Kjarasamningar Félagsmálaráðherra segir hugsanlegt að hann leggi fram frumvarp um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara næsta haust.
Kjarasamningar Félagsmálaráðherra segir hugsanlegt að hann leggi fram frumvarp um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara næsta haust. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður María Ragnhildardóttir hmr@mbl.is Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hyggst mögulega leggja fram frumvarp um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara næsta haust, verði það niðurstaða starfshóps að slíkt sé nauðsynlegt.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hyggst mögulega leggja fram frumvarp um auknar valdheimildir ríkissáttasemjara næsta haust, verði það niðurstaða starfshóps að slíkt sé nauðsynlegt.

Ráðherrann segir mjög mikla andstöðu verkalýðshreyfingarinnar gegn frumvarpinu ástæðuna fyrir því að það var ekki lagt fram í vor.

Þá hafi hingað til tekist að leysa allar kjaradeilur, meira að segja deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

„Ríkissáttasemjari er gríðarlega mikilvægur málamiðlari. Við erum að sjá núna að bæði verkföll sem hafa verið í kjaraviðræðum á þessu ári og fleiri deilur milli aðila vinnumarkaðarins hafa verið að leysast. Það hefur vissulega komið til verkfalla en það hefur tekist að leysa þetta í núverandi lagaumhverfi,“ segir Guðmundur Ingi.

„Í algjörri andstöðu við verkalýðshreyfinguna“

„Ástæðan fyrir því að ég legg ekki fram frumvarpið er að ég vildi ekki gera það í algjörri andstöðu við verkalýðshreyfinguna án þess að það hefði farið fram samtal við þau. Ég brást bara við þeirri gagnrýni og lagði frumvarpið ekki fram að þessu sinni og það virðist að minnsta kosti ekki enn þá hafa valdið því að hér hafi verið í óefni komið. Ríkissáttasemjara hefur tekist að greiða úr þeim málum, ásamt auðvitað samningsaðilum, núna á undanförnum vikum og mánuðum. Meira að segja í deilu Eflingar og SA.“

Guðmundur Ingi kveðst vilja vanda vinnubrögð og því hafi hann ákveðið að leggja ekki frumvarpið fram án þess að samráð hafi farið fram við aðila vinnumarkaðarins.

„[H]eldur að koma þá á starfshópi með aðilum vinnumarkaðarins og frá ríkinu líka, til þess að leggjast yfir þessi mál. Með hvaða hætti má styrkja valdheimildir ríkissáttasemjara, í hvaða tilfellum er það nauðsynlegt og í hvaða tilfellum er það ekki nauðsynlegt.“

Hann segir vinnu starfshópsins vera að hefjast og ætlast hann til þess að hópurinn vinni hratt og vel. Verði það svo niðurstaðan að nauðsynlegt sé að styrkja þessar valdheimildir, þá muni hann leggja fram frumvarpið í haust.

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir