Jasmina Frá Bosníu, starfar á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg.
Jasmina Frá Bosníu, starfar á velferðarsviði hjá Reykjavíkurborg. — Ljósmynd/Heiða Helgadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við lögðum af stað í þessa vinnu með forvitni, að fá að vita hvað varð til þess að þetta fólk flutti hingað, komast að því hver þau eru og heyra þeirra sögu. Við vildum líka sýna fram á hvaða verðmæti eru fólgin í því að fólk vilji flytjast hingað,…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við lögðum af stað í þessa vinnu með forvitni, að fá að vita hvað varð til þess að þetta fólk flutti hingað, komast að því hver þau eru og heyra þeirra sögu. Við vildum líka sýna fram á hvaða verðmæti eru fólgin í því að fólk vilji flytjast hingað, fólk af erlendum uppruna og með ólíkan menningarbakgrunn. Við sjáum og heyrum of lítið af þessu fólki, en á meðan við horfum ekki á fólk og erum ekki pínulítið forvitin um þau, þá er svo auðvelt að láta eins og þau séu ekki hérna, að það hafi ekkert breyst í samfélaginu okkar. Við töpum miklum verðmætum með því að gefa ekki öllum gaum, rétt eins og hún Pat segir í bókinni,“ segja þær Margrét Blöndal og Guðríður Haraldsdóttir um hugsunina að baki bókinni Þá breyttist allt, en þar ræða þær við 11 einstaklinga sem mætti kalla nýja Íslendinga. Sumir þeirra fluttu hingað vegna átaka heima fyrir, aðrir eltu ástina eða fluttu vegna vinnu. Sögur þessa fólks eru ólíkar, átakanlegar, erfiðar, ótrúlegar, skemmtilegar og forvitnilegar.

„Í hverri einustu frásögn er eitthvað sem kemur á óvart, ég var alltaf að uppgötva hvað ég veit lítið. Bókin veitir mjög persónulega innsýn í þeirra líf, bæði hér heima og þaðan sem þau koma. Þau eru í raun að bjóða okkur velkomin í sinn heim, leyfa okkur að skoða sinn farangur,“ segir Margrét og bætir við að henni hafi fundist athyglisvert að nokkur þeirra töluðu um hvað það væri rosalega mikil þögn á Íslandi. „Þeim finnst allt svo hljótt hér.“ Gurrí segir að henni hafi komið á óvart hversu hrifin sum þeirra séu af íslenska veðrinu.

„Agnieszka frá Póllandi og Ernesto frá Kúbu kunna mjög vel við kuldann og stunda sjósund af kappi, þeim finnst íslenska veðrið æðislegt. Aftur á móti voru foreldrar tveggja viðmælenda ekki eins hrifnir, héldust ekki við hér á Íslandi þegar komu í heimsókn, heldur flúðu af því að þeim fannnst allt kalt og grátt. Þetta er á skjön við hugmyndir okkar Íslendinga um að allir vilji flytja hingað,“ segir Gurrí sem einnig var hissa á reglum sem Oleksandra frá Úkraínu mætti. „Allir úkraínskir karlar 18-60 ára voru kyrrsettir heima en Oleksandra hefði getað komið hingað með sínum manni hefðu þau átt þrjú börn en ekki tvö, það vissi ég ekki fyrir.“

Þær segja að stundum hafi verið erfitt að setja sig í framandi spor viðmælenda. „Það hlýtur að vera mjög sérstök upplifun að eiga ekki föðurland, af því að einhverjir karlar ákváðu að landið þitt sé ekki lengur til og þar með ertu landlaus. Þannig er það hjá henni Susan sem er frá Kúrdistan, en hún starfar núna sem lektor á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Stríðsástand ríkti flest hennar grunnskólaár. Margt í þessum sögum er sannarlega dapurlegt,“ segir Margrét og nefnir sögu Jasmínu frá Bosníu sem dæmi. „Við grétum báðar mikið þegar hún var að segja sína sögu, en ég hafði ekki gert mér grein fyrir hvurslags hryllingur stríð er fyrr en ég sat gegnt manneskju sem lifði þetta sjálf.“

Fann ekki Hvammstanga

Þær taka fram að einnig séu í bókinni fallegar og skemmtilegar sögur.

