Málverk Verkið er málað frá sjónarhorni Eskifjarðar. Hólmanesið er hægra megin og fjöll í sunnanverðum Reyðarfirði í bakgrunni.
Málverk Verkið er málað frá sjónarhorni Eskifjarðar. Hólmanesið er hægra megin og fjöll í sunnanverðum Reyðarfirði í bakgrunni.
Tómas Arnar Þorláksson tomasarnar@mbl.is Svo virðist sem huldumaður sem málaði málverk af Reyðarfirði sé fundinn en Ingvar Bjarnason, viðskiptaþróunarstjóri hjá Mílu, á nánast nákvæmlega eins málverk sem er merkt danska listmálaranum Christian Blache. Að sögn Ingvars kom Blache hingað til landsins um 1880 en hann telur verkið sitt hafa verið málað á þeim tíma. Blache málaði myndir á Austfjörðum og á Akureyri.

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Svo virðist sem huldumaður sem málaði málverk af Reyðarfirði sé fundinn en Ingvar Bjarnason, viðskiptaþróunarstjóri hjá Mílu, á nánast nákvæmlega eins málverk sem er merkt danska listmálaranum Christian Blache. Að sögn Ingvars kom Blache hingað til landsins um 1880 en hann telur verkið sitt hafa verið málað á þeim tíma. Blache málaði myndir á Austfjörðum og á Akureyri.

Eins og greint var frá í gær var ómerkt málverk af Reyðarfirði selt á vefuppboði Gallerís Foldar á þriðjudaginn fyrir 390 þúsund krónur en verkið var aðeins metið á 20 til 30 þúsund krónur þegar uppboðið hófst. Ofan á kaupverðið leggst uppboðsgjald og höfundarréttargjald sem Gallerí Fold ber að innheimta samkvæmt lögum. Er því raunverulegt kaupverð 507 þúsund krónur.

Blache fæddist í Árósum í Danmörku árið 1838 en á lífsleið sinni ferðaðist hann víðs vegar og málaði landslagsmyndir af bátum og skipum. Árið 1888 var Blache veitt innganga í Konunglegu dönsku listaakademíuna og árið 1907 varð hann formaður akademíunnar. Nokkur verk Blache eru nú til sýnis í listasafninu Staten Museum for Kunst í Kaupmannahöfn. Gæti því virði málverks Ingvars verið töluvert.

Ingvar segir að verkið hafi verið í eigu fjölskyldu sinnar um þó nokkurn tíma þó óvíst sé hve lengi. Hann veit þó með vissu að það hafi verið í eigu langömmu og langafa hans sem bjuggu í Borgarnesi. „Málverkið sem ég á er nákvæmt afrit af þessu verki. Mér grunar að hann hafi málað nokkur málverk með sömu uppstillingu. Ég giska á að hann hafi komið við í Borgarnesi og verið að selja verkin og þau ákveðið að slá til.“ Ingvar fann í gær þriðja málverkið sem er með sömu uppstillingu en það er einnig merkt Blache og seldist á uppboði í Danmörku fyrir skömmu. Sólveig Vilhjálmsdóttir, deildarstjóri netuppboða hjá Gallerí Fold, segir í samtali við Morgunblaðið að hún þekki ekki til þess að ómerkt málverk seljist á jafn háu verði og bendir á að oftast kaupi fólk málverk út frá höfundi verksins sem gefi verkinu aukið verðgildi.

Höf.: Tómas Arnar Þorláksson