„Það hefur verið mikið beðið um það að láta röðina ganga aðeins hraðar og við erum að reyna að bregðast við því,“ segir Baldur Ingi Halldórsson, einn eigenda Bæjarins beztu.
Síðustu daga hefur auka-afgreiðslutjald verið sett upp við hliðina á skúrnum þekkta í Tryggvagötunni. Baldur segir að tjaldið sé alla jafna notað í veisluþjónustu á vegum fyrirtækisins en nýtist vel á annatímum í miðbænum á sumrin. „Við gerum þetta rétt yfir hápunkt dagsins, kannski í 3-4 tíma. Tjaldið fer upp á morgnana og niður á kvöldin.“
Hann segir að pylsurnar bragðist jafn vel í tjaldinu og í skúrnum. „En túristarnir vilja sumir bara fara í skúrinn og því fer röðin stundum úr böndunum þó við séum með skúrinn líka. Um helgina var svo röð á báðum stöðum.“ hdm@mbl.is