Gosdrykkur Dagrún Drótt Valgarðsdóttir með Glettu, þ.e. rabarbaragos sem þykir bæði bragðgott og svalandi.
Gosdrykkur Dagrún Drótt Valgarðsdóttir með Glettu, þ.e. rabarbaragos sem þykir bæði bragðgott og svalandi. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann er fljótur til á vorin og byrjar að vaxa með miklum hraða ef vel viðrar. Hann er ólíkur öðrum garðjurtum því hann ber ávöxt í júnímánuði þegar önnur uppskera bíður. Hann er bragðbestur og safaríkastur snemma sumars en þá er gott að nýta hann og möguleikarnir eru margir

Viðtal

Atli Vigfússon

Laxamýri

Hann er fljótur til á vorin og byrjar að vaxa með miklum hraða ef vel viðrar. Hann er ólíkur öðrum garðjurtum því hann ber ávöxt í júnímánuði þegar önnur uppskera bíður. Hann er bragðbestur og safaríkastur snemma sumars en þá er gott að nýta hann og möguleikarnir eru margir. Þannig er rabarbarinn, sem allir þekkja, en svo virðist sem áhuginn sé að vaxa fyrir þessu hráefni sem rabarbarinn er. Nýjar afurðir eru að líta dagsins ljós og ungt fólk sér fyrir sér framtíð í rabarbaranum sem aðrir hafa ekki hugsað út í áður.

Dagrún Drótt Valgarðsdóttir, ung kona á Austurlandi sem rekur fyrirtækið Köngla ásamt Brynjari Darra Sigurðssyni, var á ferðinni í Suður-Þingeyjarsýslu í vikunni til þess að ná sér í rabarbara. Nokkuð er um rabarbaragarða í sveitunum sunnan Húsavíkur. Ekki stórir akrar en samt töluvert mikið magn. Fyrirtæki Dagrúnar Dróttar og Brynjars Darra er staðsett í Fljótsdal og framleiðir drykki úr jurtum og skógarafurðum. Rabarbarinn er þar í uppáhaldi. Fyrirtækið var stofnað árið 2020 eftir að það fékk styrk úr Matvælasjóði. Markmið Köngla er að sýna fram á fjölbreytileika þess að nýta jurtir í annað en það sem algengt er. Síðsumars árið 2022 hóf fyrirtækið að selja vörur sínar og fannst eigendum þess mikil áhugi á framleiðslunni og er eftirspurnin eftir því.

Bragðið þarf að vera gott

Vörurnar eru nefndar eftir vættum á svæðinu fyrir austan og saga þeirra er sögð á heimasíðunni. Þau Dagrún Drótt og Brynjar Darri leggja mikið upp úr því að umbúðir séu fallegar og áhugavekjandi. Rabarbaragosið sem nefnist Gletta er mjög vinsælt og hefur raunar slegið í gegn. Auk þess má nefna gosdrykk úr skessujurt, sem kallast Ketillaug, og einnig íste úr túnfíflum sem nefnist Nípa. Fyrirtækið Könglar selur vörur sínar aðallega á Austurlandi, þ.e. á flestum kaffihúsum og veitingastöðum í Fljótsdal og nágrenni. Má þar nefna Nielsen, Klausturkaffi, Vök, Móður jörð, Hengifoss food truck og fleiri. Viðtökurnar hafa verið framar vonum og það sem er skemmtilegast, að sögn Dagrúnar, er hvað fólk hálfgert hrekkur við að finnast þetta góðir drykkir. Hún segir að áherslan sé á bragðið og að það sé gott. Þetta bjóði upp á nýja möguleika í matargerð og nýtt viðhorf gagnvart hráefni sem er okkur nærri. Þar sem vel gengur sjá þau Dagrún Drótt og Brynjar Darri fram á að þurfa að stækka fyrirtækið til þess að anna eftirspurn.

Rabarbaragosið er frískandi

Þau eru að þróa þetta og prófa sig áfram. Rabarbaragosið Gletta er mjög frískandi og sannkallaður svaladrykkur. Dagrún Drótt hefur gaman af að safna jurtum úti í náttúrunni og sérstaklega að skera rabarbara. Hún fyllti bílinn í þingeyskum rabarbaragarði og svo byrjaði vinnslan þegar heim var komið. Hún er himinsæl með rabarbaragosið og þá drykki sem þegar eru komnir í framleiðslu. Því má trúa að þegar fyrirtækið stækkar að nýjar afurðir verði settar á markað enda eru verkefnin mjög gefandi og virkilega spennandi. En rabarbarinn er svo bragðgott búsíslag.

Til Íslands frá Rússlandi

Löng saga rabarbararæktunar

Rabarbari var snemma ræktaður í Kína og Tíbet og barst til Evrópu eftir því sem tíminn leið. Sumir segja að hann sé kominn til Íslands frá Rússlandi en lítið er um hann skrifað. Hann á sér langa sögu á sveitabæjum og var það keppikefli margra að eiga lítinn rabarbaragarð til þess að hafa í saft og sultur, eftirrétti og fleira gott.

Fyrsti rabarbaragrauturinn á vorin var alltaf vinsæll og þó rabarbaragarðurinn væri ekki girtur af, þá gerði það ekkert til því kindurnar átu hann ekki. Á sumum bæjum var þetta mikið búsílag og var rabarbari á krukkum í löngum röðum í gömlu, köldu búrunum á bæjunum. Rabarbarperur voru sunnudagsmatur sem börnin hlökkuðu til að fá. Rabarbarasultan hefur alltaf verið ómissandi á steikina og til er saga af 99 ára konu í Aðaldal sem aldrei borðaði annan garðmat á sinni ævi en rabarbara. Í nútímanum þætti það ekki fjölbreytt fæði.

Rabarbaragörðum hefur heldur fækkað í seinni tíð og færri hafa hugsað um það að bera á þá húsdýraáburð til þess að uppskeran verði betri á bragðið og safaríkari. Hver veit nema að nú sé þetta að snúast við, því áhuginn er að vaxa og er fyrirtækið Könglar dæmi um það.

Þjóðsögur

Skessan Gletta

Það er gömul sögn að á heiðnum tímum hafi verið mikill tröllagangur á milli Borgarfjarðar eystri og Kjólsvíkur. Eru margar sagnir sem segja frá tröllskessum sem þar bjuggu, t.d. systrunum Gríði og Glettu, en frásagnir af þeim má finna í þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar.

Gletta var sérlega skæð og átti til að seiða til sín skip og valda mannskaða. Var hún svo fyrirferðarmikil að byggðin lagðist í eyði um tíma. Hún hélt þá til í fjallinu Glettingi.

Helgur maður var fenginn til að vígja fjallið og segja sumir að hún hafi flutt sig um set, en aðrir segja að hún hafi flutt vegna þess að engan mat var lengur að fá í bjarginu suður og upp frá Desjamýri í Borgarfirði.

Höf.: Atli Vigfússon