Þuríður Fanney Sigurjónsdóttir, húsmóðir, fæddist 29. janúar 1928 að Kópareykjum, Reykholtsdal. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg 16. júní 2023.
Foreldrar hennar voru Sigurjón Jónsson f. 13.8. 1891, d. 9.6. 1972 og Helga Jónsdóttir f. 5.1. 1892, d. 27.3. 1985
Fanney var næstyngst í hópi fjögurra systkina. Margrét f. 8.6. 1923, d. 12.1. 1950. Sigríður f. 29.9. 1925, d. 26.2. 1960 og Eyjólfur f. 14.5. 1932.
Eiginmaður hennar var Halldór Karlsson, húsasmíðameistari frá Seyðisfirði.
Þau giftust 27. febrúar 1954. Foreldrar hans voru Stefán Karl Sveinsson, f. 14.10. 1899, d. 25.3. 1980 og Kristín Halldóra Halldórsdóttir, f. 24.3. 1911 d. 24.10. 1970.
Börn Fanneyjar og Halldórs eru: Margrét, f. 1951, maki Gunnar Magnússon, f. 1950, eiga þau fjórar dætur: Kristín, f. 1953, á hún þrjú börn, Helga, f. 1954, maki Sófus Berthelsen, f. 1954, eiga þau tvær dætur, Sveinn, f. 1955, maki Lára Aradóttir, f. 1957, eiga þau þrjú börn, Sigrún, f. 1959, á hún þrjú börn, Sigríður, f. 1963, maki Sævar Helgason, f. 1960, eiga þau tvö börn, fyrir átti Sævar tvö börn, og Elísabet, f.1965, maki Ragnar Áki Ragnarsson, f. 1964, og eiga þau tvo syni. Barnabörnin eru því 19 og barnabarnabörnin eru 26.
Fanney fór í húsmæðraskólann í Varmalandi og fluttist ung til Reykjavíkur þar sem hún hjúkraði Margréti systur sinni á Landakoti þar til hún lést. Fanney vann ýmis störf í gegnum árin en hennar stærsta starf var húsmóðurstarfið og stóra heimilið sem hún hélt af miklum myndarskap. Fanney var mikil fjölskyldumanneskja og var mjög umhugað um börn sín og barnabörn. Fanney var umvafin vinum og ættingjum hvert sem hún fór . Hún var einstaklega myndarleg í hannyrðum og bakstri og nutu margir góðs af því í gegnum árin. Þau hjónin byggðu heimili sitt fyrst í Hlunnavogi 10 og fluttu síðan í Kópavoginn 1964 á Fögrubrekku 15. Árið 1987 fluttu þau hjónin í Vallhólma 16 í Kópavogi.
Útför Fanneyjar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 29. júní 2023, kl. 13.
Elsku mamma, það er erfitt að setjast niður og skrifa minningarorð um þig.
Þú hringdir í mig daglega heim í heimasímann, stundum nokkrum sinnum á dag. Þú byrjaðir alltaf símtalið á orðunum „Sigrún mín, er ég nokkuð að trufla?“ en þér fannst voða gott að spjalla og heyra í fólkinu þínu. Nú er þögn í heimasímanum og einstaklega tómlegt að heyra hann ekki hringja.
Mamma var alltaf glæsileg og með einstaka útgeislun, hún bað mig reglulega að setja í sig rúllur, það skipti hana máli að vera fín um hárið og með varalit.
Síðustu ár hef ég farið oft í viku og heimsótt mömmu en aðstæður breyttust tímabundið í vetur fram á vor hjá mér, svo ég fór oftar og lengur í senn til mömmu. Litið til baka þá er þessi tími með mömmu einstaklega dýrmætur. Við áttum góðar stundir saman, fórum oft í bingó á föstudögum, fengum okkur kaffi og fórum í ísbíltúr. Ég er einstaklega þakklát fyrir þessar stundir.
Ég sagði við mömmu í vetur að að ég myndi alltaf muna hennar lífsgildi, það var einstakt hvernig mamma reyndi alltaf að draga fram það besta úr hverjum og einum. Hvernig sem dagurinn var, þótt hann hefði ekki verið góður þá var mamma alltaf í líðandi stund og gat séð það jákvæða í hverri stund og dvaldi ekki í því sem var liðið.
Elsku mamma, það er óraunverulegt að hugsa um tilveruna án þín, geta ekki heimsótt þig á Sléttuveginn né heyrt í þér aftur.
Takk elsku mamma fyrir allt, ég á eftir að sakna þín mikið.
Ég kveð þig með orðunum sem við kvöddumst alltaf á, ég sagði alltaf „ég elska þig mamma“ og þá sagðir þú alltaf til baka „love you too“ og sendir fingurkoss.
Elska þig mamma og takk fyrir allt.
Þín,
Sigrún.
Að kveðja foreldra sína er aldrei auðvelt. En við fráfall mömmu er svo margs að minnast að maður fyllist þakklæti fyrir það góða líf sem hún átti með afkomendum sínum. Mamma var af þeirri kynslóð sem fluttist ung á mölina úr sveitinni sinni sem hún unni svo mjög, og hélt alla tíð tryggð við uppruna sinn. En mamma var úr Reykholtsdal í Borgarfirði. Foreldrar hennar voru bændur á Kópareykjum.
Ferðirnar voru ætíð minnisstæðar með foreldrum mínum í sveitina hennar mömmu. Hvort sem farið var í berjatínslu, ná í hráefni til sláturgerðar eða heimsóknir til afa og ömmu eða ættingja mömmu í dalnum hennar. Þessar ferðir voru ávallt skemmtilegar og gefandi og styrktu tengsl okkar systkinanna við sveitina hennar.
Í dag er ég þakklátur fyrir þann tíma sem hún gaf sér til að kynna mér lífið í dalnum sínum. En þar eins og í öðrum samfélögum skiptust á skin og skúrir í lífinu og fólkið stóð saman ef á þurfti að halda. Já, hún móðir mín kenndi mér mennskuna og að koma vel fram við annað fólk. Það má segja að mamma hafi gert þetta að ævistarfi sínu, að sýna öllum sínum samferðamönnum samkennd og virðingu. Um þetta geta börnin, barnabörnin og aðrir vitnað. Að sá jákvæðum fræjum til allra var styrkur hennar.
Hið einstaka samband sem hún átti við hvert og eitt barna sinna og barnabarna sinna var sérstakt, einnig við þá vini sem hún eignaðist á sinni löngu ævi. Hvað mig sjálfan varðar þá er ég þakklátastur fyrir leiðbeiningar hennar til mín gegnum lífið. Þær hafa þroskað mig og gert mig að betri manneskju.
Hafðu þökk fyrir allt, mamma, blessuð sé minning þín.
Þinn sonur,
Sveinn (Svenni).
Elsku móðir mín er farin í Sumarlandið til föður míns, Halldórs Karlssonar sem féll frá árið 1990, á sextugsafmælisárinu sínu.
Á bernskuheimili mínu í Kópavogi var mjög annríkt þar sem það var stór hópur barna sem foreldrar mínir eignuðust; sex dætur og einn sonur. Ásamt okkur sjö systkinunum voru frændsystkin tíðir gestir, ásamt öfum, ömmum og vinafólki. Þegar ég lít til baka var mjög mikill gestagangur en þar ríkti gleði, kærleikur og væntumþykja til allra sem urðu þeim samferða í gegnum lífið. Þetta var næstum því eins og umferðarmiðstöð, heimilið okkar, þar sem móðir mín var að baka og elda fyrir alla sem komu við. Það var alltaf séð til þess að heimafólk og gestir fengju nóg að borða og pönnukökur og kleinur voru vinsælar. Minningarnar streyma fram þar sem við fórum í sveitina hennar mömmu að heilsa upp á frændfólkið í Saurbæ í Hvalfjarðarsveit, Nesi og á Kópareykjum, æskustöðvum móður minnar í Reykholtsdalnum. Þar var farið í berjamó, sláturgerð, farið í fjósið, á hestbak og fullur bíll af krökkum fór á milli bæja.
Móðir mín vann sem húsmóðir lengst af en vann síðar utan heimilisins. Áhugamál mömmu voru fjölbreytt, allt frá því að læra ensku, vera á gönguskíðum með föður mínum, tónlist, fara í göngutúra, spila félagsvist, dansa, stunda leikfimi og mála á postulín. Eftir andlát föður okkar var hún ötul að heimsækja börn, barnabörn og vini. Ásamt því að fara í leikhús, ferðast með vinkonum heima og erlendis auk þess að taka þátt í félagsstarfi eldri borgara í Kópavogi.
Eftir fráfall föður okkar var mamma, þá 62 ára gömul, miðdepill okkar systkina, tengdabarna og barnabarna sem fjölgaði. Hún var dugleg að fylgjast með fréttum og lagði metnað sinn í að fylgjast með menntun barnabarna og langömmubarna sinna og áhugamála þeirra. Hún var einstök mamma, amma og langamma, hún var kærleiksrík, hlý og gjafmild á hrós og umhyggju fyrir fólkinu sínu. Hún var dugleg að hringja og láta í sér heyra, hvort sem voru börnin hennar, barnabörn, frændfólk eða vinir og vita hvernig gengi hjá öllum. Hún mundi afmælisdaga flestra fram á síðustu mánuði ævi sinnar. Barnabörnin voru dugleg að heimsækja hana og hringja, hvort sem þau voru nær eða fjær og sagði hún manni fréttir af þeim. Elsku mamma var lífsglöð og glæsileg alla tíð, einnig á síðasta afmælisdeginum sínum, þá 95 ára gömul, þar sem við fögnuðum með henni á Sléttuveginum. Þar dvaldi hún síðasta árið sitt með útsýni yfir á Kópavoginn og Kópavogskirkjuna þar sem við munum kveðja þessa stórglæsilegu og kærleiksríku konu sem umvafði ættingja og vini með brosi og hlýju.
Þín verður ávallt minnst með söknuði og gleði í hjarta. Ég elska þig mamma.
Megi gæfan þig geyma,
megi Guð þér færa sigurlag.
Megi sól lýsa þína leið,
megi ljós þitt skína sérhvern dag.
Og bænar bið ég þér,
að ávallt geymi
þig Guð í hendi sér.
(Þýð. Bjarni Stefán Konráðsson)
Þín dóttir,
Sigríður.
Það er með miklu þakklæti í huga sem ég kveð mömmu sem hefur náð hærri aldri en margur.
Margs er að minnast og margs er að sakna. Ég var svo heppin að hafa átt bestu foreldra í heimi, sem voru mínar stærstu fyrirmyndir í lífinu. Bernskuárin eru sveipuð ljóma og öryggi þar sem þú og pabbi voru mín stoð og stytta. Stuðningur við okkur systkinin var alveg einstakur og mikið áberandi var alveg einstök umhyggja og ræktarsemi við ættingja og vini. Mikið var um stóra vinahópa sem hafa alla tíð haldið einstaklega góðu sambandi við hvern annan. Útilegur, veiðiferðir, utanlandsferðir, stórveislur og partí var það sem var alltaf gaman að vera hluti af. Ferðir í Borgarfjörðin að heimsækja ættingja og vini voru einnig órjúfanlegur og ógleymanlegar hluti af minni æsku.
Þú varst ætíð jákvæð þrátt fyrir að lífið hafi ekki alltaf verið auðvelt þar sem þú upplifðir ýmis áföll, eins og ótímabær fráföll systra þinna og fráfall pabba sem fór alltof snemma frá okkur. Umhyggja fyrir börnum systkina þinna hefur einnig verið til fyrirmyndar og mikið samband hefur verið þar á milli.
Umburðarlyndi, jákvæðni, kærleikur, fjölskyldan og vinnusemi eru meðal þeirra gilda sem voru okkur systkinunum innrætt í okkar uppeldi. Þú lagðir mikla áherslu á að draga það besta fram hjá öllum og að setjast aldrei í dómarasætið. Þegar pabbi féll frá langt fyrir aldur fram þá hélstu áfram utan um fjölskylduna eins og ekkert væri. Ævinlega þegar ég kom í heimsókn fékk ég kveðjuna; þú fæddist eins og engill og ert eins og engill. Þessi kveðja hvatti mann ævinlega til dáða og að gera vel og var jafnvel fyrirgefið þegar í einni af stóru fermingarveislunum, þar sem veisluborðin svignuðu af kræsingum, að konfektinu var öllu hnuplað af kransakökunni.
Ég mun sakna þess að fá þig ekki í heimsókn á sólskinsdegi, þér þótti einstaklega notalegt að koma og njóta sólarinnar í garðinum með gott hvítvín í glasi eða púrtara. Ég mun sakna raddarinnar og hlátursins og bara að njóta stundarinnar með þér.
Það hafa verið forréttindi hjá strákunum mínum að eiga svona yndislega og umhyggjusama ömmu sem þrátt fyrir að eiga 52 afkomendur hefur alltaf munað eftir öllum afmælisdögum, útskriftum og öðrum atburðum og tekið þátt í þeirra lífi af einstökum áhuga.
Síðustu mánuðir voru erfiðir eftir að mamma lærbrotnaði illa og var bundin við hjólastól. Hún flutti á Hrafnistu við Sléttuveg fyrir ári síðan og var það umhverfi alveg einstakt.
Nú eruð þið pabbi sameinuð á ný og eigið eftir að hafa það gott í sumarlandinu. Minningin um þig mun lifa hjá okkur Ragga og strákunum. Ég kveð þig með þínum eigin orðum „þú fæddist eins og engill og ert eins og engill.“
Kveðja,
Mamma, elsku mamma,
man ég augun þín.
Í þeim las ég alla
elskuna til mín
(Sumarliði Halldórsson)
Elísabet (Bettý).
Ástkær tengdamóðir mín er látin eftir langa ævidaga, sem spannar tímabil mikilla breytinga.
Það er með miklu þakklæti og hlýju sem við fjölskyldan kveðjum Fanney, en hún hafði einstaklega hlýtt og gott viðmót, var jákvæð, kærleiksrík, heilsteypt og með einstakt lundarfar og ró. Alltaf var gott að koma á hennar heimili og allir alltaf innilega velkomnir og var þar oft gestkvæmt.
Fanney var ákaflega myndarleg húsmóðir og heimili þeirra Halldórs var fallegt og gott að koma þangað í heimsókn og aldrei var kíkt við án þess að gott bakkelsi væri borið fram. Fanney bakaði margar terturnar og hjálpaði margoft við undirbúning á veislum ef eitthvað stóð til, s.s. skírnarveislur, fermingar eða útskriftir og aldrei taldi hún eftir sér að hjálpa, þó nóg væri að gera á stóru heimili, þar sem var alltaf var hádegis- og kvöldmatur. Hjálpsemin var skilyrðislaus og svo mætti hún með gleði og bros á vör með pakka og fallega skrifað kort og alltaf var hún vel og fallega til fara og hárið þurfti að vera fínt.
Fanney var svo sannarlega góð fyrirmynd fyrir hópinn sinn stóra, hún gaf mikið af sér með jákvæðni, glaðlyndi, kærleika og góða skapinu og hún sá eitthvað gott í öllum og enginn mátti vera útundan. Hún hafði létta lund og oft var stutt í húmorinn og hláturinn og naut hún þess að gleðjast á góðum stundum með vinum og vandamönnum. Hún bar einstaka umhyggju fyrir öllum í sínum stóra hópi, var sönn ættmóðir, sem fylgdist vel með og vildi fá fréttir alveg fram á síðasta dag, minnið var gott og hún mundi eftir öllum afmælum og var gjarnan hringt á afmælisdögum og spurt hvort ekki væri kaffi, en hún vildi fá að fagna og samgleðjast. Vináttan, tryggðin, kærleikurinn og hlýjan var svo innilega frá hjartanu.
Fanney var einstaklega trygglynd, kærleiksrík og æðrulaus og sáði alltaf góðu og við heppin að hafa hana svona lengi í lífi okkar. Ef einhver var veikur var hún fyrst til að hringja og vitja um fólkið sitt og kom þá gjarnan færandi hendi með eitthvað til að gleðja. Hún var dugleg, sterk og ósérhlífin kona og vildi gera allt, sem hún gat sjálf án þess að fá hjálp, sem hún gerði með sínum dugnaði og seiglu, en mörg voru árin hennar án Halldórs heitins sem lést aðeins 59 ára. Hún hafði unun af að gera eitthvað skemmtilegt og grípa tækifæri sem gáfust til samfunda við sína samferðamenn og njóta stundarinnar. Hún hélt í tilhlökkun, gleði og þakklæti fyrir lífið og fólkið sitt og átti gott með að samgleðjast öðrum.
Borgarfjörðurinn var sveitin hennar, þar voru ræturnar og margar ferðir fórum við fjölskyldan í Reykholtsdalinn, þar sem kona mín var mörg sumur í sveit hjá ömmu sinni og afa, Helgu og Sigurjóni á Kópareykjum og þaðan eru hlýjar minningar.
Blessuð sé minning einstakrar konu og hjartans þakkir fyrir alla umhyggjuna og allt sem þú og Halldór gerðuð fyrir okkur Margréti og dætur okkar, Margréti Rós, Helgu Lilju, Elísabetu og Rebekku Rut og þeirra fjölskyldur, þakka einnig innilega fyrir samfylgdina, sem skilur eftir góðar minningar um yndislega konu.
Gunnar Magnússon.
Elsku amma. Það er svo skrítið að þú sért farin frá okkur. Það verður tómlegt að geta ekki heimsótt þig lengur. Þú varst alla tíð svo hlý og góð við mig. Það eru svo margar góðar minningar með þér. Mér þykir svo vænt um hvað við vorum orðnar miklar vinkonur í seinni tíð. Hvort sem það var að kíkja til þín í heimsókn í Boðaþing, borða saman og horfa á Gettu betur eða fara saman og fá okkur kaffi og köku eða súpu á kaffihúsi. Hún var samt alltaf huggulegust samveran heima hjá þér og að spjalla um daginn og veginn. Amma var með svo jákvæða sýn á lífið, sá það besta í öllum. Það var svo góður húmor í ömmu og stutt í hláturinn. Amma var svo dugleg að hrósa mér og öðrum. Hún var svo stolt af öllum afkomendum sínum. Þegar við kvöddumst var alltaf hlýtt faðmlag eða fingurkoss og smá blikk. Ég á eftir að sakna þín svo mikið, elsku amma mín. Takk fyrir allar góðu stundirnar og minningarnar með þér. Minningin um einstaka ömmu lifir,
Þín,
Halla.
Þá er komið að kveðjustund, mig langar að minnast Fanneyjar ömmu minnar með nokkrum orðum.
Fanney amma var engin venjuleg kona, hún var einstakur gullmoli, gimsteinninn okkar allra.
Amma var miðpunktur fjölskyldunnar, ættmóðirin sjálf og verndarengillinn okkar. Hún umvafði vængjum sínum og góðmennsku um allt fólkið sitt, svo ákaflega stolt og þakklát fyrir afkomendur sína – hvern einn og einasta og hafði oft orð á því hvað hún væri rík af fólkinu sínu.
Margar góðar minningar með ömmu koma upp í hugann. Stundirnar með ömmu í hjólhýsinu á Laugarvatni, hlátrasköllin í bíltúr með ömmu á bláa bílnum, þar sem „hvassa“ hraðahindrunin í Vallhólmanum er ógleymanleg og fleiri skemmtilegar stundir.
Amma hafði hlýja nærveru, í samveru með ömmu þá var ekkert annað að trufla, hún var til staðar og full af einlægum áhuga um fólkið sitt. Amma var dugleg að tala um góðar stundir og sagði oft „þetta var yndisleg stund,“ full af þakklæti og minntist oft á að það væri mikilvægt að njóta hverrar stundar. Amma hafði einstakt hugarfar, hún valdi að líta á það jákvæða og það var alltaf stutt í hláturinn.
Fanney amma var með einstaklega fallega rithönd, kortin með gjöfunum sem hún gaf voru dásamleg. Alltaf gaf amma sér tíma til að skrifa fallegan texta og eins jólakortin – það voru alltaf innihaldsríkar kveðjur og fallegar óskir. Kortin frá ömmu voru þannig að ég á mörg af þeim í kassa, það er ekki hægt að henda svona fallegum kortum – sem eru nú einstakar minningar um ljúfa og góða ömmu og langömmu.
