Ólafur Agnar Guðmundsson fæddist 23. febrúar 1940. Hann lést 9. júní 2023. Útför Ólafs Agnars fór fram 24. júní 2023.

Þá er hann elsku móðurbróðir minn búinn að kveðja þessa jarðvist.

Óli var ljúfmenni, mikið góður og vandaður maður. Ég mun ávallt minnast hans með mikilli hlýju, kærleika og söknuði.

Ég ólst upp með honum og bræðrum hans, fyrstu ár ævi minnar, og man að hann var léttur í lund, yfirleitt með bros á vör og aldrei var langt í kímnigáfuna, þrátt fyrir að lífið væri erfitt.

Óli og systkini hans voru aðeins á barnsaldri þegar þau skyndilega misstu ástkæran föður sinn, sem var gífurlegt og ólýsanlegt áfall fyrir þau og móður þeirra.

Þá var enginn kostur annar en að drífa sig út á vinnumarkaðinn um fermingu og fara að vinna í ýmsum störfum, sem til féllu! Ólíkt því sem gerist í dag, þegar flest ungmenni telja það sjálfsagt að geta farið í eitthvert framhaldsnám.

Við vorum svo lánsöm að hitta Óla og fjölskylduna á skemmtilegu ættarmóti sl. sumar.

Við vottum Guðrúnu, Guðmundi, Jóni og Sigrúnu, barnabörnunum og tengdabörnum, svo og systkinum Óla, okkar innilegustu samúð og biðjum Guð að gefa ykkur öllum styrk í minningunni um mikið góðan mann.

Blessuð veri minning Ólafs Agnars Guðmundssonar.

Guðrún A., Þórður,
Vigfús og Abi.