Ný þjónusta Samgöngufyrirtækið Hopp er nú á leigubílamarkaði.
Ný þjónusta Samgöngufyrirtækið Hopp er nú á leigubílamarkaði. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Samgöngufyrirtækið Hopp Reykjavík opnaði af fullum krafti fyrir leigubílaþjónustu sína fyrr í þessum mánuði. Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík, er ánægð með stöðuna. „Þetta verkefni hefur gengið vonum framar

Magnús G. Kjartansson

mgk@mbl.is

Samgöngufyrirtækið Hopp Reykjavík opnaði af fullum krafti fyrir leigubílaþjónustu sína fyrr í þessum mánuði.

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík, er ánægð með stöðuna.

„Þetta verkefni hefur gengið vonum framar. Við höfum ekki náð að anna eftirspurn notenda en við gerðum einmitt ráð fyrir því að það tæki tíma að ná jafnvægi á markaðnum. Við erum að koma með nýjung á markaðinn, sem er ekki beint leigubílastöð í þeirri merkingu sem var, heldur erum við að opna farveitu. Farveita er leið til að dreifa ferðum á bílstjóra, þar sem notandinn hefur valið hvort ferðin henti honum. Bílstjórarnir starfa í raun sjálfstætt, en við tengjum þá við viðskiptavini í appinu. Þetta er nýtt, bæði fyrir notendur og bílstjóra,“ segir Sæunn.

Hún segir fyrirtækið vera með 70 bílstjóra á skrá og vilji fá fleiri til liðs við sig. „Yfir fyrstu helgina okkar náðum við ekki að sinna nema 35% þeirra ferða sem óskað var eftir,“ segir hún.

Þrátt fyrir vel heppnaða frumraun Hopps á leigubílamarkaði telur Sæunn að núverandi löggjöf um leigubifreiðaakstur þjóni ekki tilætluðu hlutverki sínu.

„Nýja löggjöfin veitir ekki þann sveigjanleika sem þörf er á til að gera fólki kleift að sinna leigubílakeyrslu sem hlutastarfi. Fyrst verða bílstjórar að standast námskröfur sem fela í sér að taka meirapróf og námskeið sem veitir atvinnuleyfi. Þegar það er fengið má viðkomandi aka í hlutastarfi, en þá vantar hann bíl, og til að tryggja bíl þarf að vera með svokallaðar leigubílatryggingar. Við teljum að stjórnvöld þurfi að stíga stærri skref, ef það á að koma til móts við aðila sem vilja veita samkeppnishæfa leigubílaþjónustu,“ segir Sæunn.

Höf.: Magnús G. Kjartansson