Amma var glæsilegust allra, það skipti hana miklu máli að vera fín um hárið og vera með varalit. Henni leið best með fólkinu sínu og var allt fram á síðasta dag umhugað um alla.
Það er lýsandi þegar ég kvaddi ömmu í síðasta sinn, var að kyssa hana bless þá sagði hún „bless elskan mín, kysstu strákana þína frá mér, guð geymi þig,“ alltaf að skila kveðjum og kossum áfram og alltaf sendi hún svo fingurkossa með þegar maður var að labba frá henni, allt fram á síðasta dag.
Það er mikil sorg að hafa ekki ömmu lengur hjá okkur en við erum fyrst og fremst svo þakklát fyrir einstaka ömmu og langömmu.
Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar og til allra sem þekktu Fanneyju ömmu.
Að lokum vil ég segja takk, elsku amma mín fyrir allt, minning þín lifir áfram með okkur. Ég kveð þig eins og þú kvaddir mig þegar við kvöddumst síðast; blikk með öðru auga, fingurkossar og með þínum orðum: guð geymi þig elsku Fanney amma.
Karen Jónsdóttir.
Elsku amma.
Nú hefur þú yfirgefið þennan heim og söknuðurinn er mikill.
Amma var ekki bara alltaf glæsileg, heldur var hún einstaklega hjartahlý, lífsglöð, skemmtileg og góð fyrirmynd. Það var alltaf notalegt að koma til ömmu þar sem hún tók ávallt á móti okkur með ástríkum faðmi og gestrisni eins og henni einni var lagið. Það var alltaf gleði og hlátur þar sem amma var, hún gat séð spaugilegu hliðarnar á öllu og dró fram það besta í hverjum og einum. Hún hafði mikinn áhuga á öllu því sem við barnabörnin tókum okkur fyrir hendur og var hún einstök amma og langamma. Ég er þakklát fyrir allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman, hláturinn og gleðina sem hún gaf okkur. Það fylgir því sár söknuður að hugsa til þess að stundirnar verði ekki fleiri.
Elsku amma, þú átt stóran stað í hjarta mínu og minningin um þig mun lifa í hjörtum okkar þangað til við hittumst á ný.
Halldóra Jónsdóttir.
Það er ótrúlega dýrmætt að hafa fengið að ganga lífsins veg samferða þessari mögnuðu konu. Það geislaði af ömmu, birtan og hlýjan sem stafaði frá henni var engu lík. Glaðværð hennar, lífsgleði, hluttekning og alltumlykjandi kærleikur. Amma tók ávallt á móti manni skælbrosandi með útbreiddan faðminn, svo glöð og þakklát að hitta fólkið sitt og eiga með því stund. Hún var með einstaka nærveru og sérstaklega gaman var að spjalla við hana um lífið og tilveruna, ekki síst að hlusta á hana segja frá æskunni og lífshlaupinu. Amma kaus að horfa á það jákvæða hverju sinni, að minnast góðu stundanna en eyða ekki dýrmætri lífsorkunni og gleðinni í hitt. Þetta hefur verið mér mjög hugleikið síðustu dagana, hversu ótrúlegum styrk og seiglu amma var búin. Að komast í gegnum öll krefjandi verkefnin, sorgina og harminn sem lífið færði henni, þá fann hún styrk sinn fólginn í því að gleðjast hér og nú, taka það góða með sér og sjá það góða í öllum. Síðustu árin upplifði ég að amma talaði oftar um systur sínar og ótímabær andlát þeirra beggja. Hversu þungbært það hefði verið að missa þær og horfa upp á foreldra sína í sorginni. Amma flutti sem ung kona til Reykjavíkur til að hlúa að og hjúkra Margréti systur sinni í veikindum hennar. Tíu árum síðar lést hin systir ömmu, Sigríður, frá sjö ungum börnum. Kynslóð ömmu upplifði harm og missi sem við yngri kynslóðirnar getum vart ímyndað okkur. Afi og amma fengu sannarlega sinn skerf þar. Þetta hefur óneitanlega tekið á, ekki síst á tímum þar sem fólk bar harm sinn í hljóði og hélt ótrautt áfram lífsbaráttunni, það var einfaldlega ekkert annað í boði. Það er hughreystandi á þessari stundu að hugsa til þess að amma og afi séu loksins sameinuð á ný. Alvarleg veikindi afa og ótímabært fráfall hans markaði okkur öll. Amma var ljósið sem lýsti leiðina fyrir okkur hin, nú er það okkar afkomendanna að halda kyndli hennar áfram á lofti og minnast góðu stundanna, að bera ljós hennar og hlýju fram fyrir alla þá er við mætum á lífsleiðinni.
Er óendanlega þakklát fyrir allar stundirnar með ömmu, öll heilræði hennar og fallegu kortin sem hún skrifaði. Drengirnir mínir fengu að kynnast langömmu sinni og minnast hennar með hlýju og gleði. Það var svo dýrmætt að fá hana austur á Hornafjörð til okkar í skírn Ragnars Sveins og amma var jafnframt mikill styrkur í veikindum Héðins. Er sérstaklega þakklát fyrir að við fjölskyldan náðum að hitta ömmu í góðum gír á lokametrunum og fá tækifæri til að kveðja hana. Að fá að sitja hjá henni og halda í hönd hennar. Hittumst hinum megin með púrtvínslögg í glasi og dillandi, smitandi hláturinn hennar mun óma í bakgrunninum.
Kveðjuorð ömmu með fingurkossi eiga vel við: Guð geymi þig elsku hjartans amma mín.
Fanney Björg Sveinsdóttir.
Elsku yndislega og fallega Fanney amma er látin, 95 ára að aldri.
Það voru forréttindi að fá að eiga hana að svona lengi, en mikið sakna ég hennar strax.
Ömmu get ég best lýst sem góðhjörtuðum gleðigjafa sem umvafði okkur afkomendur sína með væntumþykju og vildi allt fyrir okkur gera. Við barnabörnin hennar erum 19 talsins og langömmubörnin orðin 26. Samt kom hún fram við hvert og eitt okkar eins og við værum það dýrmætasta sem hún átti, sem við eflaust vorum. Hún ljómaði þegar hún hitti okkur, faðmaði og spurði frétta af fjölskyldunni. Þegar einhver okkar gekk í gegnum erfiðleika eða veikindi lét hún biðja fyrir okkur og langt fram eftir aldri hringdi hún í afkomendur sína á hverjum einasta afmælisdegi þeirra.
Þegar ég var barn dekraði hún við okkur barnabörnin með ófáum pottum af grjónagraut og hinum ýmsu bíltúrum með þeim afa. Seinna voru svo pantaðar „pissur“ og leigðar vídeóspólur.
Ég held enn að amma hafi viljandi keyrt hratt yfir hraðahindranir til að láta okkur krakkana skoppa í aftursætinu og stundum reka kollinn upp í loft, við mikinn hlátur.
Ég mun aldrei gleyma síðustu samræðum okkar ömmu, aðeins viku áður en hún lést og síðasta skipti sem ég hitti hana vakandi. Þær lýsa henni svo vel:
Ertu komin elskan mín! Já ég ætla ekkert að trufla þig, ég veit þú þarft að hvíla þig. Ég ætla bara aðeins að fá að sitja hjá þér. Æj já það er svona þegar maður djammar of mikið.
Og svo hló hún að eigin fyndni og ég auðvitað með.
Elsku amma, takk fyrir allar góðu stundirnar okkar í gegnum árin, öll jólin sem við eyddum saman og allar kaffihúsaferðirnar okkar meðan þú hafðir enn heilsu. Það er engin eins og þú! Og eins og þú sagðir alltaf við mig þegar við kvöddumst: Guð geymi þig!
Rakel Sófusdóttir.
Elsku amma Fanney, við barna- og barnabarnabörnin unnum heldur betur í ömmulottóinu að hafa þig í lífi okkar. Ég var svo heppinn að búa hjá þér og Halldóri afa fyrstu árin í Vallhólmanum þar sem ég eignaðist mínar fyrstu bernskuminningar, og það sem ég man ekki passaðir þú alltaf upp á að segja mér frá, svo ég vissi hvað þér þótti vænt um þann tíma. Það var alltaf gaman að hlæja með þér að því þegar ég var lítið kríli að fela mig í Cheerios-skúffunni í eldhúsinu hjá þér, þó ég hefði heyrt söguna hundrað sinnum þá var það alltaf eins og að heyra hana í fyrsta sinn.
Ég á eftir að sakna þín og þess að drekka kaffi eða púrtvín með þér og hlusta á sögur um öll skemmtilegu ferðalögin sem þú fórst í, með Halldóri afa, skvísuferðir og fjölskylduferðir. Ég efast um að ég komi til með að kynnast meira partýljóni og félagsveru en þér, sem alltaf vildir spjalla um allt á milli himins og jarðar.
Þú varst svo smitandi jákvæð og lífsglöð og ég verð ævinlega þakklátur að læra það frá þér. Þrautseigari manneskju hef ég ekki kynnst og þú varst svo sannarlega stjarnan í sýningunni og sigurvegari í þessum leik sem við köllum lífið og endurspeglast það í þeim herskara af fólki sem þú lætur eftir þig og aragrúa af æðislegum minningum sem ég hlakka til að halda á lofti. Við erum öll betri fyrir það að hafa fengið að deila lífinu með þér.
Því miður get ég ekki komið í kaffi þegar þú ert búin að jafna þig eins og þú baðst mig um því nú ertu komin í sumarlandið. Ég hugga mig við það að nú hittir þú Halldór afa aftur og ég er viss um að þið stígið nokkur dansspor saman eftir langan tíma í sundur.
Sakna þín,
Viktor Alex.
Það eru margar fallegar og góðar minningar sem koma upp í hugann þegar við kveðjum ömmu Fanney. Hún var sannkallaður gleðigjafi. Það voru forréttindi að fá að leika sér í garðinum í Fögrubrekkunni og síðar í Vallhólmanum. Á sólríkum sumardögum lék amma við hvern sinn fingur og bar í okkur krakkana svaladrykki og kruðerí. Íspinnar fyrir þá sem voru stilltir. Framtíðin var ávallt björt hjá ömmu og hún vildi ekki dvelja í því liðna. Henni þótti líka einstaklega vænt um öll barna- og barnabörnin sín og veitti þeim mikla athygli. Aldrei missti hún úr afmælisdag og mikið sem manni þótti vænt um símtölin frá ömmu Fanney. Handskrifuðu jólakortin voru líka falleg, þar sem hún minnti gjarnan á kristin gildi og bjarta framtíð.
Ég var svo heppinn að vera fyrsta barnabarnið í fjölskyldu Halldórs og Fanneyjar. Margar skemmtilegar minningar koma upp í hugann, eins og þegar við fórum tvö í messu á gamlársdag í Bústaðarkirkju. Ferðirnar með afa og ömmu í Borgarfjörðinn og jólaboðin í Fögrubrekkunni eru líka minnisstæð. Ekki leið á löngu þar til barnabörnum fór fjölgandi og síðar langömmubörnum, en alls skilja Fanney og Halldór eftir sig 51 afkomanda. Glæsilegur hópur af vönduðu og duglegu fólki sem erfa hjartahlýju og jákvæðni ömmu.
Við kveðjum ömmu og langömmu með þakklæti og söknuði, blessuð sé minning hennar.
Halldór Kristmannsson og fjölskylda
Það er með miklum söknuði og þakklæti sem við systurnar setjumst niður og minnumst elsku hjartans Fanneyjar ömmu okkar. Það sem við erum þakklátar fyrir að hafa fengið svona mikinn tíma með ömmu og að hafa átt svona góða fyrirmynd að sterkri og hjartahlýrri konu með ótrúlegt jafnaðargeð, sem var alltaf í góðu skapi og ávallt vel til höfð og glæsileg. Brosin hennar og knúsin voru alltaf frá hjartanu og hún var með æðislegan hlátur sem hljómar nú í hjörtum okkar.
Það fyrirfinnst varla kona sem var jafn gestrisin og Fanney amma, alltaf var borið fallega á borð og hún gaf sér tíma til að setjast niður og spjalla, sama á hvaða aldri við vorum. Við mættum oftar en ekki eftir skóla til ömmu og afa í Fögrubrekkuna og seinna í Vallhólmann og alltaf var eitthvað gómsætt borið á borð, en í mestu uppáhaldi var grjónagrauturinn og ömmu grautur var bestur. Hún kenndi okkur að ganga aldrei frá á meðan gestir voru hjá manni og að gefa sér alltaf tíma til að spjalla og hlusta. Fanney amma elskaði að fá fólkið sitt í heimsókn og hamingjan skein úr andliti hennar þegar við mættum í heimsókn með langömmubörnin og hún vildi fá að heyra um allt sem þau voru að bralla. Amma fylgdist vel með öllum í fjölskyldunni og hringdi reglulega til að heyra í fólkinu sínu og alltaf var hún til staðar fyrir okkur, samgladdist innilega á gleðistundum og umvafði okkur með hlýju og samkennd á erfiðum stundum.
Fanney amma var mikil afmæliskona og mundi eftir afmælum allra í stórfjölskyldunni. Á hverjum afmælisdegi fengum við skemmtilega afmælissímtalið frá ömmu og gjöf með fallegu korti þegar veisla var haldin. Það sama átti við um jólin, alltaf fengum við fallega skrifað jólakort frá ömmu sem yljaði manni um hjartarætur og hún hélt stórglæsilegt boð á jóladag ár hvert fyrir fjölskylduna. Amma var líka mikið á ferðinni hér áður á Hondunni sinni og það var alltaf jafn fyndið að sitja í aftursætinu því amma gaf alltaf í þegar hún kom að hraðahindrunum og við skoppuðum upp í loft. Hún amma var nefnilega algjör húmoristi og gat flissað og hlegið að öllu milli himins og jarðar.
Elsku amma, þegar við heimsóttum þig um daginn til að kveðja þig og sögðum þér að við værum að fara til Spánar kom blik í augun þín og þú brostir hringinn og sagðir: „Við afi þinn elskuðum að dansa á Spáni.“ Nú eruð þið afi loks sameinuð á ný og dansið saman í sumarlandinu. Takk fyrir allt, elsku besta Fanney amma okkar, þú varst einstök.
Þínar dótturdætur,
Margrét Rós, Helga Lilja, Elísabet og Rebekka Rut.
Mér finnst ég varla heill né hálfur maður
og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef værir þú hjá mér vildi ég glaður
verða betri en ég er.
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það en samt ég verð að segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur með blómunum.
Er rökkvar ráðið stjörnumál.
Gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niður á strönd.
Fundið stað, sameinað beggja sál.
Horfið er nú sumarið og sólin,
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku léttu ís og myrkur jólin;
nú einn ég sit um vetrarkvöld.
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það en samt ég verð að segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
Ég gái út um gluggann minn
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar.
Ég reyndar sé þig alls staðar.
Þá napurt er, það næðir hér og nístir mig.
(Vilhjálmur Vilhjálmsson)
Ég trúi á ljós, sem lýsi mér,
á líf og kærleika,
á sigur þess, sem sannast er,
og sættir mannanna.
Á afl sem stendur ætíð vörð
um allt, sem fagurt er,
á Guð á himni, Guð á jörð
og Guð í sjálfum mér.
(Ólafur Gaukur)
Ég halla höfði mínu að hjarta Jesú þínu.
