinum. Landbúnaðurinn stendur ekki og fellur með ferðaþjónustunni, þetta á að vera samvinna milli þessara atvinnugreina.“

Höf.: Tómas Arnar Þorláksson