Íslandsbanki Stjórn og stjórnendur Íslandsbanka hafa setið á löngum fundum síðustu daga, stundum langt fram á nótt líkt og á þriðjudag. Nýr bankastjóri tekur nú við keflinu og mun taka ákvarðanir um frekari breytingar.
Íslandsbanki Stjórn og stjórnendur Íslandsbanka hafa setið á löngum fundum síðustu daga, stundum langt fram á nótt líkt og á þriðjudag. Nýr bankastjóri tekur nú við keflinu og mun taka ákvarðanir um frekari breytingar. — Morgunblaðið/Eggert
Stjórn Íslandsbanka kom saman til fundar síðdegis á þriðjdag, til að ræða um stöðu bankans og helstu stjórnenda hans í kjölfar umræðu og fréttaflutnings um sátt bankans við fjármálaeftirlit Seðlabankans sem birt var á mánudagsmorgun

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Stjórn Íslandsbanka kom saman til fundar síðdegis á þriðjdag, til að ræða um stöðu bankans og helstu stjórnenda hans í kjölfar umræðu og fréttaflutnings um sátt bankans við fjármálaeftirlit Seðlabankans sem birt var á mánudagsmorgun.

Ummæli stjórnmálamanna, þá sérstaklega forystumanna ríkisstjórnarinnar sem tjáðu sig um málið í sérstakri útsendingu Hringborðsins á visir.is á þriðjudagsmorgun, höfðu mikil áhrif á það hvernig dagurinn þróaðist. Þrátt fyrir að stjórn bankans hefði fyrir helgi tekið þá ákvörðun að styðja við stjórnendur bankans í kjölfar sáttarinnar við Seðlabankann var ljóst að hringurinn var að þrengjast. Um miðjan dag var rætt um það meðal stærri hluthafa bankans að mögulega þyrfti að halda stjórnarkjör á ný, líkt og fjallað var um í ViðskiptaMogganum sem kom út í gærmorgun. Stjórnin var því orðin fallvölt í sæti ekki síður en bankastjórinn.

Ákvörðun um miðja nótt

Niðurstaða fundarins, sem dróst fram á nótt, var sú að samkomulag náðist um að Birna Einarsdóttir myndi láta af störfum eftir nær 30 ára starf hjá bankanum, þar af 14 ár í starfi bankastjóra. Tilkynning þess efnis var send á Kauphöll rétt fyrir kl. 04 á miðvikudagsmorgun þar sem einnig kom fram að stjórn bankans hefði ráðið Jón Guðna Ómarsson, framkvæmdastjóra fjármála Íslandsbanka, í starf bankastjóra. Jón Guðni hefur starfað hjá Íslandsbanka og forverum hans frá árinu 2000. Stuttu síðar barst tilkynning til fjölmiðla frá Birnu þar sem fram kom að hún hefði ákveðið að stíga til hliðar „með hagsmuni bankans að leiðarljósi“ og axla þannig ábyrgð sína á því verklagi sem fyrrnefnd sátt byggist á.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var það mat lögfræðinga bankans að tilkynningin um starfslok bankastjórans gæti ekki beðið þar sem niðurstaðan lá fyrir.

Áfram rætt um stjórnarkjör

Ekki liggur fyrir hvort stjórnarkjör fari fram á komandi hluthafafundi bankans. Telja má þó líklegt að stjórn og fulltrúar stærri hluthafa nái samkomulagi um að stjórnarkjör endurnýi umboð sitt á fundinum. Eins og staðan er núna telur stjórn bankans óheppilegt að hún skili sjálf því umboði sem hún hefur, til þess sé bankinn í of viðkvæmri stöðu.

Aftur á móti er ljóst að staða Ara Daníelssonar er viðkvæm eftir að fjallað var um fjárfestingu hans, í útboðinu sem fram fór í fyrra, í fyrrnefndri sátt. Á hinn bóginn þykir Ari hafa komið með styrkleika inn í stjórnina, enda með mikla reynslu af bankarekstri, og er það alkunna á meðal hluthafa. Málið þykir því snúið.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður á næstu dögum rætt nánar um það hvort stjórnarkjör fari fram á hluthafafundinum.

Verkefni nýs bankastjóra

Ekki liggur fyrir hvort gerðar verði frekari breytingar á stjórnendateymi bankans. Það er í höndum nýs bankastjóra að taka ákvarðanir um það hvernig framkvæmdastjórn bankans er skipuð en eftir því sem Morgunblaðið kemst næst má vænta frekari breytinga á framkvæmdastjórn og öðrum störfum innan bankans.

Samruni við Kviku

Íslandsbanki og Kvika hafa sem kunnugt er átt í samrunaviðræðum frá því í febrúar. Þær viðræður voru langt komnar og í raun lítið sem stendur út af. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins má ætla að Jón Guðni Ómarsson, nýr bankastjóri Íslandsbanka, muni fylgja þeim viðræðum fast eftir. Þá mun einnig vera áhugi á því innan stjórnar bankans að klára viðræðurnar en þó ekki fyrr en hluthafafundur hefur farið fram í bankanum á næstu vikum.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson