Óspennandi „Myndin er falleg en söguþráður og persónur eru óspennandi,“ segir um Asteroid City.
Óspennandi „Myndin er falleg en söguþráður og persónur eru óspennandi,“ segir um Asteroid City.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugarásbíó, Háskólabíó, Bíó Paradís og Sambíóin Akureyri Asteroid City / Smástirniborg ★★★·· Leikstjórn: Wes Anderson. Handrit: Wes Anderson og Roman Coppola. Aðalleikarar: Jason Schwartzman, Scarlett Johansson, Bryan Cranston, Edward Norton, Jake Ryan og Grace Edwards. Bandaríkin, 2023. 95 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Jafnvel sumir af hörðustu aðdáendum Wes Andersons urðu fyrir vonbrigðum með síðustu kvikmynd hans, The French Dispatch frá 2021. Í dómi undirritaðrar hér á þessum vettvangi um The French Dispatch var bent á að Wes Anderson legði meiri vinnu í útlit myndarinnar en söguþráðinn, sem var óþarflega flókinn og persónusköpunin lítil sem engin. Anderson hefur ekki breytt frásagnartækninni fyrir nýjustu myndina sína, Smástirniborg, og fellur því í sömu gildru; myndin er falleg en söguþráður og persónur eru óspennandi.

Það fer enginn í bíó á kvikmynd eftir Wes Anderson og býst við melódramatískri mynd með klassískri söguframvindu. Áhorfendur fara í bíó með þær væntingar að sjá yfirdrifna myndheild og áhugaverðar persónur, eins konar dúkkuhússdrama. Í fyrri myndum hans, eins og The Royal Tenenbaums (2001) og The Grand Budapest Hotel (2014), eru söguþráður og persónur ekki síður áhugaverðar en leikmynd og listrænt útlit myndarinnar. Anderson hefur tapað þeim kvenlega eiginlega að geta gert tvennt í einu í bæði The French Dispatch og Smástirniborg.

Smástirniborg er öll tekin upp á filmu og Anderson leikur sér bæði með hlutfallsstærð kvikmyndarinnar og skiptist á að sýna hana í lit og svarthvítu. Kvikmyndin byrjar á ferkantaðri, svarthvítri sjónvarpsútsendingu frá 1955 þar sem þáttastjórnandinn (Bryan Cranston) býður áhorfendum að skyggnast á bak við tjöldin í leikriti sem ber sama heiti og myndin, Smástirniborg. Eftir að hafa kynnt höfundinn, Conrad Earp (Ed Norton), og aðalleikarana tekur við litrík mynd í skífulaga breiðtjaldshlutfallinu 2.39:1. Áhorfendur eru fluttir með vöruflutningalest til Smástirniborgar, 87 manna eyðimerkurbæjar í suðvesturhluta Bandaríkjanna sem samanstendur af kaffihúsi, bensínstöð, móteli, stjörnustöð og loftsteinagíg.

Leikmyndin er óraunveruleg og vönduð en innantómt konfekt. Björt, appelsínugul eyðimörk er auðvitað umkringd skærappelsínugulum bergmyndum og himinninn, veggirnir og buxur persónanna eru allar í sama ljósbláa litnum. Hverjum ramma myndarinnar má líkja við listaverk en stíliseraðri myndheild er erfitt að finna í nútímakvikmyndum. Anderson leyfir sér ítrekað að leggja alfarið áherslu á útlit mynda sinna, eins og fram hefur komið, sem líkist oft leikmynd í leikhúsi þar sem engin áhersla er lögð á raunsæi. Allt þetta er fangað af kvikmyndatökumanninum Robert Yeoman á myndavélum sem sveiflast til hliðar og stundum upp, en hann hefur tekið upp allar myndir Andersons sem eru í fullri lengd.

Leikriti Earps má skipta í þrjá þætti, en Anderson tekur lausari, ljóðrænni nálgun á frásögnina og hugsar lítið um óskir persónanna eða hina klassísku hetjuferð.

Smástirniborgin hýsir „Ráðstefnu fyrir yngri stjörnuskoðara og geimkadetta“ (e. Junior Stargazers and Space Cadets Convention), þar sem framhaldsskólanemum er boðið að sýna uppfinningar sínar. Einn þeirra er Woodrow Steenbeck (Jake Ryan), en faðir hans, Augie (Jason Schwartzman) kemst næst því að vera aðalpersóna myndarinnar. Augie, eins og allar persónurnar sem við hittum í Smástirniborginni, er hlutverk í hlutverki. Augie er pípureykjandi stríðsljósmyndari sem ber ösku eiginkonu sinnar í Tupperware, en hefur ekki enn sagt Woodrow og systrum hans frá andláti móður þeirra þrem vikum síðar. Midge Campbell (Scarlett Johansson), þunglynd kvikmyndastjarna, grípur athygli hans en hún er einnig þarna með ofurgreindu dóttur sinni, Dinah (Grace Edwards).

Stærstu hvörfin í kvikmyndinni eiga sér stað þegar allir krakkarnir og foreldrar þeirra eru að skoða „stjörnufræðilegan sporbaug“ í gegnum pappakassa. Grænn ljómi gleypir rýmið og allir fjarlægja kassann sinn og horfa á þegar grönn geimvera stígur niður úr geimskipi og hrifsar smástirni bæjarins. Augie tekur ljósmynd sem geimveran pósar auðvitað fyrir.

Senurnar eru meira eins og einstakir sketsar en hlutar í áframhaldandi sögu. Á meðan eru stórir atburðir, eins og kjarnorkusprengjutilraun, kynntir og síðan hunsaðir. Samskipti skrýtnu persónanna eru háttvís og eintóna. Leikarinn Rupert Friend skarar fram úr í smákomu (e. cameo) sem syngjandi kúreki, Steve Carell sem framkvæmdastjóri mótelsins og Tilda Swinton sem metnaðarfullur vísindamaður. Aðrar stórstjörnur koma fram, eins og Willem Dafoe, Jeff Goldblum og Margot Robbie, en skjátími þeirra er takmarkaður. Anderson er þekktur fyrir að vinna oft með sama teyminu og sömu leikurum en nokkra nýliða er að finna í Smástirniborg, þar á meðal Margot Robbie, Maya Hawke og Tom Hanks.

Eitt af þemum Smástirniborgar er að hún er ekki bara kvikmynd. Svarthvítur forleikur Bryans Cranstons upplýsir áhorfendur um að það sem þeir eru að fara að sjá er Broadway-leikrit en í rauninni er um að ræða langan sjónvarpsþátt um gerð leikritsins. Rétt þegar rómantíkin er farin að blómstra á milli ljósmyndarans og kvikmyndastjörnunnar eru áhorfendur dregnir óviljugir aftur yfir í svarthvíta heiminn til að minna okkar á að þetta er ekki kvikmynd! Áhorfendur eru þá m.a. upplýstir um það að leikstjórinn (Adrien Brody) býr í leikhúsinu vegna þess að hann hefur skilið við eiginkonu sína, Hong Chau, og að Jeff Goldblum sé sá sem leikur geimveruna. Á engum tímapunkti leyfir Wes Anderson áhorfendum að dvelja í ákveðinni frásögn, sem verður þreytandi. Áhorfendur reyna að láta sér nægja yfirdrifna og litríka leikmyndina, en þau sem þekkja fyrri myndir Wes Andersons vita að hann er fær um að gera kvikmyndir þar sem leikmyndin er ekki aðeins skraut heldur þjónar persónum og söguþræði. Tilheyra þær myndir nú sögunni eða mega áhorfendur búast við meistaraverki frá Wes Anderson síðar?