Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Eik fasteignafélag hyggst endurnýja atvinnuhúsnæði sem félagið leigði til Landsbankans í miðborg Reykjavíkur. Áformað er að þar verði meðal annars hágæða skrifstofurými í ýmsum stærðum sem gætu hentað minni sem stærri fyrirtækjum, veislusalir með útsýni yfir miðbæinn, íbúðahótel til langtímaleigu, vinnustofur listamanna og líkamsræktarstöð svo eitthvað sé nefnt.
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir um að ræða 7.000 fermetra af skrifstofuhúsnæði og öðrum rýmum við Hafnarstræti og Austurstræti (sjá graf). Gert sé ráð fyrir að þessum áfanga ljúki 2025. Verkefnið sé í vinnslu og liggi endanleg kostnaðaráætlun ekki fyrir.
Rými í eigu Eikar á jarðhæð eru í útleigu og stendur ekki til að breyta þeim í þessum áfanga. Þá skal tekið fram að Eik á ekki útibú Landsbankans í Austurstræti en viðbygging þess snýr einnig að Hafnarstræti.
Íbúðir tengdar hótelinu
Radisson Blue Hótel 1919 er rekstraraðili hjá Eik en það er á horni Pósthússtrætis, Tryggvagötu og Hafnarstrætis.
Garðar Hannes segir Eik hafa kannað möguleika þess að fjölga herbergjum á hótelinu úr 80 í 120 með því að breyta efstu hæðum Hafnarstrætis 7-9. Sú hugmynd hafi hins vegar ekki fengið hljómgrunn hjá borginni. Því hafi félagið kannað aðrar leiðir og er niðurstaðan sú að breyta þessum rýmum í íbúðir til langtímaleigu sem verða tengdar hótelinu, alls um 15 íbúðir.
Vegna staðsetningar og hás þjónustustigs geti íbúðirnar hentað fyrirtækjum vel sem þurfa tímabundið húsnæði fyrir starfsfólk en frá íbúðunum verði innangengt á hótelið. Þessu tengt hyggst Eik breyta matsal Landsbankans á efstu hæðum Hafnarstrætis 5 í ráðstefnu- og veislusal. Milliloft í salnum verður fjarlægt og mun hótelið þjónusta salinn en á hótelinu er veitingahúsið Brut sem komið er á meðmælalista hjá Michelin.
Skrifstofur endurgerðar
Skrifstofuhúsnæði á hæðum 2 og 3 í Hafnarstræti 5 verður endurgert og innréttaðar hágæða skrifstofur sem leigðar verða til skemmri og lengri tíma. Garðar Hannes segir húsin í ágætu standi en þó þurfi að uppfæra aðstöðu og innviði þannig að þau mæti nútímakröfum. „Við leggjum mikla áherslu á að varðveita byggingarstílinn,“ segir Garðar Hannes og bendir á myndir af hvítmáluðum hurðum í gömlum stíl sem verða á skrifstofunum.
Meðal breytinga á þessum rýmum er að opna skrifstofurnar með glerveggjum og hleypa þannig birtu í rýmin.
Garðar Hannes segir fyrirkomulagið sambærilegt og við skammtímaleigu á skrifstofum félagsins í Ármúla 13 en vörumerki þeirra er Akkur. Skrifstofurnar muni höfða til fólks í ýmsum geirum sem sé tilbúið að greiða meira fyrir staðsetninguna og hátt þjónustustig. Samhliða þessu verður útbúið spa og salur fyrir líkamsræktarstöð en viðræður við hugsanlega leigutaka eru ekki hafnar.
Jafnframt verður hluti rýma ætlaður listamönnum og menningu. Tengja á þá starfsemi við fyrirhugaðan listaháskóla í Tollhúsinu við Tryggvagötu, tónlistarhúsinu Hörpu og annarri menningarstarfsemi í miðborginni. Þá verður brú sem tengdi skrifstofur Landsbankans beggja vegna Hafnarstrætis breytt í kaffihús. Port milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu verður opnað og þar sköpuð rými fyrir veitingastaði, verslanir og markaði.