Stefán Hilmarsson
Stefán Hilmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölbreytt dagskrá með tónlist í aðalhlutverki verður á fjölskyldu- og menningarhátíðinni Allt í blóma, sem haldin verður í Hveragerði um helgina. Riðið verður á vaðið á föstudag með tvennum tjaldtónleikum í lystigarði bæjarins

Fjölbreytt dagskrá með tónlist í aðalhlutverki verður á fjölskyldu- og menningarhátíðinni Allt í blóma, sem haldin verður í Hveragerði um helgina. Riðið verður á vaðið á föstudag með tvennum tjaldtónleikum í lystigarði bæjarins. Bríet ríður á vaðið með fjölskyldutónleikum kl. 17 og um kvöldið eru tónleikar með Stefáni Hilmarssyni sem hefjast kl. 21.

Stefán hefur verið einn vinsælasti söngvari þjóðarinnar sl. 30 ár eða svo og liggja eftir hann á þriðja hundrað lög, sólóplötur og plötur með hljómsveitum sem hann hefur verið í, segir í tilkynningu. Þar er haldið til haga að Stefán sé margfaldur Eurovision-fari og frábær texta- og lagahöfundur. Á þessum einstöku tónleikum komi Stefán fram með landsliði hljóðfæraleikara þar sem hann fari í gegnum sín helstu lög.

Á laugardeginum er skemmtidagskrá opin öllum yfir daginn, tjaldmarkaður, barnaskemmtun og tónleikar og margt fleira. Á laugardagskvöld eru opnir stórtónleikar í lystigarðum sem hefjast kl. 20. Þar koma fram Friðrik Dór, Gdrn, Jónas Sig & Unnur Birna ásamt fleirum og hljómsveit. Að lokinni dagskránni á sviðinu verður svo dansleikur í tjaldinu fram á nótt með Gunna Óla, Stefaníu Svavars og Blaz Roca.

Dagskránni lýkur svo á sunnudagskvöldið með tónleikum Bjartmars Guðlaugssonar í skálanum í Reykjadal, fyrir innan Hveragerði.