Sesselja Eiríksdóttir fæddist í Stykkishólmi 22. ágúst 1941. Hún lést 11. júní 2023.
Foreldrar: Unnur Jónsdóttir húsmóðir og Eiríkur Helgason rafvirkjameistari.
Systkini: Auður Lella látin, Nína Erna látin, Helgi látinn, Þorsteinn og Aðalheiður Steinunn.
Sesselja giftist Óla Bjarna Jósefsyni (f. 1. ágúst 1938, d. 10. júlí 1991) þann 29. maí 1960 í gömlu kirkjunni í Stykkishólmi. Seinni eiginmaður Sesselju var Hjalti Eiríkur Ásgeirsson (f. 18. apríl 1939, d. 3. des. 2001) Þau giftu sig 22. ágúst 1992 í Þingvallakirkju.
Sambýlismaður síðastliðin 8 ár var Snjólfur Fanndal (f. 4. maí 1940, d. 3. maí 2023).
Börn Sesselju og Óla eru:
1) Unnur, hárgreiðslumeistari, fædd 26. mars 1961, gift Jóni Aðalbirni Kratsch, börn: Ólöf Birna og Davíð Örn.
2) Katrín, kennari, fædd 2. október 1962, ekkja Hafliða Sívertsen. Börn: Grétar Már, Atli Rafn og Hulda Sesselja.
3) Kristján, húsasmíðameistari, fæddur 14. mars 1964, giftur Kristínu Höllu Þórisdóttur, börn: Þórir og Helena Ósk.
Barnabarnabörnin eru 15 og eitt á leiðinni.
Sesselja ólst upp í Stykkishólmi, hún flutti ung til Reykjavíkur og bjó þar alla ævi. Sesselja gekk í Grunnskóla Stykkishólms og hefur setið fjölda námskeiða bæði hér heima og erlendis. Fyrstu búskaparárin sinnti Sesselja húsmóðurstörfum og vann á veitingastöðum þegar færi gafst. Hún var ein af fyrstu dagmömmum í Reykjavík og starfaði sem dagmamma í um átta ár. Sesselja starfaði sem deildarstjóri ræstingardeildar á Landspítala Háskólasjúkrahúss í um 30 ár.
Öll handavinna lá mjög vel fyrir henni og skipti þá ekki máli hvort var um saumaskap í saumavél, útsaum, prjón, hekl, útskurð eða silfursmíði að ræða, allt lék í höndum hennar.
Hún var virk í félagsstörfum, hún var ein af stofnendum félags dagmæðra í Reykjavík, var virkur þátttakandi í félagi eldri borgara í Grafarvogi, var formaður skemmtinefndar og formaður félagsins. Sesselja var með námskeið í skarti hjá félaginu í nokkur ár. Hún var í sóknarnefnd Grafarvogskirkju og tók að sér ýmis störf innan kirkjunnar. Hún var í Lionsklúbbnum um árabil og ITC. Í þeim félögum sem hún starfaði sat hún yfirleitt í stjórn og tók að sér formennsku.
Útförin fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 29. júní 2023, klukkan 13.
Það er ætíð erfitt að kveðja þá sem manni eru kærir. Við fjölskyldan fáum að reyna það svo um munar nú, þegar við kveðjum elsku Sessu, mömmu, tengdamömmu, ömmu og langömmu sem var svo stór þáttur í lífi okkar. Hún hefur alltaf verið svo full af lífskrafti, naut tilverunnar og lét ekkert stoppa sig þegar hún einsetti sér eitthvað, jafnvel lét hugann bera sig lengra en hún í raun gat. Hún var félagslynd og oftar en ekki lífið og sálin í hverju sem hún tók sér fyrir hendur. Það var ekki hægt annað en að hrífast með henni. Hún lagði mikla alúð í allt sem hún gerði, var listræn og skapandi og það eru ófá verkin sem eftir hana liggja úr ólíkasta efnivið. Sessa lagði líka rækt við sjálfa sig, bar sig vel og var ófeimin við að skarta eigin handverki, í stuttu máli sagt, glæsileg kona.
Ferðalög innan lands sem utan voru henni hugleikin og ófáar ferðirnar bæði á eigin vegum og í félagsskap vina eða fjölskyldu. Þessar ferðir gáfu okkur fjársjóð í minningasafnið sem mun gleðja okkur lengi og við munum sakna samverunnar.
Ömmu og langömmubörnum var Sessa einstök. Hún var með og fylgdi þeim eftir í hverju því sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau kölluðu hana stuðningsmann númer eitt og gátu treyst á að hún mætti til að hvetja sitt fólk í kappleikjum, sem og sýningum, eða hverju sem var. Hún var þeim fyrirmynd, hvatning og stuðningur til að fylgja draumum sínum.