„Til dæmis hún Liljanna frá Makedóníu, sem fann ekki Hvammstanga, en hún er hjúkrunarfræðingur sem elti ástina til Íslands. Hún var í góðu starfi í heimalandi sínu en kastaði því frá sér fyrir ást á íslenskum manni. Þegar hún kom til landsins var nótt og dimmt, en hún og maðurinn hennar búa í um eins kílómetra fjarlægð frá Hvammstanga. Þegar hún vaknaði um morguninn var maðurinn hennar farinn í vinnuna, enda nýtekinn við ábyrgðarmiklu starfi, og hún ákvað að fara á bílnum og skoða Hvammstanga, því hún hafði ekki séð bæinn í dagsbirtu. Hún keyrði í gegnum hann án þess að taka eftir honum, af því að hún gerði ráð fyrir að lítill bær væri svipaður að stærð og Borgarnes. Þetta var mjög krúttlegt,“ segir Gurrí og Margrét bætir við að sagan hennar Pat, sem kemur frá Gana, sé líka skemmtileg ástarsaga.

„Hún er orkumikil kjarnakona sem rekur Afríkubúð í Breiðholti. Hún tekur forvitni barna fagnandi sem undrast dökkan húðlit hennar eða afríska hárið og leyfir þeim að snerta. Hún vill að börn fái að rannsaka, uppgötva og spyrja, frekar en að banna þeim, því þá sé eins og litarhátturinn sé eitthvað skelfilegt sem ekki má tala um.“

Sagan hans Mo sem er frá Sýrlandi er líka merkileg, en þegar hann og fjölskylda hans höfðu dvalið í eitt ár á Selfossi fluttu foreldrar hans til Þýskalands og vildu freista þess að komast aftur heim til Sýrlands. Mo vildi verða eftir á Selfossi og íslensk fjölskylda tók hann að sér, Kjartan rakari, sem margir landsmenn þekkja, og Ingunn kona hans. Mo hafði lært að klippa hjá frænda sínum í Líbanon þegar hann var 11 ára og er nú lærður rakari og vinnur á stofunni hjá Kjartani.

Við erum eitt mannkyn

Gurrí segir að það hafi komið sér svolítið á óvart hversu erfitt virðist fyrir fólk að finna út hvernig það geti sótt sér íslenskukennslu.

„Agníeszku frá Póllandi fannst til dæmis erfiðast við að flytja til Íslands að finna hvar hún og sonur hennar gætu lært íslensku. Við getum ekki skammast yfir að innflytjendur aðlagist illa hér, ef við auðveldum þeim ekki að læra íslensku. Þegar fólk er atvinnulaust hefur Vinnumálastofnun borgað íslenskunámskeið fyrir viðkomandi, en aðrir verða að borga rándýr íslenskunámskeið. Ég held að við þurfum að taka okkur á þarna.“

Margrét segist hafa fundið þegar hún var komin með bókina í hendur hversu vænt henni þykir um viðmælendurna.

„Núna er þetta fólkið mitt. Þau tóku okkur svo vel og opnuðu hjörtu sín, voru tilbúin til að deila sögum sínum með Íslendingum. Mér finnst það svo fallegt. Þau eru ólík en öll dásamleg. Fyrir okkur var magnað að upplifa hvað þau koma frá ólíkri menningu, til dæmis hjón frá Kína sem ólust upp sem börn í menningarbyltingunni þar,“ segir Margrét og Gurrí bætir við að Oleksandra hafi verið ein af þeim fyrstu sem gengu í skóla í frjálsri Úkraínu.

„Mamma hennar var undir Rússlandi. Þannig fléttast frásagnirnar inn í mannkynssöguna. Hugsið ykkur allar sögur þarna úti að baki alls þess fólks sem hefur flutt hingað.“

Þær segja Berglindi Ásgeirsdóttur, sérfræðing í alþjóðamálum og fyrrverandi sendiherra, hafa skrifað formála að bókinni. „Þar segir hún að við eigum að fagna öllu fólki sem vill vera hér, því við erum í samkeppni við heiminn um gott fólk, vel menntað fólk og frábært fólk. Við erum eitt mannkyn.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir