Ólafur Sveinsson (Ólafur Þorgils Blómkvist Sveinsson, Óli) viðskiptafræðingur fæddist í Reykjavík 5. september 1953. Hann varð bráðkvaddur á ferðalagi 17. júní 2023.

Hann var sonur hjónanna Sveins B. Ólafssonar, f. 13. júlí 1926, og Önnu Þorgilsdóttur, f. 14. mars 1928, d. 25. júlí 2008.

Systir Ólafs er Kristlaug Sigríður Sveinsdóttir, f. 5. maí 1958, gift Guðmundi Hannessyni, f. 22. september 1960, og eiga þau þrjú börn.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Björg Guðmundsdóttir, f. 31. janúar 1956. Dætur þeirra eru: 1) Anna Kristín, f. 2. júlí 1978, gift Þresti Gestssyni, f. 4. júlí 1976. Synir þeirra eru Alexander Ottó, f. 19. ágúst 1996, Victor Orri, f. 31. október 2004, og Sveinn Logi, f. 16. febrúar 2009. 2) María, f. 31. mars 1986, gift Davíð Atla Gregssyni Milo, f. 16. apríl 1987. Börn þeirra eru Adríana Kristín, f. 6. maí 2015, og Aron Breki, f. 1. nóvember 2018.

Ólafur útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík og fór í framhaldi í viðskiptafræði í Háskóla Íslands. Að námi loknu hóf hann störf hjá Eimskipafélagi Íslands og lá leið hans síðan í Iðnþróunarsjóð, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og að lokum Íslandsbanka, þar sem hann vann seinustu 27 ár starfsævi sinnar.

Bílar og ferðalög voru stór partur af hans lífi, þar sem náttúran og hennar perlur komu mikið við sögu og myndavél var alltaf höfð um hönd. Hann kvaddi þennan heim við náttúruperlu landsins.

Útför hans fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 29. júní 2023, klukkan 15.

Elsku besti pabbi minn. Ég er ekki ennþá að trúa því að þú sért farinn frá okkur, svona snögglega, alltof snemma. Þú sem ætlaðir sko heldur betur að fara að njóta lífsins með mömmu núna eftir að þið voruð bæði hætt að vinna. Allar útilegurnar og ferðalögin sem voru fram undan hjá ykkur og þú varst svo spenntur að fara að ferðast um landið á flotta hjólhýsinu ykkar, sem þið voruð svo stolt af. Ég reyni að hugga mig við það, að þegar þú fórst frá okkur, þá varstu glaður og hamingjusamur með mömmu og vinum þínum í þínu uppáhalds umhverfi, í íslensku náttúrunni að gera það sem þér þótti skemmtilegast, að taka myndir. Ég veit ekki hvað ég geri núna þegar þú ert ekki lengur hér. Þú sem varst alltaf til staðar fyrir mig og hjálpaðir mér með allt, alla skólagönguna og andvökunæturnar, prenta út heilu staflana af blöðum og svo sátum við stundum heilu kvöldin að klippa myndbönd saman. Við vorum bæði svo miklir nátthrafnar, að ég gat alltaf treyst því að þú værir vakandi eftir miðnætti og þá varstu undantekningarlaust sitjandi við tölvuna með heyrnartólin að hlusta á tónlist og vinna í myndunum þínum. Þú varst alæta á tónlist og ég er svo þakklát fyrir það að við gátum farið saman á marga tónleika, bæði hérlendis og erlendis.

Þú varst líka svo mikill bílakall, vissir allt um alla bíla og hugsaðir svo vel um bílana þína. Ég veit ekki um neinn, sem lærði þýsku með því að lesa þýsk bílablöð, nema bara þig. Þú varst svo ljúfur pabbi og breyttir aldrei skapi, rólegur og yfirvegaður en samt alveg sjúklega stríðinn. Þér fannst svo gaman að stríða og það var alltaf gaman í kringum þig, enda varstu með svo skemmtilegan húmor. Ef við vorum þau einu sem hlógum eins og vitleysingar, þá sagðirðu alltaf að við værum með svo góðan húmor, sem ég er auðvitað alveg sammála. Þegar okkur þótti eitthvað rosalega fyndið, þá grétum við úr hlátri, svo mikið að gleðitárin streymdu niður hjá okkur og við vorum rennblaut í framan og svo hlógum við enn meira þegar við horfðum á hvort annað í gegnum tárvot augun. Ég vildi óska þess að tárin sem streyma niður núna væru þessi gleðitár okkar.

Mér fannst það alltaf svo krúttlegt, að þegar ég kom seint heim um miðjar nætur, þá vaktirðu alltaf eftir mér. Þó að þú hafir aldrei viljað viðurkenna það, en alltaf eftir að ég kom heim, þá fórstu upp í rúm. Það skipti heldur ekki máli hvort ég væri 18 ára eða 30 ára, þá vaktirðu alltaf eftir litlu stelpunni þinni. Ég veit að þú munt halda áfram að vaka yfir mér og okkur öllum.

Adríana og Aron sakna afa Óla mjög mikið og höfum við verið að reyna að útskýra fyrir þeim hvar þú sért núna og að þú sért í hjörtum okkar og passir upp á okkur. Þau eru búin að vera dugleg að tína lítil blóm úti og setja þau við hliðina á myndinni af þér og segja að þetta séu blóm fyrir afa Óla. Ég mun sjá til þess að þau muni alltaf eftir besta afa Óla. Takk fyrir að vera svona góður afi, eiginmaður og pabbi, ég hefði ekki getað fengið betri pabba.

Ég sakna þín meira en orð geta tjáð, elsku pabbi minn. Sofðu rótt.

Þín dóttir,

María.

Elsku Óli, það er erfitt að horfa á eftir þér þar sem ég sá fyrir mér að við ættum skemmtilegan tíma saman næstu árin. Minningin um þig lifir hins vegar djúpt í hjarta mínu en missirinn er mikill.

Ég veit að mamma tekur vel á móti þér og ég sé fyrir mér að þið, ásamt Unu, séuð að bralla eitthvað saman og hafa gaman.

Við vorum bara tvö systkinin og það var einhver taug á milli okkar sem er ólýsanleg. Mér þótti alltaf svo vænt um þig og ég fann svo vel gagnkvæma væntumþykju. Vorum með sama húmorinn og það þurfti oft lítið að segja til að hinn aðilinn væri alveg á sömu blaðsíðunni og mikið var gott að hlæja saman. Stundum hlógum við bara tvö í stórum hóp og höfðum gaman af, sama hvaða vitleysa það var. Þessi tenging var ómetanleg.

Ég var heppinn að eiga þig sem bróður og það var gaman að alast upp saman. Það var stundum erfitt að taka við stríðninni hjá þér en þú bættir það upp með væntumþykju og hjálpsemi. Ég man hvað þú varst duglegur að hjálpa mér með Volkswagen-bílinn sem ég keypti af þér. Dunduðum í bílskúrnum tímunum saman á Háteigsveginum að ryðverja, pússa, lakka og gera við bílinn.

Ég man vel hversu stolt og ánægð ég var þegar þú varst nýbúinn að fá bílpróf og tókst litlu systur með á rúntinn. Það voru ófáir bíltúrarnir og stundirnar sem við áttum þá saman. Þú varst mér alltaf innan handar bæði þegar við vorum í foreldrahúsum og síðan á fullorðinsárum en þá varstu alltaf tilbúinn að hjálpa til og bjóða fram þína krafta sem var ómetanlegt. Einnig vildir þú alltaf hafa alla góða og varst oft límið sem þurfti.

Sveitin okkar í Fróðárhreppi hefur verið okkur mjög kær, þar áttum við yndislegar stundir og forréttindi að fá að vera þar í sælunni. Fyrst hjá ömmu og afa, síðan hjá bræðrum hennar mömmu og síðan í sumarbústaðnum.

Allar minningarnar streyma nú upp sem ljúft er að minnast, minningarnar sem við áttum með mökum okkar erlendis, stundirnar á Þorgilsstöðum, laufabrauðsgerðin fyrir jólin og ýmsar aðrar stundir. Allar þessar minningar eru yndislegar, ljúft að minnast og að eiga í hjarta mínu.

Þessi ólýsanlega taug sem hefur verið á milli okkar frá barnæsku helst áfram en verður nú í formi góðra minninga.

Elsku Björg, Anna Kristín, María, makar ykkar og afkomendur, megi ljúfar minningar hjálpa ykkur í gegnum þennan erfiða tíma.

Og elsku pabbi megi guð og góðar minningar um yndislegan son hjálpa þér í gegnum þessa erfiðu tíma.

Þín systir, Sirrý.

Kristlaug S. Sveinsdóttir

Okkur langar til að minnast Ólafs Sveinssonar, Óla, með nokkrum orðum. Við kynntumst Óla þegar hann var að kynnast henni Boggu sinni, en Bogga og Sirrý eru hálfsystur en samband á milli þeirra hefur alltaf verið gott og náið. Það var strax þegar við kynntumst Óla að við sáum að þar fór drengur góður. Hann og ég vorum þar af leiðandi svilar og áttum við mjög skemmtilegar samverustundir, bæði heima hjá okkur, Óla og Boggu í Reykholti eða bara alls staðar þar sem við hittumst.

Óli var mikið fyrir að taka myndir og það var hans yndi eftir að hann hætti að vinna, hann elskaði að taka myndir, gera þær fínar og svo raðaði hann þeim upp á vissan hátt og varðveitti hann þær svo í tölvunni.

Við vorum saman á Spáni síðasta haust í tíu daga og voru dagarnir hver öðrum skemmtilegri. Hann og Bogga komu til okkar í íbúð sem við höfðum leigt í þrjár vikur og áttum við þar ógleymanlegar stundir. Við löbbuðum mjög mikið og keyrðum líka á marga staði til að skoða og virða fyrir okkur. Stundum héldum við að við værum búin að týna Óla en hann átti það til að gleyma sér við myndatökur en hann kom alltaf í leitirnar án þess að við þyrftum að leita. Myndir hans voru alls konar, af fuglum, skriðdýrum, bílum og líka af mannfólki. Hann var með alveg einstakt lag á að fanga fegurðina í umhverfinu.

Óli var mikill snyrtipinni, hann elskaði að þrífa bílana sína og gerði það með mikilli natni. Hann var svona þrisvar sinnum lengur en ég að þrífa bílinn, samt þykist ég þrífa nokkuð vel. Ég man að hann hafði einu sinni á orði þegar við vorum öll í Reykholti hvort við ættum ekki að fara út og skola af bílunum, það væri svo gott veður til þess. Ég sagði honum að fara út og byrja og ég kæmi svo eftir tvo tíma, þá myndum við klára á sama tíma.

Óli var alveg einstakur maður, ávallt brosandi og í góðu skapi. Öll þau ár sem við höfum þekkst heyrðum við hann aldrei skipta skapi. Hann átti það til að vera dálítið stríðinn (vægt til orða tekið) og var alveg frábært að fylgjast með þeim hjónum þegar hann var í þannig ham, sérstaklega þegar Bogga var aðalviðfangsefnið.

Núna síðustu árin eftir að Óli hætti að vinna þá var hann annaðhvort að vinna í myndunum sínum, snyrta garðinn, þrífa bílinn eða hugsa um barnabörnin sem voru hans augasteinar. En það verður erfitt fyrir þau að afi skuli vera farinn til sumarlandsins og komi ekki aftur til að leika við þau eða skutla þeim eitthvað sem þarf að komast. Þau Bogga voru búin að fá sér hjólhýsi og voru að ferðast um landið, og sennilega að taka nokkrar myndir í leiðinni, þegar kallið kom. Ég veit að það er bara fegurð sem Óli festi á minniskubbinn í þeim ferðalögum sem þau voru búin að fara í.

Við viljum að endingu þakka Ólafi Sveinssyni fyrir einstaklega góð kynni og góða vináttu. Í okkar huga var Ólafur Sveinsson gull af manni. Hans er sárt saknað.

Elsku Bogga, Anna Kristín, María, tengdasynir og barnabörn. Við sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum þann sem öllu ræður að styrkja ykkur í þessari miklu sorg sem þið nú eruð að upplifa.

Karl H. Gunnlaugsson, Sirrý Þorsteins. og fjölskylda.

Það er gott að búa á Álftanesi, þar er friðsælt og víðsýnt, í raun sveit í borg. Þangað fluttum við úr stressinu í bænum fyrir 16 árum og kynntumst Óla og Björgu sem bjuggu hinum megin við götuna og við kölluðum þau alltaf „á móti“. Það tók nokkur ár, þó ekki mörg, að kynnast betur. Fyrst kunningsskapur, síðan vinskapur og seinna urðum við og erum perluvinir þar sem traust, heiðarleiki og hjálpsemi ráða ríkjum. Ekki nema von enda gæðablóð bæði. Óli var vandaður maður, hægur og traustur, talaði aldrei illa um neinn, var glettinn, stundum bráðfyndinn og alltaf að. Við munum þegar hann hætti að vinna í fastri vinnu fyrir nokkrum árum, hlakkaði hann til og kveið ekki iðjuleysi, enda reyndist það rétt. Hann dundaði sér við að gera bílskúrinn eins og skurðstofu og pallurinn er sá best smíðaði norðan Alpafjalla. Smám saman mynduðum við fern nágrannahjón hópinn „Götugengið“ sem hefur haldið mikið saman. Við höfum farið í útilegur, á tónleika, í kaffi og matarboð heima. Þar hafa sami innilegi vinskapurinn og traustið verið til staðar. Í Covid-veirufárinu hittumst við oft í samkomubanninu, héldum svona „míní“-samkomu úti við á einhverju bílskúrsplaninu eða pallinum með kaffi og með „rúmlega“ tvo metra á milli (fyrirgerðu Þórólfur), það er ógleymanlegt og hjálpaði okkur öllum að fara í gegnum þann skafl.

Óli og Björg elskuðu að fara saman í útilegur á hjólhýsinu og við í Götugenginu stundum með. Þau hafa notið náttúrunnar, samveru með vinum og Óli tekið myndir enda frábær ljósmyndari.

Það er fallegt í Hljóðaklettum, einni af perlum Íslands. Veðrið gat ekki verið betra á þjóðhátíðardaginn. Í gönguferð, myndavélin með í kyrrðinni fjarri öllum, með Hreini vini okkar og nágranna sem göngufélaga, gaf veikur hlekkur í lífsklukku Óla sig. Hreinn gerði hetjulega tilraun til að kveikja á lífsklukkunni þar til bráðaliðar komust á staðinn. Það varð ekki aftur snúið og Óli er farinn. Hann fer á góðan stað ef ég þekki hliðvörðinn rétt.

Tími okkar allra kemur einhvern tímann og eitt er víst; það hefði sennilega ekki annars staðar verið betra að fá að leggja af stað yfir móðuna miklu en á fallegum stað í góðu veðri.

Innilegar samúðarkveðjur til elsku Bjargar okkar, dætra og fjölskyldu. Við söknum innilega góðs vinar. Götugengið lifi!

Guðmundur Björnsson og Helga Ólafsdóttir.

Vinur minn Ólafur Sveinsson er dáinn. Þessa frétt fengum við á þjóðhátíðardaginn. Þetta er sárt en huggun harmi gegn að hann dó við að gera það sem honum fannst skemmtilegast, að ferðast með Björgu sinni með hjólhýsið og myndavélina á einum fallegasta stað landsins.

Kynni mín af Óla hófust fyrir um 40 árum þegar við vorum að kaupa okkar fyrstu íbúð í sama húsi í Lyngmóunum í Garðabæ. Góð vinátta myndaðist fljótt sem staðið hefur óslitið síðan og aldrei borið skugga á.

Við höfum gert margt skemmtilegt saman á þessum árum bæði hérlendis og erlendis. Eitt sinn, skömmu eftir að við Björg vorum flutt í Neskaupstað og þau Óli og Björg komu til okkar, fengum við vinirnir þá snilldarhugmynd að fara upp í Drangaskarð. Það var yfir 20 stiga hiti og glampandi sól er við lögðum af stað, léttklæddir á strigaskóm. Ferðin gekk vel til að byrja með en ansi fannst okkur þetta mun lengra og brattara en við hugðum og síðustu brekkurnar tóku verulega í. En upp komumst við og þótti okkur útsýnið frábært og merkilegt að geta horft bæði ofan í Norðfjörð og Mjóafjörð af sama punktinum. Óli sagði mér síðar að þegar vinnufélagarnir voru að hrósa sér af sínum fjallgöngum, þá hafi hann sagt “en hafið þið komið í Drangaskarð?” og menn hváðu. Þá hafi hann sagt hróðugur “nei ekki það”.

Minnisstæðar eru ferðir til Tyrklands, Tenerife og Kanarí, en þá fórum við vinirnir í ógleymanlega ferð til Gambíu, það var mjög framandi og yljuðum við okkur oft við þær minningar. Óli var mikill snillingur með myndavélina og hafði ótrúlega næmt auga fyrir fallegu myndefni. Síðast í vetur kom hann til mín og kom sér fyrir í kulda og trekk á svölunum með þrífót og myndavél til að ná góðum myndum af fuglum sem ég var búinn að hæna að með fóðurgjöfum.

Ég hef verið haldinn veiðidellu frá unga aldri og reyndi að smita vin minn af henni. Í síðustu tilrauninni bauð ég honum í fallega á og nú skyldi veiða lax. Við komum að ánni um sjöleytið um morguninn. Eftir þokusúld um nóttina var hann búinn að rífa af sér, sólin komin upp og blankalogn, kjöraðstæður. Við komum að fallegum hyl þar sem ég taldi góða veiðivon. Ekki vorum við búnir að vera lengi við árbakkann þegar ég sé að Óli var horfinn. Fór ég að skima eftir honum og sá hann eitthvað að bjástra undir kletti skammt frá. Eftir dágóða stund kom hann með myndavélina og sýndi mér en þá hafði hann fundið fjallakönguló í vef sínum og daggardroparnir perluðu í vefnum, algjört listaverk. Þetta var í síðasta skiptið sem ég reyndi að smita hann af veiðidellunni, hans veiði var með myndavélinni.

Óli var mikill bílaáhugamaður og fannst mér hann vita allt um bíla og leitaði því gjarnan álits hans ef kaupa skyldi bíl. Hann upplýsti mig um kosti og galla þeirra en aldrei reyndi hann að hafa áhrif á hvaða tegund yrði fyrir valinu, alltaf svo hógvær og tillitssamur.

Síðast þegar við hjónin keyptum bíl vorum við búin að skoða og reynsluaka en ég var ekki alveg viss, fékk ég vin minn til að prófa með mér! Þegar hann var búinn að gefa aðeins í upp brekku og fara yfir smá ójöfnur brosti hann, þá vissi ég að mér væri óhætt að kaupa þennan.“

Með þessum fátæklegu orðum kveð ég þig kæri vinur, þín verður sárt saknað en minningin um góðan dreng lifir.

Elsku Björg, Anna Kristín, María og fjölskyldur og aðrir aðstandendur, ykkur sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Halldór Pétur
Ásgeirsson.