Elsku Sessa okkar, við þökkum þér samfylgdina. Það er stórt skarð komið í okkar góða hóp sem aldrei verður fyllt. En minningin þín lifir og við erum ríkari fyrir að hafa átt þig að, þú verður alltaf elskuð og aldrei gleymd.
Kristján og Kristín, Þórir og Tinna,
Helena Ósk og Bergur
Elsku amma Sessa, það er sárt að hugsa til þess að þú hafir kvatt þennan heim svona skyndilega.
Þú varst hörkudugleg og eðal skvísa sem passaðir vel upp á að vera alltaf fín og flott. Þú áttir mörg áhugamál eins og glerið, skartgripina og prjónaskapinn. Við erum svo heppin að eiga allt sem þú hefur búið til handa okkur í gegnum árin. Það mun minna okkur á allar hlýju minningarnar sem við áttum saman. Þú varst svo dugleg að ferðast, bæði innanlands og utan, þá koma upp í hugann allir diskarnir sem þú safnaðir frá mismunandi stöðum. Þú ferðaðist alveg til þíns hinsta dags og það yljar að vita að þú hafir notið þín þessa helgi. Við erum svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu og börnin okkar að hafa kynnst langömmu sinni. Þú varst svo stolt af langömmubörnunum þínum og við munum halda minningunni þinni á lofti, elsku amma.
Við vitum að afi og pabbi hafa tekið vel á móti þér og það er gott að hugsa til þess að þið séuð saman á betri stað og vakið yfir okkur.
Elsku gullin hennar ömmu sinnar,
Grétar, Atli og Hulda Sesselja.
Kveðja til þín elsku Sessa mín!
þegar ég hugsa um okkur systkinin, Sessa mín, þá finnst mér í gegnum árin að húmorinn hafi verið svo ríkjandi; stríðnin, að segja sögur og mikið hlegið þetta finnst mér hafa markað okkur í gegnum ævina. Við skemmtum okkur ansi vel saman en tímarnir breytast og fjölskyldur stækka og allir hafa nóg með sitt og sín áhugamál en þó svo við hittumst ekki eins mikið og í gamla daga finnur maður alltaf hve vænt okkur þótti hverju um annað.
Ástríki, ástúð og ást.
En hvað er ástúð nákvæmlega? Að vera hugtak sem við notum, innsæi, án þess að stoppa mikið til að hugsa um merkingu þess, stundum lendum við í villum og við lítum á það sem þátt sem er einfaldlega til staðar þegar við höfum samskipti við einhvern. En sannleikurinn er sá að það er eitthvað sem birtist ekki og hverfur af sjálfu sér þegar við umgöngumst mismunandi fólk; það er alltaf til staðar og áhrif þess setja mark á okkur og það er það sem ég er svo þakklát fyrir að hafa fundið frá ykkur, ástríki og ást.
Minningin segir mér að þessi fallega saga um yndislega og góða foreldra og yndisleg og góð systkini er það, að ekkert annað skiptir máli í þessari fallegu lífsgöngu Unnar og Eiríks fjölskyldu.
Sem ung stúlka fluttist ég frá Stykkishólmi og fór suður til Reykjavíkur. Sessa og Óli tóku mér opnum örmum og fékk ég að gista hjá þeim í stofunni. Ég hugsa um hvort þau hefðu ekki verið stundum þreytt á þessari unglingsstúlku sem kom oft með vinkonu sína í heimsókn í Álftamýri til þeirra, með lokað inn í eldhús á með þær vinkonurnar vöskuðu upp eftir kvöldmatinn og hlustuðu á útvarpið með Bítlana og Lög unga fólksins í botni, sungu og dönsuðu svo það hlýtur að hafa heyrst hávaðinn um alla blokkina en aldrei sögðu þau orð.
Svo var það þessi dásemd sem þau áttu; Unnur, Kata og Kristján. Í minningunni voru þau alltaf stillt, aldrei óþekk og mér fannst þau fallegustu börn í heimi og þvílíkt sem mér þótti vænt um þau og svo fannst mér alltaf fjölskylda Sessu öll svo yndisleg og góð.
Annað er mér minnisstætt við Sessu, hún var dagmamma og passaði börn. Þau komu snemma á morgnana og fóru seinnipartinn, þau voru eins og börnin hennar. Á hverjum morgni komu þau hlaupandi inn í íbúðina og beint upp í fangið hennar, þau voru svo glöð og augljóst hvað þeim leið vel hjá henni og þegar Óli kom heim í hádeginu þá var sko fjör.
Helgarferð með börnin í sumarbústað.
Hvenær í ósköpunum hefðu foreldrar í dag leyft mjög ungum börnum sínum að fara heila helgi með dagmömmu sinni í sumarbústað og dveljast með henni heila helgi? Þetta gerði Sessa og þótti ekkert mál.
Ég kveð þig núna elsku systir og þakka þér fyrir allt, nú hefur þú gengið þinn æviveg og ég veit að Óli tekur vel á móti þér, eins og ættingjar og vinir sem þótti afar vænt um þig og hafa gengið með þér æviveginn.
Missir ykkar er mikill, elsku Unnur, Kata, Kristján og fjölskyldur.
En minning um góða konu mun lifa og aldrei gleymast.
Far þú í friði elsku Sessa mín.
Þín systir,
Aðalheiður St. Eiríksdóttir og Örn Alexandersson.
Við vorum heppnar að kynnast henni, sagði ég við Guðrúnu dóttur mína, þegar við höfðum þagað í nokkra stund þar sem við sátum í sól og lásum um óvænt andlát Sessu. Já, svo sannarlega var svarið.
Gurra var rúmlega hálfs árs þegar ég fór fyrst með hana til Sesselju, þá bjó hún á þriðju (frekar en annarri) hæð í blokk í Álftamýri með Óla, þeim prýðismanni sem lést um aldur fram, og krökkunum Unni, Katrínu og Kristjáni. Þetta góða fólk hefur verið hluti af lífi okkar síðan, þótt við höfum ekki umgengist mikið. Kata og Haffi, sem fór fyrir aldur fram eins og pabbi hennar, komu til Brussel og fóru á hljómleika með unglingana, Gurru og Ágústu, meðan við, gömlu skörin, gættum barnanna. Stjáni reyndist Baldri Hrafni syni mínum, ólærðum smiði, betri en enginn þegar hann leitaði sér að vinnu eftir komu til landsins rúmlega tvítugur eftir að alast upp í útlöndum.
Úr Álftamýrinni fluttu Sessa og fjölskylda í Ásgarð og ég veit ekki hve mörg börn hún fóstraði og ól upp, en þau voru mörg og lærðu öll góða siði. Það var heldur ekki merkingarlaust hjal sem þar fór fram. Loforð voru gefin eins og þegar Stjáni lofaði að fara með Gurru í bíltúr þegar hann fengi bílpróf, það stóð heima að kvöld eitt mörgum árum seinna stóð ungur maður fyrir utan dyrnar til að bjóða heimasætunni, nokkrum árum yngri, í ökuferð – Stjáni var kominn með bílpróf.
Að því kom að Sesselja ákvað að hætta að vera dagmamma, ég held að hún hafi hugsað með sér að útskrifa Gurru og Dóru en þær voru óaðskiljanlegar vinkonur og hætta svo. Dóra og Gurra hittust af tilviljun í Kaupmannahöfn daginn áður en Sesselja kvaddi þennan heim og létu taka af sér mynd saman til að senda henni.
Hún fór að vinna við ræstingar á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Ekki leið á löngu áður en ég sá að ráðinn hefði verið nýr ræstingastjóri á þeim stóra vinnustað: Sesselja Eiríksdóttir – af hverju varð ég ekki hissa?
Síðustu árin hef ég hitt Sesselju og Snjólf í útgáfuhófum hjá Benedikt bókaforlagi, þau voru alltaf glöð og nutu greinilega lífsins. Snjólfur lést fyrr á árinu, ég sá nýlega færslu frá Sessu á Facebook um að það yrði einmanalegt í húsbílnum án hans í sumar. Almættið hefur ákveðið að hún þyrfti ekki að upplifa einmanaleikann.
Ég votta fjölskyldunni samúð og bið Guð að blessa minningu Sesselju Eiríksdóttur.
Valgerður Bjarnadóttir
Að missa góða og yndislega vinkonu er sárt og skilur eftir sig stórt tómarúm. Við hittumst eða töluðum saman í síma nær daglega. Sesselja var mjög sterk persóna, ákveðin og sanngjörn, vinur vina sinna. Hún var góður, skemmtilegur og jákvæður ferðafélagi. Fórum í siglingu og til sólarlanda og alltaf gaman. Æfðum okkur í bridge, spiluðum ólsen-ólsen eða eitthvað annað. Hún heimsótti mig til Kanarí og til Danmerkur þegar ég bjó þar.
Það verður skrítið að mæta í Grafarvogskirkju í haust, engin Sesselja við hliðina á mér og engin bridgefélagi. Við studdum hvor aðra í blíðu og stríðu. Sorgina þekkti Sesselja vel en bar það ekki með sér.
Elsku Katrín, Unnur, Kristján og fjölskylda. Mamma ykkar var einstök og mikill gleðigjafi. Svo mikið hreykin af ykkur, sinni stóru fjölskyldu. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Bið Drottin að blessa ykkur og varðveita.
Elsku Sesselja mín, nú verðum við ekki saman í Mörkinni þar sem við vorum búnar að sækja um sína íbúðina hvor og ætluðum að enda okkar lífdaga þar. En kallið kom allt of fljótt til þín. Takk fyrir allar minningarnar sem allar eru góðar og ljúfar.
Þín vinkona,
Jóna Þórunn.