Á Ísafirði Systkinin Bjarndís og Steinþór eða Dúi Friðriksbörn ánægð að loknu góðu dagsverki á húsinu Silfurgötu 7 fyrir skömmu.
Á Ísafirði Systkinin Bjarndís og Steinþór eða Dúi Friðriksbörn ánægð að loknu góðu dagsverki á húsinu Silfurgötu 7 fyrir skömmu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Bjarndís Friðriksdóttir var fjórða konan á Íslandi til þess að útskrifast sem málarameistari, brautskráðist frá Iðnskólanum á Ísafirði 1971 og hefur haldið merki kvenna í stéttinni á lofti í yfir hálfa öld. Ásta Kristín Árnadóttir, Ásta málari, reið á vaðið og lauk meistaraprófinu í Hamborg í Þýskalandi 1910. „Ég og Helga Magnúsdóttir á Húsavík vorum einu starfandi málarameistarakonurnar í áratugi en Helga féll frá fyrir rúmlega sjö árum,“ segir hún.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Bjarndís Friðriksdóttir var fjórða konan á Íslandi til þess að útskrifast sem málarameistari, brautskráðist frá Iðnskólanum á Ísafirði 1971 og hefur haldið merki kvenna í stéttinni á lofti í yfir hálfa öld. Ásta Kristín Árnadóttir, Ásta málari, reið á vaðið og lauk meistaraprófinu í Hamborg í Þýskalandi 1910. „Ég og Helga Magnúsdóttir á Húsavík vorum einu starfandi málarameistarakonurnar í áratugi en Helga féll frá fyrir rúmlega sjö árum,“ segir hún.

Hvert verkið tekur við af öðru hjá Bjarndísi og aldrei er dauður tími. „Það er brjálað að gera,“ segir hún. „Í raun er alltaf vitlaust að gera þegar útiveðrið kemur á sumrin og svo erum við „sjanghæjuð“ inn þegar á þarf að halda.“

Friðrik Bjarnason, málarameistari og faðir Bjarndísar, Diddi heitinn á Horninu, kenndi henni handbrögðin. „Ég var bara 14 ára þegar ég byrjaði að fara með honum í bátana að mála,“ rifjar hún upp. „Mamma og púkarnir og allir hinir höfðu gert þetta og mér fannst sjálfsagt að taka líka í pensilinn. Pabbi var með fyrirtæki, útskrifaði 13 lærlinga og við systkinin byrjuðum hjá honum, hvert á fætur öðru. Það hafa allir í fjölskyldunni tekið þátt í að beita penslinum og við Dúi bróðir höfum verið samstarfsfélagar undanfarin 17 ár en hann vann með okkur pabba af og til áður en hann fór í veitingageirann.“

Bjarndís byrjaði að vinna í Íshúsfélaginu um fermingu. „Ég var nýbyrjuð í vinnunni annað sumarið mitt þar þegar pabbi spurði mig hvort ég vildi ekki koma í útivinnuna. Mér fannst ólíkt huggulegri tilhugsun að mála bátana í Ísafjarðarlogninu, þó vinnan fæli í sér hörkutarnir, en að hanga inni öll sumur.“

Málarastarfið er fjölbreytt til sjós og lands og Bjarndís hefur gengið til verks með bros á vör á hverjum degi. Hún segir að ákveðin verk hafi gjarnan verið í föstum skorðum í áratugi. Að lokinni vetrarvertíð hafi þurft að sinna flotanum. Vertíðarbátarnir hafi verið skveraðir á vorin, djúprækjubátarnir merktir fyrir rækjuvertíðina og dyttað að togurunum nánast í hvert sinn sem þeir komu í land, en nú fari allir í slipp. „Ég málaði Júlíus Geirmundsson í 40 ár,“ segir hún og skellir upp úr.

Vinnan hefur gefið Bjarndísi mikið. „Einlægur áhugi hefur haldið mér í starfinu allan þennan tíma og auk þess er alltaf sérstaklega gaman að sjá falleg verk eftir sig. Ég hef skottast og unnið á fjörðunum síðan ég var krakki, þekki fólk í hverjum einasta firði og hef til dæmis málað reglulega í Mjólkárvirkjun síðan ég var stelpa og finnst það yndislegt, en Kristján Haraldsson, sem var orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða í yfir 40 ár, sagði eitt sinn „að hún Bjarndís sín væri viðhald OV“.“

Bjarndís segist vera mikil félagsvera og áréttar að hún hafi kynnst dásamlegu fólki um alla firði. „Það hefur verið rosalega gefandi og fyrir mér er það sem jólin að geta verið úti á sumrin.“ Hún hafi unnið með föður sínum, öllum bræðrum sínum, mörgum iðnaðarmönnum í öllum stéttum og það hafi verið mjög skemmtilegt. „Það er gott að vinna með góðu fólki.“ Hún segir að viðtökurnar í byrjun hafi gefið tóninn. „Karlarnir umvöfðu mig frá fyrsta degi og þeir hafa sýnt mér vináttu og virðingu alla tíð. Vináttan hefur verið mér dýrmæt og ég er óendanlega rík með allt þetta fólk í kringum mig.“