Þar sofna ég sætt og rótt.
Ég veit þín augun vaka og vara á mér taka.
Gef mér og öllum góða nótt.
(Friðrik Jónsson/ Guðjón Pálsson)
Elsku frænka. Móðir mín, Sigríður Sigurjónsdóttir systir þín, lést þegar ég var nýlega orðin tveggja ára, aðeins 34 ára gömul frá sjö ungum börnum. Ég hugsa að þú hafir oft verið með hugann hjá okkur systkinum, en þú hafðir sjálf um stóran barnahóp að hugsa. Elsku frænka, hjartans þakkir fyrir öll faðmlögin og alla hlýjuna alla tíð. Ég kveð þig með kærleik í hjarta, og ég geymi minningarnar hjá mér. Guð geymi þig elsku frænka. Þín frænka,
Guðrún Benediktsdóttir.
Við minnumst Fanneyjar frænku með miklum hlýhug. Við töluðum alltaf um Fanneyju frænku þó svo að Fanney væri í raun gift móðurbróður okkar og því í raun ekki frænka okkar. Það sem kemur upp þegar hugurinn er látinn reika aftur í tímann er einstök gestrisni þeirra hjóna, Halldórs og Fanneyjar. Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að koma í ógleymanleg boð í Fögrubrekkunni, hvort sem það var á jólum, í fermingar eða annað. Þar voru óteljandi gerðir af kökum og öðru fíneríi á boðstólum. Það var ekki leiðinlegt fyrir krakka að kíkja í búrið hjá Fanneyju, en þar voru allsnægtir af gosi og sætindum. Alltaf fengum við það sem við báðum um af þessum sætindum, jafnvel nesti heim og meira til. Fanney sýndi okkur systkinunum fölskvalausa umhyggju.
Fanney sýndi fólki áhuga, umhyggju og góðvild alla tíð. Það sýnir manngæsku Fanneyjar vel að hún var meðal annars sjálfboðaliði í búðum Rauða krossins á sjúkrahúsum. Fanney var mannvinur. Í minningunni voru þau hjón vinmörg og áttu einstaklega fallegt heimili. Einnig voru þau bæði einstaklega frændrækin og vildu halda sterkum fjölskylduböndum.
Á sínum tíma voru Halldór og Fanney einstaklega dugleg að ferðast saman bæði innan lands og utan. Meðal annars fékk Piero að fara með á Lýðveldishátíðina á Þingvöllum árið 1974 í tjaldvagninum, sem er ógleymanlegt í minningunni.
Fanney var lengi vel ern og við góða heilsu. Ekki er ólíklegt að góð lund og jákvæðni hafi átt þátt í langlífi Fanneyjar.
Við vottum allri fjölskyldunni samúð okkar og þökkum samfylgdina.
Tullia, Sveinn, Piero og Stefán Karl.
Stefán Karl Pétursson
Við hjónin kynntumst Fanneyju og Halldóri í Hlunnavoginum þegar við vorum ung, árin ´57 eða ´58, og stofnuðum hjónahóp sem samanstóð af sex hjónum sem bjuggu í tveimur húsum í Hlunnavoginum. Sú vinátta hefur haldið síðan þó hópurinn hafi þynnst mikið og fáir eftir. Það eru margar góðar og ómetanlegar minningar sem við eigum með hópnum. Við fórum saman í útilegur og utanlandsferðir.
Við hópurinn hittumst venjulega mánaðarlega, þar sem karlarnir spiluðu og konurnar saumuðu, einnig héldum við árshátíð einu sinni á ári með heitum mat og lifandi tónlist, við tókum vini okkar með á þessar skemmtanir en stilltum verðinu í hóf, eingöngu fyrir kostnaði. Þetta var einstök vinátta sem skapaðist í þessum góða hóp sex ungra hjóna sem bjuggu í Hlunnavoginum.
Vinátta okkar hjónanna við Fanneyju og Halldór var einstök og ómetanleg og erum við þakklát fyrir hana. Þau voru alltaf svo hlý og góð, eins og systkini okkar.
Fanneyju þökkum við fyrir öll árin og góðmennsku hennar og glaðværð. Við munum sakna þín, en vitum að hún er komin í sumarlandið með Halldóri sínum og það verða góðir endurfundir hjá ykkur.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Valdimar Briem)
Við fjölskyldan vottum ykkur börnunum og fjölskyldum okkar innilegustu samúð.
Ykkar vinir,
Sigríður og Sverrir.
hinsta kveðja
Hinsta kveðja til þín, elsku góða mamma mín.
Mamma, elsku mamma,
man ég augun þín.
Í þeim las ég alla,
elskuna til mín.
Mamma, elsku mamma,
man ég þína hönd.
Bar hún mig og benti,
björt á dýrðarlönd.
Mamma, elsku mamma,
man ég brosið þitt.
Gengu hlýir geislar,
gegnum hjarta mitt.
Mamma, elsku mamma,
mér í huga skín.
Bjarmi þinna bæna,
blessuð versin þín.
Mamma, elsku mamma,
man ég lengst og best.
Hjartað blíða, heita,
hjarta er ég sakna mest.
(Sumarliði Halldórsson)
Þín dóttir,
Margrét.